Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 11:36:48 (7948)



[11:36]
     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns teldi ég æskilegt að hæstv. utanrrh. væri gert viðvart og hann kæmi hér til salarins.
    ( Forseti (GHelg): Forseti vill upplýsa að hæstv. utanrrh. er í húsinu og kemur eftir örfaár sekúndur.)
    Já, ég þakka fyrir.
    Virðulegi forseti. 5. maí 1993 fyrir rúmu ári síðan ályktaði Alþingi samhljóða á þann veg að í framhaldi af gerð samningsins um Evrópskt efnahagssvæði skuli teknar upp viðræður við Evrópubandalagið um tvíhliða samskipti þess og Íslands, einkum með hliðsjón af því að Austurríki, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafi sótt um aðild að bandalaginu. Því feli Alþingi ríkisstjórninni að undirbúa slíkar viðræður um hugsanlegan tvíhliða samning og tilkynna framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins um þennan vilja Alþingis.
    Eitt ár er liðið síðan þessi samþykkt var gerð. Það sem gerst hefur er að þessi fjögur ríki sem nefnd eru í ályktuninni hafa lokið samningum sínum við Evrópusambandið. Niðurstaðan er sú að aðild þeirra allra hefur verið samþykkt af hálfu bandalagsins og nú munu innan tíðar fara fram atkvæðagreiðslur í ríkjunum um þessa aðild. Það er þess vegna ljóst að á fimmta upphafsmánuði Evrópska efnahagssvæðisins blasir við sú staðreynd að bæði EFTA-ríkin sem eru með Íslandi innan EES og Evrópusambandið hafa ákveðið að leggja Evrópska efnahagssvæðið niður. Þetta er atriði sem kemur okkur í Alþb. ekki á óvart. Í júnímánuði 1992 þegar við mörkuðum afstöðu okkar til Evrópska efnahagssvæðisins, þá var það niðurstaða okkar gagnstætt því sem hæstv. utanrrh. hélt fram á þeim tíma að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið væri ekki lausn á framtíðarskipan samskipta Íslands og Evrópubandalagsins. Í ályktun þingflokks og miðstjórnar Alþb. í júní 1992 segir, með leyfi forseta:
    ,,Þar eð EES-samningurinn er ekki lausn á framtíðarskipan samskipta Íslands og Evrópubandalagsins er rétti tíminn nú að hefja samninga við EB um varanlegt form þeirra samskipta. Í raun eru valkostirnir um framtíðarskipan samskipta Íslands og Evrópubandalagsins aðeins tveir: Aðild að EB eða sjálfstæður viðskiptasamningur milli Íslands og EB. Alþb. hafnar fyrri kostinum, aðild Íslands að EB. Sjálfstæður tvíhliða viðskiptasamningur er því hin raunhæfa leið og eina úrlausnin sem dugað getur Íslandi í framtíðinni.``
    Ég rifja þetta hér upp vegna þess að ég held að ýmsum, sérstaklega hæstv. utanrrh., sé hollt að minnast þess að þegar árið 1992 vorum við ýmis hér í þessum sal sem settum fram þá skoðun mjög vel rökstudda og að vandlega athuguðu máli að EES-samningurinn væri ekki lausn á framtíðarsamskiptum Íslands og Evrópusambandsins. Hæstv. utanrrh. hæddist mjög að þessari afstöðu. Ég ætla ekki að verja tímanum hér í dag á lokadegi eða lokastundum þingsins til að rifja upp allar þær ræður. En það væri hæstv. utanrrh. hollt að fara sjálfur yfir ræður sínar og fullyrðingar þegar hann fullyrti það hér að Evrópska efnahagssvæðið mundi duga Íslandi inn í næstu öld, að Evrópska efnahagssvæðið yrði við lýði inn í næstu öld. Gaf ekki utanrrn. út greinargerðir og áróðursskjöl með heitinu Vegabréf inn í 21. öldina? Stóð ekki hæstv. utanrrh. í þessum stól í fyrra og fullyrti að öðrum EFTA-ríkjum mundi ganga svo illa að semja við Evrópusambandið að samningarnir um aðildarviðræður mundu taka mörg ár, mörg ár, hæstv. utanrrh. Þeim var lokið áður en Evrópska efnahagssvæðið var hálfs árs að aldri. Stóð ekki hæstv. utanrrh. í þessum stól og fullyrti að neikvæðu áhrifin á efnahagslífið í Sviss af því að Sviss felldi aðild að Evrópska efnahagssvæðinu yrðu svo afgerandi að Sviss mundi einangrast efnahagslega, mundi líða fyrir það efnahagslega? Hefur hæstv. utanrrh. kynnt sér hvernig kauphöllin í Sviss hefur styrkst, hvernig viðskiptalífið og fjármálakerfið í Sviss hefur styrkst, hvernig atvinnulífið í Sviss hefur styrkst?
    Staðreyndin er nefnilega sú, hæstv. utanrrh., að flestar af grundvallarfullyrðingum ráðherrans á undanförnum tveimur árum um það efni, sem við hér erum að ræða, hafa reynst rangar. Ég er ekki að rifja þetta upp hér til þess að hælast um gagnvart ráðherranum heldur einfaldlega til þess að minna hann á það nú þegar hann gengur enn á ný fram með sama örygginu, sömu spádómunum, sömu fullyrðingagleði og áður að raunhæfni yfirlýsinganna hefur ekki reynst mjög traust og það væri æskilegt að hæstv. utanrrh. færi að temja sér meiri hógværð og meiri efasemdir og minni sjálfumgleði í umgengni við samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Og ég orða það á þennan veg ,,í umgengni við samskipti Íslands og Evrópusambandsins`` vegna þess að við stöndum nú í svipuðum sporum og ríkisstjórnin stóð 1989 að þurfa að fara yfir það með veigamiklum hætti hvernig þessi samskipti eiga að vera. Það er staðreynd málsins.
    Hæstv. utanrrh. hefur haldið því fram að undanförnu að þetta sé allt saman mjög einfalt. Við höfum þennan EES-samning og hann geti dugað. Ég veit að ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra að EES-samningurinn er annars vegar samningur um viðskipti á fjölmörgum sviðum og efnahagsleg samskipti og hins vegar samningur um stofnanauppbyggingu þess svæðis, stofnanauppbyggingu þar sem eftirlit, úrlausn deilumála og annað fær tiltekið form. Það vita það allir að sá þáttur samningsins um Evrópskt efnahagssvæði getur ekki staðist þegar eitt ríki er orðið eftir, jafnvel vafasamt að hann geti staðist þegar tvö ríki eru eftir. Hvað á þá að koma í staðinn?
    Í stefnuályktun Alþb. fyrir tveimur árum settum við fram hugmyndir um það hvað ætti að koma í staðinn. Við nefndum í því sambandi í fyrsta lagi sameiginlegan gerðardóm til þess að fjalla um ágreiningsatriði. Við nefndum í öðru lagi pólitískt samráð ráðherra eða fulltrúa þeirra um sérstök ágreiningsatriði eða sameiginleg viðfangsefni. Við nefndum reglubundin samráð í þriðja lagi. Við nefndum í fjórða lagi samstarfsnefnd o.s.frv.
    Ég kynnti hér í Alþingi á þeim tíma sýnishorn sem ég fékk sérfræðinga til að setja saman af slíkum tvíhliða samningi. Hæstv. utanrrh. hæddist þá að því sýnishorni. Staðreyndin er hins vegar sú að það er eina vinnan sem liggur nú á borðum hvað snertir tilraun til þess að átta sig á því hvernig þessi tvíhliða samningur getur litið út. Utanrrn. hefur ekki enn þá getað lagt fram hvorki í utanrmn. né hér á Alþingi neinar tillögur um það hvernig þessum málum verði fyrir komið og það er ekki einfalt mál. Hver er þá skýringin á því að það hefur ekki verið gert? Skýringin hefur verið að koma fram núna á síðustu vikum. Hæstv. utanrrh. er orðinn ósammála ályktun Alþingis frá 5. maí 1993. Það er staðreynd málsins. Ef yfirlýsingar hæstv. ráðherra eru teknar alvarlega, ef greining hans á niðurstöðum viðræðna EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið er skoðuð, ef ákvörðun hans og rökstuðningur fyrir þeirri ákvörðun að flýta flokksþingi Alþfl. er íhuguð, ef ummæli hans um yfirlýsingar forsrh. eru skoðuð, þá er alveg ljóst að hæstv. utanrrh. er orðinn ósammála þessari ályktun. Hann telur það ekki vera verkefni íslenskra stjórnvalda að gera nú samning um tvíhliða samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Jafnvel utanríkisráðherra Svíþjóðar lýsir því yfir í sjónvarpsviðtali eftir utanríkisráðherrafund Norðurlanda í Viðey og í Reykjavík fyrir nokkrum dögum síðan að utanrrh. Íslands hafi fullvissað hina norrænu starfsbræður sína um það að Ísland kynni að fylgja þeim inn í Evrópusambandið. Það var merkileg frásögn Margarethu af Ugglas af fundi utanríkisráðherra Norðurlanda að utanrrh. Íslands hafi mjög dregið í efa að Ísland yrði ekki samferða öðrum Norðurlöndum inn í Evrópusambandið.
    Þá vaknar þessi spurning: Hvernig á utanrrh. að fara með samninga Íslands við Evrópusambandið ef utanrrh. er ósammála þeim markmiðum þeirra samninga Íslands við Evrópusambandið, ef utanrrh. er ósammála þeim markmiðum þeirra samninga sem Alþingi hefur sett?
    Ég lýsti því lítillega hér fyrir nokkrum dögum hve auðvelt það kann að vera fyrir ráðherrann að búa til hindranir og erfiðleika í viðræðunum sem stranda þeim og gera honum þá kleift að búa til atburðarás sem knýr fram það sem hann vill helst fá fram samkvæmt eigin ummælum, þ.e. ítarlega skoðun á því að Ísland sæki um aðild. Tökum dæmi.
    Hvernig á að koma fyrir eftirlitinu og úrskurði í deilumálum? Það er vel hugsanlegt að Evrópusambandið leggi fram þær tillögur sem eru auðveldastar fyrir Evrópusambandið, að Evrópudómstóllinn og framkvæmdastjórnin annist þetta einfaldlega og utanrrh. mundi ekki leggja mikla vinnu í það fremur en hann hefur gert til þessa að koma með gagnhugmyndir frá Íslandi. Hann hefur engar gagnhugmyndir frá Íslandi fram að þessu. Hann hefur ekki getað lagt þær fram í utanrmn. né hér á Alþingi þó að hann hafi haft heilt ár til þess að vinna að því og hann komi síðan hér til þingsins og segi: Því miður, viðræðuaðili okkar er ekki reiðubúinn í annað heldur en framkvæmdanefndin og Evrópudómstóllinn annist þetta. Til þess þarf stjórnarskrárbreytingu á Íslandi og er þá ekki skynsamlegra að sækja bara um aðild?
    Það er í þessu samhengi sem það hefur vakið athygli að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að hann hafi ákveðið að óska eftir viðræðum í Brussel um þessa samninga. Það hefur ekki farið leynt að lítið samráð hefur verið milli ráðherranna um það mál. Það er kannski skiljanlegt í ljósi þess að það er augljóst að það er ágreiningur, jafnvel verulegur ágreiningur, milli ráðherranna tveggja í þessu máli. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hefur verið ákveðið hvenær för forsrh. til Brussel verður farin? Hvernig líður undirbúningi undir þá heimsókn? Hvernig hyggst ráðherrann reifa þau viðfangsefni sem eru sérstök umfjöllunaratriði varðandi þær breytingar að tvíhliða samningur taki við af Evrópska efnahagssvæðinu? Hvaða tímasetningar hefur hæstv. forsrh. hugsað sér varðandi samningaferlið? Og að lokum: Hvernig hyggst hæstv. forsrh. glíma við það vandamál að utanrrh. í hans ríkisstjórn virðist nú þegar vera orðinn ósammála ályktun Alþingis frá 5. maí 1993, ég tala nú ekki um ef niðurstaðan verður á flokksþingi Alþfl. að Alþfl. telji rétt að Íslendingar sæki um aðild? Getur utanrrh. sem er ósammála því hvert eigi að vera markmið samningaviðræðnanna annast viðræðurnar? Í raun og veru ekki.
    Þá er vel hugsanlegt að hæstv. forsrh. ásamt sínum fulltrúum taki verkefnið yfir, en það gengur ekki í jafnmikilvægu máli og þessu að sá sem ber ábyrgð á samningaferlinu sé í grundvallaratriðum ósammála því sem verið er að fást við.
    Það er í þessu samhengi sem ég hef í nefndaráliti sett fram þá skoðun að skynsamlegt kynni að vera að bíða með staðfestingu á þeim þáttum tilskipana og gerða Evrópska efnahagssvæðisins sem þessi fullgildingarályktun fjallar um, m.a. vegna þess að ljóst er að í þessum tilskipunum og gerðum eru ýmis atriði sem kann að orka tvímælis að lögtaka á Íslandi ef um tvíhliða samning Íslands og Evrópusambandsins yrði að ræða. Ég nefni sem dæmi sumt sem tengist landbúnaði og sem hv. þm. Páll Pétursson nefndi áðan. Ég nefni líka gerðir um bifreiðar og tækjabúnað á sjúkrahúsum og í læknisþjónustu þar sem augljóst er að Evrópusambandið hefur tekið upp ákvæði sem útiloka kaup á vörum frá Japan, Bandaríkjunum, bifreiðum frá Japan og Bandaríkjunum og lækningatækjum frá Japan og Bandaríkjunum. Auðvitað er hugsanlegt að Japan og Bandaríkin breyti sinni framleiðslu þannig að hún verði í samræmi við þá staðla og kröfur sem þarna eru sett en eins og málið stendur nú hefur það ekki gerst. Þar með er ljóst að í þeim gerðum sem hér á að fullgilda stöndum við í fyrsta sinn frammi fyrir því að smátt og smátt séum við að taka upp ytri tollastefnu Evrópusambandsins og búa til mismun í viðskiptum vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu milli Evrópulandanna annars vegar og viðskipta okkar við Bandaríkin og Asíuríki og hins vegar. Og ég veit að ég þarf ekki að minna hæstv. utanrrh. á það hve oft hann lýsti því yfir varðandi Evrópska efnahagssvæðið að slíkt mundi aldrei gerast. Það er þó að gerast með fullgildingu þessara gerða sem hér eru nefndar.
    Margar gerðirnar eru hins vegar þannig að þær eru tvímælalaust til bóta. Þær munu styrkja íslenskt efnahagslíf og margt í okkar samfélagi.
    Vandinn er hins vegar sá að koma til þessarar fullgildingar án þess að ríkisstjórn Íslands hafi mótað neina stefnu um það hvernig samskiptin við Evrópusambandið eigi að vera um næstu áramót --- og ég endurtek: um næstu áramót. Ef aðild Svíþjóðar, Finnlands og Noregs verður samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þá eru ekki nema rúmir sex mánuðir þangað til menn standa frammi fyrir því að Evrópska efnahagssvæðið líður undir lok. Auðvitað getur hæstv. utanrrh. sagt: Við erum með þennan samning í höndum og við eigum að bíða eftir því að Evrópusambandið sæki á. Það er út af fyrir sig afstaða. En það breytir því ekki að við stöndum í þeim sporum að hvorki í utanrmn. né af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið sett fram markviss lýsing á því hvað eigi að taka við. Þess vegna hef ég sett fram þá tillögu í nefndarálitinu að skynsamlegast sé á þessu þingi að vísa þessari fullgildingarályktun til ríkisstjórnarinnar og hún verði til meðferðar hjá henni með öðrum þáttum sem hún þarf að ræða við Evrópusambandið á næstu mánuðum og síðan komi til staðfestingar þess hluta hennar sem menn telja skynsamlegast að staðfesta í ljósi viðræðna Íslands og Evrópusambandsins um framtíðina. Verði ekki fallist á þessa málsmeðferð þá munu þingmenn Alþb. sitja hjá við lokaafgreiðslu þessarar ályktunar.
    Virðulegi forseti. Í umræðu um það atriði sem við erum hér að fjalla um hefur nokkuð verið vikið að öðrum valkostum Íslands. Sumir hafa sett fram það sjónarmið að það sem kynni að þjóna hagsmunum Íslands best væri annars vegar að gera tvíhliða viðskiptasamning við Evrópusambandið og hins vegar fríverslunarsamning við Bandaríkin. Á fundum í utanrmn. fyrir nokkrum vikum var rætt um þann frest sem gefinn var af hálfu stjórnvalda í Bandaríkjunum fyrir einstök ríki til þess að láta í ljós ósk sína um að ganga til viðræðna við stjórnvöld í Bandaríkjunum um gerð fríverslunarsamninga.
    Ég hugsa að verulegur stuðningur sé við það á Alþingi að slíkar viðræður fari fram og það málefni sé kannað rækilega. Ég hef áður lýst slíkum áhuga. Ég held að ég fari rétt með það að í umræðum um Evrópska efnahagssvæðið, m.a. þegar ég fjallaði um drögin að tvíhliða samningi Íslands og Evrópusambandsins sem ég kynnti hér um leið og ég lýsti afstöðu Alþb., hafi ég farið yfir ýmsa þætti NAFTA-samkomulagsins og borið það saman við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og skoðað það með jákvæðum hætti út frá hagsmunum Íslands. Í ljósi þess vekur það nokkra undrun mína að í fréttatilkynningu frá forsrn., sem gefin var út fyrir nokkrum dögum, kemur fram lýsing á því erindi sem ríkisstjórn Íslands sendi bandarískum stjórnvöldum áður en fyrrgreindur frestur rann út. Ég get ekki séð á þeim texta sem forsrn. hefur kynnt að í þessu erindi felist ósk um viðræður um fríverslunarsamning og væri mjög æskilegt ef hæstv. forsrh. eða hæstv. utanrrh. gætu skýrt það mál nánar. Þó að það tilheyri ekki formlega þeirri þáltill. sem hér er til umræðu, þá er það engu að síður hluti af því máli sem við erum hér að ræða.
    Í fréttatilkynningunni kemur fram að áhugi sé á því á Íslandi að kannaður verði möguleiki á að gera samning við Bandaríkin á efnahags- og viðskiptasviðinu. Orðin ,,samningur um fríverslun`` eru hvergi notuð í þessari fréttatilkynningu. Í staðinn kemur fram síðar í fréttatilkynningunni: ,,Ríkisstjórn Íslands telur þó að efla megi viðskipti Íslands og Bandaríkjanna frekar ef gerður yrði rammasamingur um reglulegt samráð um efnahags- og viðskiptatengsl landanna. Samráðið gæti m.a. tekið til atriða svo sem fjárfestinga og á vettvangi rammasamningsins yrði tekið á nauðsyn þess að tryggja íslenskum starfsmönnum fyrirtækja sem búa tímabundið í Bandaríkjunum vegabréfsáritun á sama hátt og gildir um mörg önnur ríki, vegabréfsáritun E-1 og E-2. Önnur atriði gætu verið almenn og sérstök atriði sem lúta að íslenskum heilbrigðiskröfum í matvælaframleiðslu sem og útgáfu heilbrigðisvottorða vegna útflutnings, flugsamgöngur, upplýsingatækni og réttur íslenskra námsmanna til að stunda háskólanám í Bandaríkjunum.``
    Sú lýsing sem hér er sett fram er lýsing á samningi sem er allt annarrar gerðar en sá fríverslunarsamningur sem tæki mið af NAFTA-samkomulaginu eða rætt hefur verið um hér á undanförnum mánuðum. Ég vil því spyrja: Felur þessi afstaða ríkisstjórnar Íslands það í sér að í raun hafi ríkisstjórn Íslands hætt við að óska eftir gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin og ætli í staðinn að óska eftir rammasamningi um reglulegt samráð um afmarkaða þætti félagsmála, fjárfestinga- og efnahagsmála? Vegna þess að margt af því sem hér er talað um heyrir frekar undir félagsmál en viðskipti. Ég tel það frekar óskynsamlegt að ríkisstjórnin hafi á þessu stigi tekið ákvörðun um að óska ekki eftir formlegum, fullgildum viðræðum um fríverslunarsamning og vildi þess vegna óska eftir því að fá nánari skýringar á efni þessarar fréttatilkynningar því að við höfum ekki fengið það á vettvangi utanrmn. og ég tel málið líka vera það mikilvægt að það þurfi að gerast í þingsalnum.
    Ef ekki er leitað eftir fríverslunarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna er verið að draga úr gildi þeirrar stefnu, sem margir hafa sett fram, að skynsamlegt fyrir Ísland væri tvíhliða viðskiptasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins og fríverslunarsamningur við Bandaríkin. Mér er þess er vegna því miður ekki ljóst hver stefna ríkisstjórnarinnar er í þessum mikilvægu málum. Mér er ekki ljóst hver er stefnan varðandi viðræðurnar við Evrópusambandið og í ljósi þessarar fréttatilkynningar er mér heldur ekki ljóst hver stefnan er varðandi samskiptin við Bandaríkin nema tekin hafi verið ákvörðun um að óska alls ekki eftir viðræðum um fullgildan fríverslunarsamning. Ef svo er þá er það út af fyrir sig skýr stefna, en þá er nauðsynlegt að segja það vegna þess að hæstv. utanrrh. hefur talað þannig að undanförnu að hann vildi óska eftir fullgildum viðræðum um fríverslunarsamning við Bandaríkin. Í ljósi þeirrar yfirlýsingar koma mér efnisþættir fréttatilkynningar forsrh. töluvert á óvart.
    Virðulegi forseti. Það var óskað eftir því við fyrri umræðu um þáltill. að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. gerðu grein fyrir þessum efnisatriðum sem ég hef fjallað um svo að þinginu væri ljóst áður en það fer í sitt langa sumarhlé hver sé afstaða ríkisstjórnarinnar til þessara mikilvægu mála.