Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 17:14:41 (7997)


[17:14]
     Vilhjálmur Egilsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég hvet menn eindregið til þess að ljúka umræðu um þetta mál. Við vitum að þetta er afar viðkvæmt mál og þegar málið var afgreitt á sínum tíma, fyrir þrettán árum, þá höfðu þeir sem nálægt því komu sjálfsagt misjafnar væntingar og ekkert um það að segja. Það er kannski líka dæmi um það hvað þetta mál er viðkvæmt hvað það hefur dregist lengi að taka á málinu. En mín skoðun er sú, hæstv. forseti, að ef menn ætla sér að leita að einhverjum sökudólgum í þessu máli þá skipti svo sem ekki máli hvað menn taka sér langan tíma í það vegna þess að ég hygg að sú leit geti orðið endalaus. Málið snýst einfaldlega um það að málefni sjóðsins eru í ólestri hverju sem um er að kenna og það er þess vegna afar brýnt sé litið til framtíðar sjóðsins og framtíðarhagsmuna þeirra sem eiga að fá úr honum réttindi að á þessu máli sé tekið og sem fyrst. Ég hygg að það sé best að klára málið þannig að framtíðin sé í lagi og svo geta menn eytt öllum þeim tíma sem þeir vilja til þess að grafa upp hver gerði hvað og hver gerði ekki hvað í fortíðinni.