Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 15:23:17 (7979)


[15:23]
     Vilhjálmur Egilsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil mæla fyrir brtt. frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um Lífeyrissjóð sjómanna. Tillagan gengur út á það að við frv. bætist ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:
    ,,Áður en fjmrh. staðfestir reglugerð fyrir sjóðinn, sbr. 6. gr., skal hann leita álits efh.- og viðskn. Alþingis.``
    Virðulegi forseti. Mál þetta er þannig til komið í þinginu að samtök þau sem að sjóðnum standa, þ.e. samtök sjómanna og útvegsmanna, hafa eindregið óskað eftir því að lög um Lífeyrissjóð sjómanna verði einfölduð en á einstökum réttindamálum og skyldum aðila verði tekið í reglugerð um sjóðinn eins og gildir um langflesta aðra lífeyrissjóði. Það liggur fyrir að fjárhagsstaða þessa sjóðs er afar slæm og þeir aðilar sem að sjóðnum standa vilja taka á málefnum hans af fullri ábyrgð og leita leiða til þess að þau réttindi sem sjóðurinn lofar séu tryggð þannig að ekki komi til þess innan fárra ára að það verði algjör þurrð í sjóðnum og að réttindi þau sem hafa áunnist verði að engu.
    Það hefur verið haft mikið samband við þá aðila sem að sjóðnum standa og þeir hvetja eindregið til þess að frv. verði afgreitt. Ég vil sérstaklega lesa bréf sem barst í gær frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands. Bréfið hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Fyrir Alþingi liggur nú frv. til laga um Lífeyrissjóð sjómanna. Er það ósk fulltrúa neðangreindra samtaka sem eiga aðild að sjóðnum að frv. verði afgreitt hið fyrsta sem lög frá Alþingi. Frv. var unnið af stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna með hagsmuni sjóðsins í huga og er þess farið á leit að Alþingi samþykki frv. óbreytt frá því sem efh.- og viðskn. þingsins lagði til.``
    Undir þetta rita fyrir hönd Farmanna- og fiskimannasambands Ísland, Benedikt Valsson, og fyrir hönd Sjómannasambands Íslands, Hólmgeir Jónsson.

    Ég hygg að þegar þau samtök sem að sjóðnum standa lýsa eindregnum vilja sínum til þess að frv. þetta verði afgreitt og hyggjast taka á málefnum sjóðsins af ábyrgð þá sé Alþingi ekki stætt á öðru en að aðstoða við það verk.