Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 16:11:37 (7985)


[16:11]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er algerlega sammála hv. 5. þm. Suðurl. um það að í lífeyrissjóðsmálunum er tímasprengja íslenskra efnahagsmála ef maður lítur svona 10 til 20 ár fram í tímann. Það er augljóst mál. Ég tel hins vegar að frv. hans um eftirlaunasjóði leysi ekki þennan vanda. Og ég teldi miklu skynsamlegra að það yrði reynt að skapa sem víðtækasta samstöðu um nýtt frv. að rammalöggjöf fyrir starfsemi allra lífeyrissjóða í landinu. Mér er kunnugt um að það frv. hefur lengi verið til í drögum í fjmrn. Og ég teldi að það væri þess vegna langskynsamlegast að hinkra aðeins með þetta sjómannafrv. þangað til þessi heildarendurskoðun lægi fyrir enda verði frv. um heildarendurskoðun á lífeyriskerfinu lagt fyrir í haust.
    Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að það er til vansa að við sem hér sitjum og höfum setið um skeið skulum ekki hafa tekið á þessum lífeyrismálum. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að eins og sakir standa og horfur eru þá munu menn engan veginn standa undir þeim kröfum sem gerðar verða hér til lífeyris eftir nokkur ár ef svo heldur fram sem horfir, engan veginn, þannig að það er óhjákvæmilegt að sníða sér á þessu sviði stakk eftir vexti og það verður ekki gert nema með tiltölulega mjög sársaukafullum aðgerðum sem geta komið niður á hinum ólíklegustu stöðum en menn verða að búa sig undir vegna þess að núverandi fyrirkomulag er stórhættulegt. Það er tímasprengja hér í efnahagskerfinu og í velferðarkerfinu á Íslandi eins og lífeyrissjóðirnir eru að mínu mati.