Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:30:02 (48)


[14:30]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Rekstur leikskóla er ekki skriflegur hluti af ráðningarsamningi við starfsfólk heilbrigðisstofnana. Eða hvernig ætti það að vera að til að mynda aðeins 25% hjúkrunarfræðinga á Ríkisspítölunum nyti þessara kjara en aðrir ekki? Hvernig ætti það líka að vera þegar 50% hjúkrunarfræðinga sitja í þeim plássum sem til staðar eru en þær teljast á fingrum annarrar handar þær sóknarkonur sem njóta sömu kjara? Þannig er það ekki. Það er líka rangt að opnunartími leikskóla sjúkrahúsanna sé með svo ólíkum hætti sem hér hefur verið haldið fram. Hann fellur þvert á móti mjög að þeim verklagsreglum sem eru hjá öðrum sveitarfélögum. Það er staðreynd málsins og ég bið fólk um að kynna sér.
    Það er líka rétt að vekja athygli á því að stór hluti þessa rekstrar er í formi skóladagheimila en það er yfirlýst stefna sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu að bjóða grunnskólanemendum upp á heilsdagsvistun. Ég geng að því sem vísu að þessir aðilar og þessi börn sem eru á þeim aldri njóti þeirra tilboða eins og önnur börn í höfuðborginni og í nágrannasveitarfélögunum. ( Gripið fram í: Er opið um helgar þar?) Það liggur líka ljóst fyrir að hluti foreldra þeirra barna sem eru vistuð á leikskólum spítalanna eru einstæðir foreldrar og njóta þar með forgangs í leikskólum sveitarfélaga. Með öðrum orðum, það er hægt að vinna þetta mál stig af stigi eins og fyrrum menntmrh. veit, sem stoltur gekk fram fyrir skjöldu og náði fram lögum um leikskóla, samþykkt á Alþingi 18. mars 1991. Í þeim lögum, hv. þm. Svavar Gestsson, finn ég ekki stafkrók um það að það eigi að gilda önnur lög um leikskóla í rekstri ríkisins hjá sjúkrahúsum --- eða hvað? Nei, meginatriði máls er þetta: Hér er auðvitað verið að koma þeim skikk á til næstu og lengri framtíðar sem Alþingi Íslendinga samþykkti 1989 (Forseti hringir.) og aftur 1991 með leikskólalögum. Ég mun auðvitað ganga til þeirra viðræðna og starfsfólk heilbrrn. og forsvarsmenn sjúkrahúsa og ná um þessi mál ásættanlegri niðurstöðu. Það verður gert af heiðarleika, með opnum huga og umfram allt vil ég árétta það að það eru kjör þeirra barna sem þarna eiga hlut að máli og kjör annarra (Forseti hringir.) barna á leikskólum hér í landinu sem hafa forgang þegar um rekstur leikskóla er að ræða. Það verður mitt meginmarkmið.