Hátíðarsjóður í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins

160. fundur
Fimmtudaginn 16. júní 1994, kl. 11:00:02 (8071)


[10:59]
     Flm. (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Á liðnum vetri, fljótlega eftir að ákvörðun forsætisnefndar Alþingis lá fyrir um að haldinn skyldi þingfundur á Lögbergi til að minnast 50 ára afmæli lýðveldis á Íslandi, kom í hlut forustumanna þingflokka að fjalla um það hvernig Alþingi gæti með viðeigandi hætti minnst þessara tímamóta. Höfðu þau mál þá áður hlotið ítarlega umfjöllun í forsætisnefndinni og nokkrar prýðilegar hugmyndir lágu fyrir.
    Frá upphafi var nokkuð um það rætt að taka til umfjöllunar og afgreiðslu svokallaðan mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem stjórnarskrárnefnd hefur nýlega skilað tillögum um. Niðurstaða þess máls er svo þáltill. sem rædd var hér fyrr á fundinum og lýtur að endurskoðun alls VII. kafla stjórnarskrárinnar, sem m.a. hefur að geyma mannréttindaákvæði hennar, fyrir næstu reglulegu alþingiskosningar.
    Einnig komu fljótlega fram hugmyndir um að eðlilegt væri að minnast afmælisins með myndarlegum fjárveitingum til sérstaklega valinna verkefna sem tengja mætti sjálfstæði þjóðarinnar í víðtækasta skilningi. Var þá m.a. litið til þeirrar áætlunar um landgræðslu og gróðurvernd sem Alþingi samþykkti árið 1974 í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Niðurstaðan varð sú að stofnaður skyldi sérstakur sjóður, lýðveldissjóður, er starfa skyldi í fimm ár. Hlutverk sjóðsins verður að veita fé til aukinna vistfræðilegra rannsókna á lífríki sjávar annars vegar og til eflingar íslenskri tungu hins vegar. Til þessa sjóðs er ætlunin að renni 100 millj. kr. árlega næstu fimm árin. Þessir fjármunir eru að sjálfsögðu til viðbótar hefðbundnum fjárveitingum til þessara málefna og munu skiptast til helminga milli þessara mikilvægu málaflokka.
    Þótt þessi tvö viðfangsefni séu ólík, annað á sviði raunvísinda en hitt á sviði hugvísinda, fara þau vel saman því þau tengjast tveimur meginundirstöðum þjóðlífs í landinu, hinni efnahagslegu og hinni menningarlegu. Ég mun nú, með leyfi forseta, lesa þá tillögu sem hér liggur fyrir á þskj. 1322:
    ,,Alþingi ályktar, í tilefni 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi, að stofna sjóð, lýðveldissjóð, og verja til hans 100 milljónum króna árlega næstu fimm ár.
    Ráðstöfunarfé sjóðsins skal ár hvert á starfstíma hans, 1995--1999, varið með þessum hætti:
    a. Helmingi fjárhæðarinnar, 50 milljónum króna, til átaks í vistfræðirannsóknum á lífríki sjávar.
    b. Helmingi fjárhæðarinnar, 50 milljónum króna, til eflingar íslenskri tungu.
    Alþingi kýs þriggja manna sjóðstjórn. Hún skal staðfesta rannsóknaáætlun skv. a-lið og reglur um stjórn verkefnisins, svo og um þátttöku vísindamanna og stofnana í því. Enn fremur skal sjóðstjórnin skipta því fé sem er til ráðstöfunar skv. b-lið og samþykkja verkefnaáætlun.``
    Um þessa tillögugerð náðist gott samkomulag innan þingflokkanna og er tillagan flutt af öllum formönnum þingflokka. Ég hyggst nú gera nokkuð nánari grein fyrir efni tillögunnar, en vísa að öðru leyti til ítarlegrar greinargerðar sem henni fylgir.
    Eins og áður er fram komið er gert ráð fyrir að 50 millj. kr. renni árlega næstu fimm árin til sérstakra verkefna er lúta að rannsóknum á lífríki hafsins. Út frá því er gengið, eðli málsins samkvæmt, að forusta um þessi verkefni verði á hendi Hafrannsóknastofnunar og vísindamanna hennar. Það er mat forustumanna stofnunarinnar að fyrir það fé sem hér um ræðir megi gera myndarlegt átak í rannsóknum, sem til þessa hafa setið á hakanum þótt mjög mikilvægar séu, til aukins skilnings á fæðukeðjunni í hafinu umhverfis landið. Jafnframt hyggst stofnunin endurskipuleggja ráðstöfun rannsóknafjárins og eftirlit mannahalds til þess að tryggja að framlög úr lýðveldissjóði nýtist sem best.
    Í greinargerð með tillögunni liggja fyrir ítarlegar upplýsingar um þau brýnu rannsóknaverkefni sem fyrir liggja hjá stofnuninni á þessu sviði. Þar má nefna rannsóknir á vistfræði nytjafiska á fyrsta ári og á þarabeltinu sem uppeldis- og hrygningasvæðis nytjafiska, rannsóknir á vistfræði svif- og botnsamfélaga og rannsóknir á orkuflæðinu um vistkerfi íslenska hafsvæðisins, sem er nátengt spurningum um afrakstursgetu Íslandsmiða.
    Flutningsmenn tillögunnar vilja taka fram að æskilegt er að vísindamenn frá öðrum rannsóknastofnunum en Hafrannsóknastofnun geti komi að þessum verkefnum í einhverjum mæli og eftir því sem við getur átt. Í tillögunni er miðað við að vistfræðirannsóknirnar verði á hendi faglegrar verkefnisstjórnar sem geri nákvæma rannsóknaáætlun. Að þessu rannsóknaverkefni loknu gangist verkefnisstjórnin fyrir ráðstefnu þar sem niðurstöður verði kynntar og gefin út ítarleg skýrsla um þær.
    Helmingur fjármagns lýðveldissjóðs skal renna til að efla og treysta grundvöll íslenskrar tungu. Þar er vissulega mikilvægt málefni á ferð á tímum örra breytinga í fjölmiðlum innan lands sem utan þegar margvíslegir erlendir menningarstraumar sækja að íslensku máli, ekki síst því máli sem æskufólk landsins talar. Flutningsmenn telja brýnt að þeim menningarstraumum sé veitt í frjóan, íslenskan jarðveg og verði þjóðtungunni til eflingar en ekki til þess að spilla henni eða niðurlægja.
    Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að ætlast er til að þeim fjármunum sem hér er um að ræða skuli skipt milli þriggja höfuðverkefna:
    1. Málræktarsjóðs.
    2. Námsefnisgerðar um íslenska tungu fyrir skólaæsku landsins.
    3. Annarra þeirra verkefna sem að mati sjóðstjórnar þjóna markmiðum sjóðsins.
    Stjórn sjóðsins er ætlað að gangast fyrir gerð verkefnaáætlunar um hin tvö síðasttöldu atriðin.
    Í greinargerð tillögunnar er sérstaklega nefnt í þessu sambandi rannsóknir á máli og málnotkun, skipulegt átak til að efla lestrar- og framburðarkennslu í skólum, menntun þýðenda, ekki síst þeirra sem fást við svokallaðan nytjatexta, aðgerðir til að stuðla að málvöndun í ljósvakafjölmiðlum og söfnun og útgáfa á sviði þjóðlegra fræða sem eru nátengd þróun tungunnar. Hér er þó ekki um tæmandi upptalningu að ræða heldur frekar sýnishorn af þeim verkefnum sem til greina koma og flutningsmenn telja mikilvæg.
    Málræktarsjóður var stofnaður með skipulagsskrá í mars 1991. Hlutverk hans er í senn að vera rannsóknasjóður og verðlaunasjóður. Hann skal styrkja nýyrða- og íðorðastarf í landinu, starf orðanefnda, útgáfu handbóka og leiðbeininga um málnotkun, orðabóka og fleira sem nánar er tilgreint í skipulagsskrá

sjóðsins.
    Það er ljóst að verkefni Málræktarsjóðs ná að nokkru leyti til þeirra verkefna sem lýðveldissjóði er ætlað að styðja, þ.e. útgáfu kennsluefnis í íslensku, en með þessum hætti yrði Málræktarsjóði gert kleift að leggja áherslu á nýyrðastarf, rannsóknastörf og þjónustu við almenning, en síður á útgáfu kennsluefnis. Við flutningsmenn teljum mikilvægt að Málræktarsjóður eflist. Í honum eru nú tæpar 20 millj. króna og við teljum brýnt að hann geti farið að starfa af fullum þrótti þegar fjárframlög koma frá lýðveldissjóði á næstu missirum. Það er sannarlega von okkar að efling Málræktarsjóðs og framlög til endurnýjunar og aukningar á námsefni í móðurmálinu á öllum skólastigum, frá leikskóla til framhaldsskóla, beri árangur og viðhaldi þrótti íslenskrar tungu og hvetji æsku landsins til þess að leggja rækt við málið og skila því enn betra til eftirkomenda sinna.
    Í tillögunni er ráð fyrir því gert að Alþingi kjósi lýðveldissjóði þriggja manna stjórn sem starfi út starfstíma sjóðsins. Þessa stjórn þarf Alþingi að kjósa í upphafi þings næsta haust. Flutningsmenn telja eðlilegt að þingflokkar nái samkomulagi um skipun valinkunnra einstaklinga í stjórnina og að um hana verði ekki pólitískur ágreiningur hér í þinginu.
    Verkefni stjórnarinnar verður að hafa yfirumsjón með ráðstöfun þess fjár sem í sjóðinn rennur. Hún skal staðfesta rannsóknaáætlun um vistfræðirannsóknir á lífríki sjávar og setja nánari reglur um stjórn þess verkefnis og um þátttöku vísindamanna og stofnana í því. Þá er sjóðstjórninni ætlað að skipta því fé sem varið verður til eflingar íslenskri tungu milli Málræktarsjóðs, námsefnisgerðar og annarra verkefna. Flutningsmenn ganga út frá því að sjóðstjórnin kveðji sér til ráðgjafar hina fróðustu menn, m.a. á sviði málvísinda og námsefnisgerðar, til þess að gera drög að verkefnaáætlun sem sjóðstjórnin svo staðfestir endanlega.
    Stjórn sjóðsins þarf enn fremur að gera tillögu um skipulagsskrá fyrir sjóðinn og er ætlast til að hún hafi samráð við forsætisnefnd Alþingis áður en sú skipulagsskrá verður staðfest með lögformlegum hætti fyrir lok yfirstandandi árs. Um sjóð af þessu tagi geta gilt lög nr. 19/1988 og með því er tryggt að Ríkisendurskoðun annist allt eftirlit með fjárstreymi úr honum. Samkvæmt tillögunni er miðað við að fjárframlög til sjóðsins hefjist á fjárlögum næsta árs, þ.e. 1995. Flutningsmenn telja mikilvægt að allri undirbúningsvinnu fyrir þau verkefni sem sjóðnum eru ætluð verði lokið á þessu ári þannig að vinna að rannsóknum og öðrum verkefnum sem tilgreind eru í tillögunni geti hafist þegar í upphafi árs 1995.
    Þá telja flutningsmenn eðlilegast að framlög til sjóðsins verði sjálfstæður fjárlagaliður undir hinni svokölluðu æðstu stjórn ríkisins, en skrifstofa Alþingis annist daglega fjárreiður sjóðsins og aðra umsýslu. Um þessi atriði mætti þó hafa aðra skipan ef um það næst samkomulag og hentugra þykir.
    Virðulegi forseti. Texti þessarar tillögu er skýr og greinargerðin er rækileg. Á miklu veltur þó að vel takist til um val og starf stjórnar hins nýja lýðveldissjóðs. Ég vil að endingu þakka meðflm. mínum, formönnum annarra þingflokka, fyrir góða samvinnu við undirbúning þessa máls og þann ásetning þeirra að ná niðurstöðu sem allir gætu verið sáttir við og sem hæfði tilefninu og væri Alþingi til sóma. Ég tel að svo sé um þetta mál. Einnig vil ég þakka þeim starfsmönnum Alþingis sem unnu að undirbúningi þessarar tillögu svo og þeim sérfræðingum sem leitað var til.
    Ég vil að endingu, virðulegi forseti, leggja til að þessari tillögu verði vísað til síðari umr., en ekki er gerð tillaga um að henni verði vísað til nefndar.