Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 15:44:48 (7981)


[15:44]
     Vilhjálmur Egilsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hygg að málið sé það að samtök sjómanna og allra þeirra sem nálægt þessu máli koma hafa áhuga á því að sjómenn búi við góð lífeyrisréttindi. Ég hygg að enginn, sem leggur til þessa breytingu á lögunum um sjóðinn, hafi að markmiði sínu að illskast út í þau réttindi eða sjá einhverjum ofsjónum yfir þeim. Málið snýst einfaldlega um það að þessi samtök vilja ekki að lofa sjómannsekkjum eða öðrum þeim sem þurfa á peningum að halda, fjármunum sem ekki eru til. Þau hafa ekkert vald á því, það er ekki ríkisábyrgð á þessum sjóði, hann er í annarri stöðu heldur en lífeyrissjóðir alþingismanna og ráðherra sem geta lofað réttindum út á ávísanir frá skattgreiðendum. Ég er alveg sammála hv. þm. að því leyti til að að sjálfsögðu ætti að safna í sjóði fyrir lífeyrissjóði alþingismanna og ráðherra alveg eins og fyrir aðra lífeyrissjóði. Það ætti að vera hin almenna regla varðandi alla lífeyrissjóði.
    Varðandi það hvort það nægir sem er verið að gera í reglugerðinni þá verður það einfaldlega að koma í ljós í tryggingafræðilegri úttekt þegar búið er að setja hana. Markmiðið er það að lífeyrissjóðurinn geti staðið undir sér. Ég vona svo sannarlega að þau samtök sem að sjóðnum standa nái því markmiði sínu að Lífeyrissjóður sjómanna geti staðið uppréttur og staðið um alla framtíð og veitt þau réttindi sem sjómenn eiga eðlilega kröfu á.