Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:13:16 (40)


[14:13]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Um leið og ég þakka fyrir þessa umræðu sem hér fer fram þá vil ég segja að mér finnst það þyngra en tárum taki að við skulum þurfa eina ferðina enn að vera að ræða hér hugmyndir frá ríkisstjórninni um niðurskurð sem kemur beinlínis niður á börnum. Ég skal fyrst manna hér inni viðurkenna það að borgaryfirvöld í Reykjavík, þ.e. Sjálfstfl. í Reykjavík, hefur ekki veitt dagvistarmálum forgang. Það gerði m.a. núverandi hæstv. forsrh. ekki þegar hann var borgarstjóri í Reykjavík og þess vegna er ástand í dagvistarstofnunum borgarinnar sem nú er. Og ég verð að segja það að vinstri höndin veit ekkert hvað sú hægri er að gera eða hefur gert í þessu máli. Það breytir ekki því að þegar aðeins um 12% barna á aldrinum 0--5 ára í landinu njóta heilsdagsvistunar þá er það tómt mál að tala um að stofnanir eins og sjúkrahúsin sem byggja á sérhæfðu vinnuafli kvenna geti rétt si svona hætt þessum rekstri. Við skulum athuga að sjúkrahúsin eru ekki að reka þessar stofnanir af mannúðarástæðum, ekki vegna þess að þau geri það sem sérstakt verkefni að koma skjóli yfir börn hér í bænum, þau gera það sjálf sín vegna. Þau gera það sinna eigin hagsmuna vegna til að laða til sín fólk til starfa. Hvernig stendur á því að þegar konum, þetta eru að meiri hluta konur, eru boðin þessi starfskjör, af hverju er byrjað á því að höggva í þessi starfskjör? Tökum bílastyrki. Bílastyrkir eru eitthvað sem eru partur af starfskjörum hjá ákveðnum hópum og þeir hópar eru valdir út sem hafa bílastyrki. Það eru t.d. ráðherrar og þingmenn, ekki sóknarkonur eða sjúkraliðar. Af hverju er ekki höggvið í þetta? Er það verkefni ríkisins að sjá um samgöngutæki? Ég vissi það ekki. Við höfum hér strætó, það getur vel verið að hann fullnægi ekki þörfum okkar, frekar en leikskólarnir fullnægja þörfum þeirra sem vinna fulla vinnu, en þeir eru til staðar. Hvað með matinn? Það er niðurgreiddur matur víða, það er partur af starfskjörum. Er það í verkahring ríkisins að elda ofan í fólk? Ég vissi það ekki. Það gerir það til að laða fólk til starfa --- sem part af starfskjörum til að ná í fólk. Sama er með dagvistarheimilin. Það er liður í því að fá fólk til starfa.
    Nú hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. með aðstoð annarra í ríkisstjórninni sett tilveru 1.400 foreldra upp í loft og eins og ástandið er núna á vinnumarkaðnum og í dagvistarmálum þá á þetta fólk engan annan kost, aðeins eina leið, og það er að berjast fyrir stöðu sinni þarna með oddi og egg. [Lófatak á þingpöllum.]