Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:25:39 (46)


[14:25]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú orðið óhjákvæmilegt að það verði kannað hvort Sjálfstfl. stendur að þessum harkalegu aðgerðum Alþfl. Hvort það er þannig að Alþfl. einn beri á því flokkslega ábyrgð að fara fram með þessum fruntaskap gagnvart leikskólum, börnum og foreldrum, sem þar hafa aðstöðu. ( Umhvrh.: Og þingmaðurinn sem tók . . .  ) Sjálfstfl. hefur í raun og veru í þessari umræðu skorað á hæstv. ráðherra að fara fram með allt öðrum hætti en hann hefur gert. Ég tek undir þessar áskoranir Sjálfstfl. og ég vona að þar fylgi hugur máli.
    Ég bendi líka á það, virðulegur forseti, í þessu sambandi að það er einn vettvangur sem getur í raun og veru tekið núna ákvörðun um að fresta þessu máli og það er stjórnarnefnd Ríkisspítalanna. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að þar verði málið tekið upp með skipulegum hætti, sérstaklega eftir þær yfirlýsingar sem fram hafa komið hjá hæstv. ráðherra um að hann vilji taka vel á móti þeim sem ræða við hann um þessa hluti.
    Hér er auðvitað um það að ræða að leikskólar þessir hafa verið hluti af starfskjörum þessa fólks og það þýðir ekkert að segja það við börnin, foreldrana eða aðra að sveitarfélögin eigi að sjá um þetta verkefni. Það þýðir ekkert að setja hlutina svona upp. Það er í raun og veru ósvífinn útúrsnúningur. Og það að menn hafa rætt þessi mál áður úr öllum flokkum hér úr þessum ræðustól þýðir ekki að menn hafi skrifað upp á þessar grófu aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart þessu fólki eins og núverandi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Ég skora þess vegna á hæstv. ráðherra að beita sér tafarlaust fyrir því að á þessu máli verði tekið á nýjan leik með manneskjulegum samningum og sanngjörnum viðræðum sem ég veit að hann kann eða kunni a.m.k. á meðan hann var bæjarstjóri í Hafnarfirði.