Samstarfssamningur Norðurlanda

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 13:38:48 (33)

[13:38]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér er verið að leggja til við þingið að staðfesta samkomulag um breytingu á samstarfssamningi Norðurlanda, sem fjallað var um á síðasta þingi Norðurlandaráðs og tekin þar afstaða til málsins. Ég styð samþykkt þessa samnings eða þessara breytinga á samstarfssamningi Norðurlanda, eins og ég held að hafi orðið niðurstaðan hjá okkur öllum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs á þinginu, en ég tel rétt að það komi hér fram af minni hálfu ábendingar sem varða sérstaklega 64. gr., en talsvert var tekist á um hana innan Norðurlandaráðs við ráðherranefndina, þ.e. um fjárveitingavald Norðurlandaráðs. Í þessari 64. gr. segir:
    ,,Ráðherranefnd Norðurlanda ber að leggja fyrir Norðurlandaráð til umsagnar tillögu sína að fjárhagsáætlun.
    Norðurlandaráð getur lagt til breytta forgangsröðun verkefna innan þeirra fjárhagsmarka sem ráðherranefndin hefur sett.
    Sé ekki hægt að tilgreina sérstakar ástæður ber ráðherranefndinni að fara að tillögum ráðsins þegar um er að ræða fjárveitingar innan gefinna fjárhagsmarka.``
    Þetta var það sem tekist var á um. Norðurlandaráð, þingmannavettvangurinn, óskaði eftir því að hafa fjárveitingavaldið innan ramma sem ráðherranefndin eða norræna ráðherraráðið setur. En á þetta var ekki fallist og í áliti laganefndar þingsins sem fjallaði um þetta, og alveg fram á fundardaga Norðurlandaráðs síðast, kom það fram af hálfu laganefndarinnar sameinaðrar að hún vildi túlka þessar sérstöku ástæður mjög þröngt og Hans Engel, formaður þingflokks danskra hægri manna, flutti álit laganefndarinnar. Og, með leyfi forseta, ef mér leyfist að lesa það hér örstutt á danskri tungu, af því að ég hef það ekki fyrirliggjandi í íslenskri þýðingu það sem hann segir um þessar sérstöku ástæður. Ég skil það svo að forseti hafi ekki við það að athuga að ég lesi hér á dönsku nokkrar línur úr áliti laganefndar Norðurlandaráðs. ( Forseti: Forseti heimilar það.) Takk.
    Hans Engel sagði í sínu áliti þegar hann flutti álit laganefndarinnar:
    ,,Jeg vil gerne bede om, at man er meget opmærksom på udvalgets definition af udtrykket synnerliga skäl`` --- sem er tekið úr sænskum pappírum, ,,synnerliga skäl``, sérstakar ástæður --- ,,i artiklens sidste stykke. Vi mener, at der skal helt ekstraordinäre omstændigheder til, for at ministerrådet skal kunne fravige rådets prioriteringer indenfor budgetrammen. Skulle sådanne helt specielle situationer opstå, må ministerrådet også være klar til skriftligt at begrunde sine beslutninger for rådet og eventuelt deltage i en efterfølgende forhandling om spørgsmålet.
    Udvalget mener endvidere, at det kunne være hensigtsmæssigt, om denne begrundelsespligt blev skrevet direkte ind i Helsingforsaftalen ved førstkommende revision af aftalen, og jeg vil gerne opfordre ministerrådet til at gøre det ved først givne lejlighed.``
    Ég tel rétt að þetta komi hér fram og jafnframt sú ósk talsmanns laganefndarinnar að þessi breyting, um að þessar sérstöku ástæður komi fram skriflega af hálfu ráðherranefndarinnar, verði tekin við fyrstu hentugleika upp í Helsingfors-sáttmálann. Ég hélt satt að segja að það hefði verið til athugunar að taka það upp hér við þessar breytingar sem nú eru því að í rauninni er það fyrsta tækifæri eftir að á þetta var fallist, en hæstv. ráðherra getur kannski gefið okkar skýringar á því.
    Hitt atriðið að lokum, virðulegur forseti, sem ég vildi benda á, varðar greinargerð við 1. og 33. gr. þar sem segir:
    ,,Mikilvæg niðurstaða í úttekt á vegum forsætisráðherranna var samstaða um að þróa samstarf ríkisstjórna Norðurlanda á sviði utanríkis- og varnarmála og hlutast til um nána norræna samvinnu um þau mál sem á dagskrá eru á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins, Evrópubandalagsins og á öðrum alþjóðlegum samstarfsvettvangi.``
    Ég vil vekja athygli á því að í 33. gr. er hvergi vikið að þessum stofnunum eða bandalögum, hvorki Evrópska efnahagssvæðinu né heldur Evrópubandalaginu, heldur segir þar einfaldlega, raunar í 2. mgr. 1. gr.:
    ,,Samningsaðilar skulu ráðgast hver við annan um sameiginleg hagsmunamál sem

eru til umfjöllunar í evrópskum og öðrum alþjóðlegum stofnunum og á evrópskum og öðrum alþjóðlegum ráðstefnum.``
    Þarna finnst mér verið í greinargerð að þrengja þetta með því að víkja sérstaklega að þessum fyrirbærum Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu, hið fyrra raunar þannig að það er engan veginn orðin staðreynd þetta Evrópska efnahagssvæði og eru ýmsir sem bera það fyrirbæri fyrir brjósti áhyggjufullir um það hvort það yfirleitt kemst í höfn á þessu ári eða yfirleitt. Ég vildi vekja athygli á þessu. Ég tel að evrópskur vettvangur sé víðari heldur en þarna er dreginn fram, m.a. RÖSE þar sem Evrópuþjóðir eiga hlutdeild að, flestar eða allar.