Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 11:59:58 (7794)


[11:59]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Mér þótti nú hv. þm. nær veruleikanum nú en í ræðunni fyrr í dag þegar hann hamaðist á hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. og ræddi um allt annað efni en þessa skýrslu því efni skýrslunnar er ósköp einfalt og skýrt, eins og ég hef margsinnis sagt og er kjarninn í mínu máli, og menn þurfa bara að lesa skýrsluna til að átta sig á því hvað í henni stendur. Ég fagna því að hv. þm. skuli taka undir þau orð mín að þetta ræðst að verulegu leyti af þeirri stefnu sem fylgt er í lánastofnunum, hvernig tekið er á málum þar og hvernig staðið er að lánveitingum. ( GÁ: Og skattastefnu ríkisstjórnarinnar.) Hann staðfesti þau orð mín með því að lesa upp og taldi að það væri til fyrirmyndar í þeirri bankastofnun sem hann var stjórnarformaður í og gaf þá til kynna að sá banki hefði fylgt aðhaldsstefnu varðandi útlán. Það er náttúrlega kjarni í þessu máli að menn noti frelsið skynsamlega.