Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 13:04:30 (7954)


[13:04]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að leggja nokkur orð í belg í fyrsta lagi um stöðu Alþingis almennt séð og í öðru lagi um þá tilraun til stefnumótunar í utanríkismálum sem uppi er að ég tel í raun og veru aðallega af hálfu hæstv. utanrrh., formanns Alþfl., sem hefur haft mjög sterka forustu í þeim efnum nú um alllangan tíma.
    Ég ætla fyrst að víkja að þeim atriðum sem lúta að stöðu Alþingis. Það er auðvitað nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því hvaða stöðu þau gögn hafa sem eru að koma hér inn á borð til okkar í formi blárra, þykkra bóka. Það er nauðsynlegt, eins og fram kom hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að menn greini það í einstökum atriðum hvað af þessu er nauðsynlegt fyrir Ísland, hvað er óhjákvæmilegt og hvað er algerlega óþarfi. Slík greining á þessum pappírum hefur t.d. aldrei farið fram sem væri út af fyrir sig ómaksins vert að framkvæma.
    Ég tel að það sé líka nauðsynlegt að átta sig á því í þessu sambandi að jafnvel þó að ekki sé hægt að halda því fram að þessar bækur hafi venjulegt lagagildi í landinu þá er það svo samkvæmt lögunum um aðildina að Evrópsku efnahagssvæði að það er unnt að leggja innihald þeirra til grundvallar við uppkvaðningu dóma á Íslandi og þar með hafa þessar bækur svipaða stöðu gagnvart dómstólunum og lög hafa. Munurinn á þessu tvennu er sá einn gagnvart dómstólunum að annars vegar er um að ræða lög sem hafa farið í gegnum þessa virðulegu stofnun með hefðbundnum hætti en hins vegar er um að ræða tiltekin gögn sem þessum sömu dómstólum ber að taka tillit til eins og lög væru samkvæmt orðanna hljóðan í þessum lögum um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þá er auðvitað ástæða til þess að velta því fyrir sér hvernig Alþingi er í stakk búið til að taka á þessu máli. Við sem höfum setið hér um einhvern tíma höfum vanist því, eða þannig var það alla vega á fyrstu árum okkar margra hér, að það var til siðs í þingnefndum að lesa yfir hvert einasta orð sem stóð í lagafrv. og það var sagt að nefndaformenn væru þeim mun betri sem þeir væru betri í lestri því að það vildi verða þreytandi í nefndum þegar var verið að lesa t.d. frv. til fjarskiptalaga man ég eftir í samgn. sem var um 170 greinar og urðu menn alveg ótrúlega en þó skiljanlega lúnir á þeim upplestri, ekki síst þar sem formaður samgn. var ekki talinn neinn sérstakur afreksmaður á því sviði, í flutningi. ( KÁ: Hver var það?) Ég man það nú ekki svo glöggt, hv. þm., það er nú orðið svo langt um liðið síðan. En fróðlegt er að bera þessi nákvæmu vinnubrögð, hæstv. forseti, saman við þá stöðu sem er í dag þar sem hér er slengt á borðið hjá okkur þessum gögnum þar sem vitað er að enginn einn alþingismaður mun kunna deili á þessum gögnum alveg í þaula. Margir munu auðvitað kynna sér þetta eins vel og þeir geta en enginn mun kunna deili á þessum gögnum alveg hreint í smáatriðum í einstökum atriðum eða í þaula.
    Nú hefur það auðvitað verið þannig með okkur sem hér höfum setið og sitjum að það er tiltekin verkaskipting í stjórnmálaflokkunum þannig að flokkarnir hafa skipt með sér verkum með þeim hætti að tilteknir menn eru samgn. og tilteknir menn eru í landbn. og tilteknir menn eru í umhvn. og þeir kunna deili á öllum þessum sérfræðimálum sem hér eru að fara í gegn. Ég get játað að það er fjöldi mála sem ég hef ekki treyst mér til að setja mig inn í í einstökum atriðum sem fer hér í gegnum þessa stofnun en ég fylgist með hvernig flokksfélagar mínir sem eru í viðkomandi fagnefndum þingsins afgreiða málið og þegar menn eru í stjórnarsamstarfi þá hafa menn hliðsjón af því hvað samstarfsflokkarnir eru að leggja áherslu á o.s.frv. Í raun og veru er það allt saman eðlilegt á þessum tímum flókinna fyrirbæra og vaxandi verkaskipta, þá er ekki hægt að ætlast til þess að hver einasti þingmaður kunni alla hluti sem héðan koma út. Látum það nú vera. Hitt er hins vegar verra þegar staðan er þannig að hér er verið að taka í gegn mál sem í sjálfu sér er alveg öruggt mál að enginn, ég segi enginn einn þingmaður kann alveg frá upphafi til enda. Menn vita kannski í meginatriðum hvernig hlutirnir eru en það er ekki þannig að þessi stofnun hafi farið yfir málin í smáatriðum. Og það er alvarlegt vegna þess, hæstv. forseti, að þar með er komið að kaflaskilum í þessari stofnun. Út af fyrir sig getur það verið þannig, hæstv. forseti, að við tilteknar aðstæður þurfi þessi stofnun, eins og aðrar, að endurskoða sín vinnubrögð.
    Í árdaga Alþingis Íslendinga eða eftir endurreisn þess voru þeir pappírar sem fóru um borð þingmanna, t.d. uppi í Lærða skóla eða þá hér í þessu húsi, furðu fáir, alveg ótrúlega fáir miðað við þá endalausu hauga sem snjóar hér inn í þessa stofnun í seinni tíð. Og þá var eðlilegt að ætlast til þess að menn kynnu deili á hlutunum í einstökum atriðum, í árdaga þingsins eftir endurreisn Alþingis Íslendinga. Nú er öldin önnur, nú er svo auðvelt að framleiða pappíra. Það er svo auðvelt að framleiða pappíra að nú er það ekki lengur svo að í þessu séu örfáir menn sem kunna að nostra með blað og blýant heldur er hægt að framleiða þetta í þessum vélum sem í seinni tíð heita tölvur og prentarar og ótrúlegu magni snjóar út úr þessu í seinni tíð og menn vita eiginlega ekkert hvað á þá stendur veðrið. Þannig að ef einhver veður eru válynd í þessu landi í seinni tíð þá eru það þessi óskaplegu pappírsveður sem menn sjá ekki í gegnum, það eru ekki sams konar byljir og hér forðum.
    Þetta vil ég segja fyrir mitt leyti, hæstv. forseti, að er mér áhyggjuefni varðandi stöðu Alþingis Íslendinga andspænis þessum málum. Ég get ekki neitað því að mér finnst að hlutirnir séu með þeim hætti að Alþingi þurfi að staldra við. Hvað ætlar þingið að gera? Ætlar þingið að láta bjóða sér hlutina svona, þar sem málin eru hér um bil og kannski og hvorki né eða bæði og --- og menn vita í raun og veru ekkert hvað þeir eru með? Og menn mega ekki hér í þessari stofnun, hvorki forsetinn né eða aðrir, líta þannig

á að ég sé kannski almennt fyrst og fremst að ráðast að þessu flóði, sem mér þykir þó óþægilegt sem þingmanni vegna þess að mér finnst að maður hafi þá skyldu að vita nokkurn veginn hvað hér fer um borð. Maður er kosinn hingað af fólki, manni er sýndur mikill trúnaður með því að fólk er að kjósa mann inn í þessa stofnun og mér finnst að maður eigi að hafa þann lágmarksmetnað, a.m.k. gagnvart sjálfum sér, að maður reyni af fremsta megni að standa undir þeim trúnaði sem manni er sýndur af þeim kjósendum sem treysta manni til þess að vera í þessari stofnun. Þetta vildi ég nefna hér í fyrsta lagi, hæstv. forseti, varðandi þessi mál, sem ég hafði reyndar hugsað mér að nefna við fyrri umræðu, en komst þá ekki að.
    Hitt málið sem ég hafði hugsað mér að ræða hér eru svo þessar áherslur sem uppi eru varðandi mótun utanríkisstefnunnar af hálfu hæstv. utanrrh. og hvernig hann leggur þau mál öll upp. Máli sínu til stuðnings hefur hann verið svo vinsamlegur að taka saman eða skrifa kver sem heitir Sjálfstæðisbaráttan hin nýja, um ættjarðarást og alþjóðahyggju með meiru. Hæstv. ráðherra hefur talað þetta yfir þjóðinni og á fundum hér og þar og skrifað fjölda greina og það má segja að snúningspunkturinn í þessu kveri, sá sem ber uppi fánann, fána framtíðarlandsins, sé Vestfirðingur, EggjaGrímur, sem nefndur er til þeirrar sögu. Og það er nokkuð merkilegt að fara yfir það í hvaða samhengi hæstv. utanrrh. setur hlutina upp.
    Annars vegar talar hann um þá dyggð sem sé karlmannsheiður, sem menn gangi með í brjósti sínu, yfirvinni óttann hið innra með sér og sýni í verki hörku við sjálfan sig, eins og Eggja-Grímur hafi gert áður en hann fór í bjargið, heldur pasturslítill og hræddur og horfði á svarrandi Atlantshafið fyrir neðan sig þegar hann var að tína egg sem fyglingur í björgunum vestra. Á móti þessum göfugu þáttum karlmennskunnar, hreystinnar, eru svo aftur á móti hinir þar sem er meinsemd molbúaháttarins, andlegir afdalamenn, fullir af vanmetakennd, þar sem allt endar í óbærilega kurfslegu lagaþrasi um fyrirvara og fleyga. Annars vegar er þessi heiður uppi, karlmannsheiður og kjarkur, andspænis bjarginu mikla og hinu brimaða Atlantshafi og svo alþjóðahyggjan. Það er dálítið sérkennilegt hvernig hæstv. ráðherra utanríkismála tekst að koma alþjóðahyggjunni og Eggja-Grími saman í eitt númer, en honum tekst það. Alþjóðahyggjan og framfaraviljinn, viljinn til samstarfs við aðrar þjóðir, þar sem fara fyrir og í forustu Alþfl. og hluti Sjálfstfl., en með í för molbúaháttarins, afdalamennskunnar, eru þjóðernishyggjan, fortíðarhyggjan, sjálfsþurftardýrkunin og allir hinir stjórnmálaflokkarnir.
    Þegar hæstv. utanrrh. gerir svo upp stöðuna, af hverju þurfum við að skoða málin í heild á nýjan leik, þá er það vegna þess að okkur hefur mistekist í raun og veru flest og útlendingar hafa látið orkulindirnar bíða eftir sér, eins og það er orðað í þessu kveri, erlendir fjárfestar sýna lítinn áhuga, eins og það er orðað í þessu kveri --- ég tek það fram að öll þessi merkilegu og ágætu orð eru orðrétt úr kverinu. Í þriðja lagi, landið er ekki eins hernaðarlega mikilvægt og áður og í fjórða lagi er staðan þannig að við þurfum jafnvel að búa okkur undir það að kosta nokkru til til að verja fullveldið sjálft. Sem sagt, útlendingar hafa látið orkulindirnar bíða eftir sér, erlendir fjárfestar sýna lítinn áhuga, landið er ekki eins hernaðarlega mikilvægt og áður og við þurfum kannski að fara að borga það sjálfir að verja landið með einum eða öðrum hætti. Við erum komin að endimörkum hagvaxtar og endimörkum varðandi nýtingar nytjastofna, skattheimtan er komin á enda og við erum komin á hættusvæði varðandi erlenda skuldasöfnun og fleira og fleira tínir hæstv. ráðherra til og segir, með leyfi forseta:
    ,,Andspænis þessu dugir ekki að berja sér á brjóst að hætti farísea. Það dugir ekki að haga sér eins og virkisbúar fortíðarinnar`` en það erum við hinir ,,né heldur dugir að gera stjórnmálin að fornminjasafni úr alfaraleið og gera Ísland að fornminjasafni úr alfaraleið heldur eiga menn að láta vaða.`` --- Jafnvel þó að menn finni óttann hið innra með sér þá eiga menn að bæla hann niður, láta vaða í bjargið, horfast í augu við svarrandi Atlantshafið fyrir neðan þverhnípt bjargið og láta skeika að sköpuðu hvernig fer fyrir sjálfum sér og þjóðinni. Það sem hæstv. utanrrh. hefur hins vegar vanrækt er að gera grein fyrir því hvað varð Eggja-Grími að aldurtila þegar hann seig fyrir fugl í bjargið forðum og kom ekki með neina lífsbjörg til baka.
    Þannig að hin almenna niðurstaða, eftir að hafa skoðað, mér liggur við að segja, hina hugmyndalegu og sálrænu undirstöðu utanríkisstefnu hæstv. utanrrh., er vanmetakennd. Af því að Ameríkaninn hefur ekki áhuga á því að hafa hérna her, af því að við getum þurft að fara að borga fyrir þetta sjálfir, af því að útlendingar vilja ekki sækja í orkulindirnar, þá verðum við bara að láta vaða og kasta okkur út í þetta því annars breytumst við í fornminjasafn úr alfaraleið. Ég satt að segja tel að undirstaða pólitískrar utanríkismálastefnu af þessum toga, þessi Eggja-Gríms stefna sem hér hefur verið lýst, sé ekki farsæl.
    Ég er út af fyrir sig sammála því sem menn hafa verið að segja, m.a. í þessari stofnun og víðar og víðar, þó kannski ótrúlega sjaldan í þessari stofnun, að auðvitað stöndum við hér á vissum tímamótum. Auðvitað er það þannig að bæði hefur margt breyst í heiminum á norðurhveli jarðar, a.m.k. núna í seinni tíð eftir 1989. Auðvitað er um stórkostlegar breytingar að ræða sem eru í flestum tilvikum fagnaðarefni, skapa nýja möguleika og nýjar aðstæður. Auðvitað er það líka svo að spurningin um hugsanlega aðild eða ekki aðild að bandalögunum hlýtur að vera á dagskrá og menn velta því fyrir sér og skoðun okkar alþýðubandalagsmanna er sú að við höfum ekkert þangað inn að gera. En þá finnst mér að menn eigi að nálgast þetta út frá þeim forsendum að Ísland og Íslendingar geti horft framan í þróunina og inn í framtíðina með fullri reisn en ekki niðurlútir, ekki í keng, ekki eins og pasturslitlir og kjarklausir ungir menn vestur á fjörðum hér forðum tíð.
    Ég tel að svörin við vandanum sem nú er uppi eigi að vera tvíþætt. Þau eru í fyrsta lagi ákvarðanir um utanríkisstefnu sem hefur sjálfstæði Íslands að markmiði, bindur Íslendinga ekki fasta í stór bandalög, og eins og hér hefur verið nefnt fyrr í umræðunum, heldur leiðum til baka, opnum, menn læsi sig ekki fasta inn í net, inn í blokkir, inn í bandalög, á þessari stundu, því breytingarnar eru svo hraðar að þeir sem læsa sig fasta geta misst af þeirri lest sem mestu máli skiptir þegar allt kemur til alls.
    Í öðru lagi, fyrir utan þennan sjálfstæðisþátt, er mitt svar það að innan lands þurfum við til þess að tryggja og treysta sjálfstæðið að beita því sem kallað hefur verið róttæk jafnaðarstefna eða jafnaðarstefna er leiðin að mínu mati til þess að þjóðin geti haldið þessu sjálfstæði út á við. Í fyrsta lagi með því að auka atvinnu þannig að fólk geti í raun og veru tekið þátt í þróun og uppbyggingu samfélagsins. Í öðru lagi með því að bæta almennt lífskjörin hjá þeim sem eru með lökust kjörin, með því að flytja til fjármuni á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Í þriðja lagi að flytja til fjármuni til þess að borga niður erlendar skuldir, því við þurfum að líta þannig á að efnahagsmálin eru mikilvæg undirstaða sjálfstæðisbaráttunnar, en það gerist ekki á forsendum markaðshyggjunnar einnar sem hendir út í hafsauga um þessar mundir átta þús. vinnufærum Íslendingum sem fá ekkert að gera.
    Og það var þetta síðasta atriði, hæstv. forseti, sem gleymdist í bæklingnum góða um sjálfstæðisbaráttuna hina nýju. Það var jafnaðarstefnan. Svo ótrúlegt sem það er þá gleymdist í þessum bæklingi um Eggja-Grím og dáðir hans jafnaðarstefnan. Nú vill svo til ( Gripið fram í: Eftir hvern er þetta?) að höfundurinn ( Gripið fram í: Það er búið að kynna það.) er utanrrh. og formaður Alþfl., Jafnaðarmannaflokks Íslands. Þannig að það er í raun og veru alveg kostulegt að sjá tilraun til þess frá formanni Alþfl. að gera grein fyrir hugmyndalegum grunni sinnar stefnu í utanríkismálum, sem hann gerir með þeim hætti að hann sleppir sjálfri jafnaðarstefnunni. Það kann kannski að vera að það sé vegna þess að hann telji að jafnaðarstefnan sé ekki til útflutnings og ég er út af fyrir sig sammála því að jafnaðarstefna Alþfl. sé það ekki.
    Mér finnst þess vegna að það sé margt líkt með hæstv. utanrrh. og Eggja-Grími þegar upp er staðið. Hann fór í bjargið að leita eggja, hann seig í bjargið, en hann kom aldrei með björgina til baka að lokum. Mér finnst að hæstv. utanrrh. sé hér í hættuför að því er þessi mál varðar og hann þurfi að gera sér grein fyrir því samhengi sem er í innanlandspólitíkinni annars vegar og utanríkispólitíkinni hins vegar.
    Mér sýnist hins vegar að það bendi margt til þess, eins og staðan er núna að þróast, að ákveðinn hluti íslenskra stjórnmála og íslensks stjórnmálaveruleika sæki nokkuð saman í þessum efnum, að því er varðar þessi utanríkismál. Ég tók eftir því að hinn nýi formaður Framsfl. komst þannig að orði að það ætti að kjósa um þessi Evrópumál í haust aðallega til þess að fá aðgang að kontórunum í Brussel. Og mér fannst það nokkuð athyglisverð hugmynd, komin frá Framsfl., að það væri brýnasta verkefni haustsins, og þar með væru þetta væntanlega síðustu starfsdagarnir á kjörtímabili þessu, að kjósa sig inn á kontóra í Brussel, án þess í raun og veru að gefa því neitt efnislegt innihald. Þess vegna sýnist mér að í sjálfu sér megi segja að hæstv. utanrrh. hafi náð þarna vissum hljómi í hinni nýju forustu Framsfl., vissum endurómi þar, sem ég vona að verði þó ekki til þess að þeir leggi saman í þessa ógæfulegu för sem fram undan er, sem gleymdist að skjóta undir stoðum jafnaðarstefnunnar þegar gerð var grein fyrir málinu á opinberum vettvangi, loksins.