Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 12:03:07 (7949)


[12:03]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna þess sem hv. þm. nefndi hér síðast um ákvörðun ríkisstjórnar sem snýr að samningum við Bandaríkin, þá tel ég að þetta skref sem ríkisstjórnin tók og kynnt er í þessari fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar hafi verið eðlilegt og skynsamlegt í þessari stöðu og það sé fjarri öllu lagi að með þessari ákvörðun og þessum málatilbúnaði hafi menn útilokað þau skref sem hv. þm. nefndi um fríverslunarsamninga við Bandaríkin í tengslum við NAFTA-samninginn. Þvert á móti er áhugi Íslands í málinu sýndur og áréttaður og í þessari ályktun felst vilji ríkisstjórnarinnar til þess að kanna þann möguleika til þrautar. Ég tel hins vegar að ef á þessu stigi máls hefði verið ákveðið af Íslands hálfu að ganga skrefið alla leið, þá hefði því verið hafnað af Bandaríkjastjórn og ég tel að þær upplýsingar sem við höfðum frá bandarískum yfirvöldum á því augnabliki séu til marks um það að Bandaríkin eru ekki komin svo langt í sínu hugsunarferli gagnvart framhaldi NAFTA-samningsins að það hefði verið heppilegt fyrir Ísland að sækja beinlínis um formlegar viðræður um þann þátt því þá hefði að mínu mati slíkri umsókn verið hafnað. Það tel ég að hefði líka verið óheppilegt gagnvart framtíðarviðræðum okkar við Evrópubandalagið um framtíðarsamskipti Íslands og bandalagsins. Þetta vil ég láta koma fram vegna athugasemda hv. þm. sem mér fannst ágætt að skyldu koma fram einmitt í þessari umræðu eða í tengslum við hana.
    Varðandi stefnu Íslands um viðbrögð við aðild annarra EES-ríkja en Íslands að Evrópusambandinu, þá tel ég að sú stefna sé skýr og hafi lengi legið fyrir. Í samræmi við þá stefnu sem hv. þm. ræddi hér og hina samhljóða ályktun Alþingis frá því í maí í fyrra, þá mun ríkisstjórnin taka upp tvíhliða viðræður um samskipti Íslands og Evrópusambandsins í framtíðinni.
    Varðandi þann fund sem rætt hefur verið um, þá er gert ráð fyrir að fundurinn með framkvæmdastjóra bandalagsins verði 15. júlí nk. Hæstv. utanrrh. verður á fundinum í Brussel sem formaður EFTA-hópsins og á sama tíma með fjölmörgum öðrum ráðamönnum bandalagsins og því forusturíki sem þá verður tekið yfir í Evrópusambandinu, Þýskalandi. Viðræður við bandalagið, við ESB, munu af okkar hálfu miða að því í hnotskurn að Íslendingar og hafi áfram í krafti EES-samstarfsins við Evrópusambandið áhrif á þróun þeirrar samvinnu og reglna sem samningurinn tekur til, sem og að tryggja samræmda túlkun reglnanna og jafnræði milli einstaklinga og aðila í atvinnurekstri.
    Það hefur ætíð verið klárt í þessu sambandi að gangi hin EFTA-ríkin í EES í Evrópusambandið, þá verði að laga stofnanaþátt EES að þeirri staðreynd. Okkur er ljóst, eins og kom fram hjá hv. þm., að það mun kosta mikinn undirbúning og umfangsmiklar viðræður, enda er EES-samningurinn viðamikill samningur um viðamikið samstarf. Sú grein Rómarsáttmálans sem EES-samningurinn byggir á veitir hins vegar Evrópusambandinu víðtæka heimild til samstarfs við ríki utan þess. Við það bætist síðan að EES-samningurinn tryggir viðskiptahagsmuni okkar og er hluti af lögum Evrópusambandsins og því stendur samningurinn lagalega óháð framtíð EFTA og EES. Ég tel að á þessu augnabliki bendi ekkert til annars en viðunandi niðurstaða geti náðst í þeim tvíhliða viðræðum sem Alþingi, nánast samhljóða með fáeinum undantekningum, hefur lagt áherslu á að færu fram í framhaldi af óskum og ákvörðunum hinna fjögurra EFTA-ríkja, getum við sagt, um að ganga inn í bandalagið.
    Ég tel líka að það væri eðlilegt skref í sjálfu sér, þó að það sé ekki neinn meginpunktur eða meginákvörðun, eins og á hefur verið bent að ríkisstjórnin ákveði að fela stofnunum við Háskóla Íslands að gera tilteknar úttektir á stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Ég tel að þær úttektir séu til bóta fyrir okkur. Það sé gott og skýrt að hafa fyrir framan okkur hvaða þýðingu það hefði fyrir Ísland að gerast aðilar að Evrópusambandinu og úttekt af því tagi sé hjálpleg og nauðsynleg til þess að auðvelda mönnum að meta alla kosti sem eiga að vera fyrir hendi. En það breytir ekki því að það er ekki á dagskrá hjá ríkisstjórninni fremur en áður að sækja um aðild að bandalaginu.
    Vegna þess sem hv. þm. nefndi um fyrirsvar utanrrh. í málinu þá hefur hann fullt traust mitt og ríkisstjórnarinnar til þess að fara með það mál, enda hefur Alþfl. ekki óskað eftir því innan ríkisstjórnar að sameiginleg ákvörðun hennar um að aðild að Evrópubandalaginu sé ekki á dagskrá, verði tekin upp eða breytt.
    Ég ræddi í tengslum við eldhúsdagsumræðu þá stöðu sem nú er komin upp eftir að ríkin þrjú hafa náð samningum og ég tek undir það með hv. þm. að það gekk hraðar fyrir sig heldur en ég hafði vænst. Ég hélt að það mundi taka lengri tíma, en ég fullyrði að þrátt fyrir að það hafi gerst aðeins fyrr en vænta mátti og rök voru til að ætla að mundi gerast þá hefur ekkert breyst sem við sáum ekki fyrir fyrir tveimur árum. Það hefur engin nein meginbreyting orðið sem við sáum ekki fyrir fyrir tveimur árum. Ég vitnaði í eldhúsdagsumræðunni í eina tiltekna ræðu sem ég flutti á opinberum vettvangi um þá þætti og ætla ekki að endurtaka það því að um það geta menn lesið í þingtíðindum. Þó vil ég árétta að ég tel að niðurstaðan sem varð í sjávarútvegsmálum í aðildarsamningum Norðmanna komi ekki eins á óvart og menn hafa kannski talið. Ég tel að Norðmenn hefðu aldrei getað gengið til samninga með lakari kost en þeir fengu. Ég tel því ekki að það hafi orðið einhver mikil breyting og mikill sigur fyrir Norðmenn. Ég taldi að þetta væri það minnsta sem norska ríkisstjórnin gæti kynnt fyrir hagsmunaaðilum sínum gagnvart þessum þætti. Við sjáum líka að þar sem aðstæður eru svipaðar í Noregi og hagsmunir svipaðir og gerist hér hefur þessi samningsgerð ekki haft úrslitaáhrif um afstöðu manna og mundi þess vegna ekki hafa úrslitaáhrif á afstöðu manna hér, hygg ég vera, hvað þessa þætti varðar þegar það væri skoðað.
    Ég lét líka þau ummæli falla í eldhúsdagsumræðunni að okkar stefna, hin íslenska Evrópustefna, ætti að snúast um íslenska hagsmuni og íslenskan vilja og íslenskan veruleika og ég tel að þeir þættir séu óbreyttir.
    Við þessar aðstæður snýst mat á stöðu Íslands því að sjálfsögðu ekki um að kanna það í aðildarviðræðum hvort innganga í Evrópusambandið komi til greina. Það fór ekki á milli mála í endaspretti viðræðna hinna EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið að þeir sem ganga til aðildarsamninga verða fyrst að hafa gert upp hug sinn í öllum aðalatriðum og hafa mjög ríkan vilja til að semja og fallast á málamiðlanir ef

þeir ætla að koma þeim vilja sínum fram að ganga í bandalagið. Við skulum einnig hafa í huga að aðildarumsókn til að mynda Norðmanna hafði mjög langan aðdraganda. Það voru margra mánaða umræður á opinberum vettvangi og innan flokka í Noregi, á vegum stjórnmálasamtaka einnig og hagsmunaaðila, áður en málið fór í þann farveg að menn sæktu um og það voru ekki könnunarviðræður af hálfu Noregs, það voru alvöru aðildarumsóknarviðræður.
    Mér finnst mestu skipta í þessu sambandi að Evrópustefna okkar snýst ekki og greinist ekki í annars vegar aðild eða einangrun. Þetta er ekki tveggja kosta val eins og menn vilja vera láta. Ég hygg að þetta tveggja kosta val sem hefur blossað upp hafi haft áhrif í þá veru að skoðanir manna, sem mælast í könnunum, hafi mjög breyst á skömmum tíma. Einangrunaróttinn hefur gripið um sig um stund af því að mönnum hefur fundist að kostirnir væru bara tveir, aðild eða einangrun. En við höfum miklu fleiri kosti og ég hygg að þegar almenningur í landinu áttar sig á því, þá muni þessi viðhorf breytast á nýjan leik.
    Ég get sagt fyrir mig að ef kostirnir væru þessir, einangrun eða aðild, þá mundi ég hallast að aðild, ekki að einangrun. En ég tel ekki að kostirnir séu tveir, einangrun eða aðild. Ég segi því að ef einangrunarkenningin væri rétt og það biði þjóðarinnar ef hún stæði utan sambandsins að einangrast, þá ættu menn í alvöru að fara að vinna að því að skapa skilyrði til þess að við gætum gengið í sambandið. En það er ekki mín skoðun að svo sé.
    Ég vil aðeins víkja að öðrum þætti sem formaður Framsfl., sem er nýtekinn við því starfi, kom inn á um samskipti við Norðurlöndin. Ég er þeirrar skoðunar að þó að við höfum kosið að fara aðra leið en Finnar, Norðmenn og Svíar, þá muni aðild þeirra að bandalaginu verða okkur frekar til framdráttar en hitt og auðvelda okkur að sumu leyti að standa utan bandalagsins vegna þeirrar stöðu sem við höfum innan hins norræna samstarfs og þess skilnings sem okkar hagsmunir og sjónarmið njóta á Norðurlöndum. Það hefur verið mótuð skýr stefna varðandi afstöðu Íslands til norrænnar samvinnu og möguleika okkar á því sviði verði öll hin Norðurlöndin aðilar að Evrópusambandinu. Við vitum hins vegar að það væri óraunsæi að segja ekki upphátt það mat sitt að aðild þessara landa mun hafa áhrif og afleiðingar fyrir norrænt samstarf. Það mun auðvitað gerast. Það skynjum við þegar sem sækjum norræn þing og fundi. Ég hef að vísu ekki jafnríka reynslu í því og margir aðrir hv. þm. og ekki eins öflugan samanburð þar af leiðandi, en þrátt fyrir skamman feril á því sviði, þá skynja ég þó þá breytingu sem þar hefur orðið. Þess vegna mun hlutverk samstarfs Norðurlandanna í framtíðinni verða m.a. og kannski ekki síst að vera vettvangur þar sem Norðurlöndin fjalla í sameiningu um Evrópumál og þar sem þær norrænu þjóðir, hversu margar sem þær verða, við verðum að virða það að enn hafa þjóðirnar ekki sagt sitt lokaorð, fái tækifæri til að rækta tengsl sín við Evrópusambandið með heilbrigðum hætti í gegnum norrænt samstarf. Ég fjallaði um þetta í setningarræðu minni á fundi Norðurlandaráðs, ræðu sem var haldin í umboði hinna forsætisráðherra Norðurlandanna, hafði verið kynnt hér og auðvitað án skilyrða fyrir þeim íslensku þingmönnum sem mest sinna norrænu samstarfi af okkar hálfu. Í þessari ræðu var ítrekað, sem ég hef sagt áður á Norðurlandaráðsþingum, að ef fleiri Norðurlandaþjóðir gerðust aðilar að Evrópusambandinu yrði að gæta þess að norrænt samstarf uppfyllti þarfir allra Norðurlandanna hvort sem þau stæðu innan eða utan við ESB. Það var jafnframt bent á að Finnar, Norðmenn og Svíar hefðu lýst því yfir að þeir vildu efla norrænt samstarf einnig sem aðilar að bandalaginu. Það var líka bent á það í þessari ræðu að oft hefði verið áréttuð nauðsyn þess að samstarfið væri sem sveigjanlegast þannig að unnt væri með skjótum hætti að fella það að nýjum verkefnum. Í þessum tilgangi hefur þeirri nýbreytni hefur verið komið á að forsætisráðherrar Norðurlandanna gegndu víðtækara hlutverki í hinu norræna samstarfi en áður. Og það er ljóst að Evrópumálin verða fastur liður í framtíðinni á fundum norrænna ráðherra og þá ekki síst forsætisráðherranna.
    Varðandi framhaldið og hvernig við stöndum að því að fjalla um okkar stöðu ef og þegar hin ríkin hafa gengið inn, þá tel ég að hv. þm. hafi vikið að mjög mörgum athyglisverðum punktum sem þurfa að vera uppi við þá athugun alla. En það er líka ljóst að Evrópusambandið er ekki í stöðu eða telur sig hafa til þess vilja að ræða þau mál mjög efnislega við okkur fyrr en þau hafa í hendi hvort EFTA-ríkin fjögur munu staðfesta sína inngöngusamninga. Þau telja ekki að það sé gagnlegt að fara í endanlegar viðræður um þau atriði fyrr en þessir þættir liggi fyrir.
    Ég vil líka vekja athygli á því af því að þessar umræður eru skammt á veg komnar hér að það má segja að það standi ekkert upp á okkur í þessum efnum. Nú er ég ekki að segja það til þess að við ættum ekki að undirbúa okkur vel eins og hv. þm. nefndi, ég held að það sé alveg nauðsynlegt í okkar ranni. En það stendur ekkert upp á okkur. Við erum ekki að bregðast í neinu þeim samningi sem við gerðum, EES-samningnum. Við erum ekki að stefna að því að vanefna hann á neina lund og samningurinn er bindandi fyrir Evrópusambandið og aðildarríkin sem nú eru í sambandinu og þau sem verða það gagnvart okkur. Samningurinn stendur þess vegna og hann verður grundvallaratriðið í þeim viðræðum um aðlögunina sem fram munu fara.
    Ef Evrópusambandið sjálft vill breyta þessum samningum verða öll aðildarríki þess að segja upp samningnum. Sú er staðan. Þau hafa öll samþykkt þennan samning. Á hinn bóginn er ljóst og menn sjá strax að það verður að hreinsa út úr samningnum hluti sem lúta að þeim ríkjum sem ganga inn í ESB, en þar er um að ræða eingöngu tæknilegar breytingar að mínu mati. Verkefnið er því að finna hvernig hægt sé að hafa fyrirkomulag framkvæmdar á meðan, ef svo fer, að Ísland verði eini aðilinn EFTA-megin. Kannski verður þá í fyrstunni um að ræða einhvers konar einfalt bráðabirgðafyrirkomulag án þess menn

væru að gera breytingar á samningnum sjálfum.
    Það er ekki vafi á því að Evrópusambandið mun væntanlega spyrja um viðhorf íslenskra stjórnvalda til aðildar að ESB í framtíðinni og sjálfsagt munu svör okkar við þeim spurningu hafa áhrif á afstöðu þeirra í viðræðum við Íslendinga. Ég tel að ef við sækjum um breytingar á EES-samstarfinu, þá séum við í veikari stöðu gagnvart bandalaginu en ella. Þess vegna tel ég eðlilegast að Evrópusambandið eigi frumkvæði að óskum um þær breytingar því að breytingarnar eru að gerast viðsemjendamegin frá því að þessi samningur er samningur Íslands, ekki EFTA, við Evrópusambandið og ríkin sem eru aðilar að því.
    Ég er sammála hv. þm. sem hann nefndi hér áðan að það er fjöldi atriða sem þarna geta komið til eins og Alþb. hefur ályktað um sem ég held að séu skynsamleg atriði sem þurfi að skoða í þessu sambandi. Ég tel nauðsynlegt að flokkarnir í þinginu eigi sem best samstarf og samráð um að móta þau viðhorf okkar á næstu mánuðum. Við þurfum á því að halda að um þetta geti ríkt sæmileg sátt og ég tel að ályktun Alþingis hafi verið mjög merkileg að því leyti og þess vegna sé full ástæða til að reyna að halda þeirri samstöðu um málið og framhald þess sem samþykkt ályktunar Alþingis markaði að mínu viti.