Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 18:49:22 (7542)


[18:49]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum vikum hefur mikill tími nefndarinnar farið í að ræða tillögur frá hæstv. umhvrh. sem snerta embætti veiðistjóra og þá starfsemi sem fram fer á vegum þess embættis. Nú hefur hæstv. umhvrh. dregið til baka þær brtt. sem snúa að því að sameina þessa starfsemi Náttúrufræðistofnun. Hins vegar stendur þá eftir sá þáttur málsins sem snýr að staðsetningu embættis veiðistjóra. Því var lýst yfir í nefndinni í gær af hálfu nokkurra nefndarmanna þegar aðstoðarmaður ráðherra var á nefndarfundinum að það mundi mjög greiða fyrir afgreiðslu þessa máls ef starfandi umhvrh. lýsti því skýrt yfir að embætti veiðistjóra yrði ekki flutt nema með samþykki Alþingis. Aðstoðarmaður umhvrh. tók að sér að koma þessum tilmælum á framfæri við starfandi umhvrh. og ég vil þess vegna inna starfandi umhvrh. eftir því hvort hann sé reiðubúinn að gefa þá yfirlýsingu hér við upphaf þessarar atkvæðagreiðslu að embætti veiðistjóra verði ekki flutt nema með samþykki Alþingis. Þar með er ekki verið að lýsa því yfir að embættið verði ekki flutt, það er enn þá opið, en það er gert ljóst að það þurfi samþykki Alþingis til. Ég vil í því sambandi nefna þau fordæmi að ávallt þegar starfsemi ríkisins hefur verið flutt þá hefur samþykki Alþingis legið fyrir. Hér er þess vegna ekki verið að biðja um nýja aðferð heldur eingöngu að hefðbundinni aðferð verði fylgt. Áður en þessi atkvæðagreiðsla hefst, þá vil ég inna starfandi umhvrh. eftir því hvort hann sé reiðubúinn að gefa þessa yfirlýsingu sem eindregið var óskað eftir í nefndinni að yrði gefin.