Söfnunarkassar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:09:33 (7478)


[15:09]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir fyrirvara mínum við undirritun nál., en hann lýtur að því sama og ég gerði að umtalsefni í séráliti mínu varðandi breytingar á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands. En það er einfaldlega vegna þess að sú nauðsynlega, siðferðilega umræða sem þarf að fara fram hefur ekki farið fram hér. Það eru mjög deildar meiningar um áhrif spilakassa og samtengdra spilavéla og meðan svo mótsagnakennd skilaboð koma til skila þá tel ég að þessi umræða sé ekki til lykta leidd.
    Með þessu frv. er í rauninni verið að lögfesta starfsemi sem lengi hefur verið við lýði, mislengi að vísu, og ég treysti mér ekki til þess, án þess að þessi siðferðilega umræða fari fram, að leggjast gegn því að því verði settur lagarammi sem hér er fyrir hendi, og margir hafa raunar talið að væri löglegt, og þá væri þetta frv. út af fyrir sig alveg óþarft, væri það rétt. Þannig að einhver misbrestur hefur verið á fyrst nauðsynlegt þykir að hafa þennan lagaramma sem hér er verið að leggja til að settur verði.
    Ég get ekki tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að það sé ekki til bóta að setja ákveðnar skorður við þessari starfsemi. Ég held að það sé til bóta. Það merkir það líka, að það verður að fara eftir þessum skorðum, það verður að fylgja þeim reglum sem settar verða og það er kannski mergurinn málsins. Eftirliti hefur verið mjög ábótavant og hvernig á að ná utan um það mál veit ég ekki. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að þessi umræða verði tekin upp og muni hv. síðasti ræðumaður, 14. þm. Reykv., gera alvöru úr því loforði sínu að flytja frv. á næsta þingi um að þessi starfsemi verði bönnuð þá mun það a.m.k. hafa þau áhrif að hér fari fram þessi þarfa siferðilega umræða sem ég sakna mjög.
    Ég get ekki fortakslaust tekið undir það að hér sé hrein ávísun á spilafíkn frekar en með annarri starfsemi, en vera má að það sé svo og þetta er mál sem einfaldlega hefur ekki verið kannað nógu vel til þess að hægt sé að alhæfa af eða á um það. Og það er annað sem gerir það að verkum að ég treysti mér ekki til að leggjast gegn þessu máli. Hitt atriðið er það að hér er um mikilvæga fjáröflun að ræða og þau samtök sem hér standa að eru allra góðra gjalda verð og það verður að tengja þetta allt saman. Séu samtök sem hér um ræðir, rétt eins og Háskóli Íslands, svipt tekjumöguleikum þá er það út af fyrir sig alvarlegt mál og það verður að tengja þessi tvö atriði mjög vel saman og tryggja bæði að það sé ekki verið að ýta hér undir alvarleg einkenni spilafíknar á Íslandi og jafnframt að það sé ekki verið að svipta mikilvæg líknarsamtök og önnur samtök sem hér eiga hlut að máli, Rauða kross Íslands, Landsbjörgu, SÁÁ og Slysavarnafélag Íslands, tekjum vegna umræðu sem ekki hefur fengist botn í. Þetta held ég að sé kannski mergurinn málsins.
    Það er eitt annað sem ég tel ástæðu til að gera hér að umtalsefni, þótt það komi þessu máli ekki með beinum hætti við, en það eru leiktækjasalirnar sem eru úti um allt. Þessir leiktækjasalir gera hvorki út á söfnunarkassa, spilakassa né heldur happdrættisvélar Háskóla Íslands, nema þá að einhverjum hluta. Mér er ekki alveg kunnugt um hvort það hefur orðið eitthvert samkrull þar, en þarna er engu að síður um að ræða eitt atriði í viðbót sem ég tel fulla ástæðu til þess að fylgjast með. Þar mun aldurstakmark vera 14 ára og í kringum þessa spilasali, suma hverja, hefur verið mjög alvarlegt ástand og börn niður í mjög lágan aldur og unglingar hafa haft þetta sem einhvers konar félagsmiðstöðvar og það sýnir bara hversu mjög

borgaryfirvöld, alla vega hér, hafa brugðist í því að vera með almennileg tilboð fyrir þessa unglinga og þetta eru ekki jákvæðar félagsmiðstöðvar. Mér er kunnugt um að foreldrar með ábyrgðartilfinningu hafa haft verulegar áhyggjur af börnum sínum og þarna hefur, í kringum einhverja af þessum stöðum, verið töluvert um óreglu og ýmiss konar starfsemi, sem ég held að ekki nokkur maður mæli bót. Þannig að ef við berum gæfu til þess að fara út í þá umræðu sem ég hef hér lýst eftir þá vil ég að þetta verði tekið inn í þá umræðu líka.
    Eins og sakir standa styð ég þær brtt. sem komið hafa fram við þetta frv. Jafnframt styð ég frv. með þessum fyrirvara.