Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:20:51 (44)


[14:20]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegur forseti. Mér finnst við vera komin langt út fyrir efnið í þessum umræðum. Þegar hæstv. heilbrrh. svaraði hér áðan þá talaði hann aðallega um sjúkraflutninga. Hann talaði um sjúkraflutninga og öldrunarmál. Hann talar ekki um það mál hér sem er brýnast. Það var 28. sept. sl. sem forstöðumenn sjúkrahúsa fengu að heyra að 700 börnum ætti að segja upp á dagheimilum sjúkrahúsanna og 200 starfsmönnum. Bara si svona. Og nú segir hæstv. ráðherra að þetta sé samningur milli ríkis og sveitarfélaga. Þá spyr ég fyrrv. bæjarstjóra í Hafnarfirði: Hvernig í ósköpunum stendur á því að Hafnarfjarðarbær er ekki löngu farinn að reka dagheimili St. Jósefsspítala í Hafnarfirði? Hvernig stendur á því að hann er slíkur lögbrjótur? Ég spyr að því. Mér finnst það koma hér fram að menn vita ekki hvað fer fram almennt á sjúkrahúsum. Það eru 24 tíma vaktir á sjúkrahúsum og það er afbrigðilegur vinnutími, allt öðruvísi en annars staðar. Það er þannig á sjúkrahúsum að þú vinnur kannski á skurðstofu, hæstv. ráðherra, og það kemur upp slys eða eitthvert atvik og starfsfólkið hefur ekki tök á að ná til barnanna. Hvað gerir þú þá ef við erum á venjulegum leikskóla? Hvað gerum við þá? Við þurfum öðruvísi leikskóla fyrir börn þeirra sem vinna á sjúkrastofnunum. Eru sveitarfélögin tilbúin að reka slíka leikskóla? Séu sveitarfélögin tilbúin að reka slíka leikskóla þá er það gott. En hingað til hafa þau ekki verið tilbúnir til þess. Ég segi að mér finnst vera nóg komið. Alþfl. ætlar að uppræta spillingu. Þetta er kannski einn liðurinn í því. Kannski telja ráðherrar Alþfl. að það sé einhver spilling í því fólgin að sjúkrastofnanir reki dagvistarheimili.
    En þetta er þannig á sjúkrahúsunum að þetta er notað sem stýritæki til að geta rekið deildirnar á sjúkrahúsunum.