Samstarfssamningur Norðurlanda

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 13:49:18 (35)




[13:49]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þær umræður sem hér hafa spunnist lúta einkum að 64. gr. og þá því hvernig beri að túlka það ákvæði eða þær breytingar og þá sérstaklega orðalagið um að ráðherranefndinni beri að fara að tillögum Norðurlandaráðs þegar um er að ræða fjárveitingar innan venjulegra gefinna fjárhagsmarka sé ekki hægt að tilgreina sérstakar ástæður. Og það er rétt að það komi hér fram að svokölluð laganefnd hefur lagt á það áherslu að þetta sé skilgreint. Laganefnd ráðsins óskar nefnilega eftir því að fá nákvæmar skýringar á þeim ástæðum sem ráðherranefndin kynni að bera fyrir sig ef ekki yrði gengið fullkomlega að tillögum ráðsins um skiptingu fjárveitinga og orðar það svo, svo ég fari nú ekki að bjóða þingheimi upp á dönskuframburð minn, þó danska hafi verið ágætlega kennd í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði. Lagaráðið segir að það vilji leggja áherslu á að menn muni

fylgjast nákvæmlega með framkvæmd ráðherraráðsins á þessum nýju fjárlagareglum. Laganefndin eða lagaráðið vill sérstaklega leggja á það áherslu að menn skilgreini orðalagið ,,sérstakar ástæður`` sem aldeilis óvenjulegar kringumstæður í þeim tilvikum þegar ráðherraráðið fylgir ekki þessum venjulegu fjárlagareglum þá ber ráðherraráðinu í sérstakri tilkynningu að rökstyðja vandlega ástæður sínar.