Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 11:50:36 (79)

[11:50]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og segir í greinargerð hv. flm. þá er það deginum ljósara að landhelgisbaráttu Íslendinga er ekki lokið. Fyrir skömmu leituðu íslensk veiðiskip á nýjar slóðir skammt undan fiskveiðilögsögu Noregs í Barentshafinu. Til umræðu er óljós þjóðréttarleg skipan mála að því er varðar Barentshafið og eins og greint er frá í greinargerð með tillögunni eru uppi kröfur af hálfu margra ríkja hvað snertir forræði eða hlutdeild í forræði að því er varðar hafsbotnsréttindi á Hatton Rockall-svæðinu.
    Á undanförnum árum, eða allt frá árinu 1976, hafa staðið yfir af hálfu Íslendinga athuganir á hafsbotnsréttindum Íslands hugsanlega til suðurs á Hatton-Rockallsvæðinu. Viðræður um málið hafa átt sér stað milli íslenskra stjórnvalda og stjórnvalda Danmerkur og Færeyja annars vegar og Bretlands og Írlands hins vegar. Bretland og Írland hafa gert samning sín í milli um skiptingu svæðisins en Ísland og Danmörk hafa sett reglugerðir um lögsögu á svæðinu sem Bretland og Írland gera tilkall til. Bretland og Írland hafa vefengt lögsögu Íslands og Danmerkur en bresk stjórnvöld hafa lýst sig reiðubúin til að ræða deiluatriði, annars vegar við íslensk stjórnvöld og hins vegar við dönsk stjórnvöld. Þótt efnisleg sjónarmið íslenskra og danskra stjórnvalda stangist á erum þau sammála um að vinna saman að athugun málsins. Íslensk stjórnvöld hafa fallist á tvíhliða viðræður við bresk stjórnvöld en telja samt æskilegt að fram fari viðræður á milli landanna fjögurra. Má í því efni vísa til bréfaskrifta sem fram hafa farið milli forsætisráðherra Íslands og Bretlands og vísa ég þá nánar til bréfa Margrétar Thatcher, þáv. forsrh. Breta, frá 7. des. 1989, og svarbréfs þáv. forsrh. Íslands, Steingríms Hermannssonar, frá 2. mars 1990.
    Í framhaldi af þessum bréfaskriftum og fundi mínum við aðstoðarutanríkisráðherra Breta, William Waldegrave, sumarið 1990 var ákveðið að fela þjóðréttarfræðingum beggja landa að gera sameiginlega skýrslu um málið sem hægt yrði að miða framhaldsviðræður við. Á fyrsta fundi þeirra 11. okt. 1990 var gengið frá efnisyfirliti yfir skýrsluna og vinnuna eins og nánar hefur verið kynnt í utanrmn. Framhaldsfundur var síðan haldinn 18. apríl 1991 þar sem ég gerði grein fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda, samanber fréttatilkynningu sem birt var af þeim fundi.
    Undanfarna mánuði hafa hlutaðeigandi embættismenn og ráðgjafar íslenskra stjórnvalda unnið að þeim köflum sameiginlegu skýrslunnar sem falla í hlut Íslands. Á fundi þeirra í Reykjavík 13. apríl á þessu ári var gengið frá fyrstu drögum þeirra.
    Stefna Íslands í málinu hefur m.a. tekið mið af tillögugerð jarðeðlisfræðingsins Talwani og þykir mér í framhaldi af því rétt að gera hér lauslega grein fyrir helstu þáttum þessa máls.
    Kröfur Íslands hafa grundvallast fyrst og fremst af ákvæðum hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 10. des. 1982. Ísland hefur fullgilt samninginn en hann hefur enn ekki tekið gildi og vantar þar á staðfestingu fjögurra ríkja. Réttarstaðan ákvarðast því af venjurétti, sérstaklega þar sem Danmörk, Bretland og Írland hafa ekki fullgilt samninginn enn sem komið er. Skilgreiningu ytri marka landgrunnsins er að finna í 76. gr. hafréttarsamningsins. Aðalskilgreininguna er að finna í 1. tölulið, þar eru ytri mörk ákveðin við ytri brún landgrunnssvæðisins sem síðan er skilgreint í 3. tölulið sem landfræðilega landgrunnið, hlíðin og hlíðardrögin. Landgrunnið nær alltaf til 200 sjómílna jafnvel þótt landgrunnssvæðið nái ekki svo langt.
    Í 1. tölulið 76. gr. eru einnig sett skilyrði um svokallað eðlilegt framhald eða ,,natural prolongation``, þ.e. að um sé að ræða óslitna framlengingu hafsbotns frá landi að ytri mörkum.
    Á þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna var deilt um það að hve miklu leyti viðurkenna ætti rétt strandríkja til landgrunns utan 200 sjómílna. Í umræðum var því annars vegar haldið fram að samkvæmt þjóðarétti væri mjög víðtækur réttur strandríkja til landgrunns utan 200 sjómílna viðurkenndur en hins vegar að við tilkomu efnahagslögsögunnar og réttar allra þjóða til alþjóðahafsbotnssvæðisins bæri að takmarka þennan rétt strandríkja.
    Sem einn liður í lausn deilunnar voru samþykktar takmarkanir á víðáttu landgrunnsins í 4.--6. tölulið 76. gr. hafréttarsamningsins. Ytri mörk ber að skilgreina annað hvort með hliðsjón af þykkt setlaga samkvæmt írsku formúlunni svokölluðu eða við línu 60 sjómílur frá rótum landgrunnshlíðarinnar samkvæmt nánari skilgreiningu.
    Önnur skilyrði í 5. og 6. tölulið eiga ekki við á umræddu svæði.
    Samkvæmt hafréttarsamningnum tengjast ýmsir alþjóðlegir hagsmunir því hvernig strandríki ákveður ytri mörk landgrunnsins. Samkvæmt 8. tölulið 76. gr. og öðrum viðauka samningsins ber að leggja upplýsingar um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna fyrir nefnd um mörk landgrunnsins. Þar til nefndin fellst á skilgreiningu viðkomandi strandríkis ríkir óvissa um gildi þessara marka.
    Samkvæmt 82. gr. ber strandríki að greiða framlag til aðildarríkja samningsins eftir að hann hefur öðlast fullgildingu vegna nýtingar ólífrænna auðlinda á landgrunninu utan 200 sjómílna.
    Samkvæmt 6. tölulið 246. gr. er réttur strandríkis til að banna rannsóknir annarra ríkja á landgrunninu utan 200 mílna takmarkaður við svæði þar sem hagnýting eða rannsóknastörf fara fram eða munu fara fram innan hæfilegs tíma. Svæðið utan lögsögu strandríkja verður í umsjá Alþjóðahafsbotnsstofnunarinnar sem starfar samkvæmt XI. hluta samningsins. Þessir hagsmunir eru bundnir við hafréttarsamninginn en um það má deila hvort þeir geti talist gildandi þjóðaréttur fyrr en samningurinn tekur gildi.
    Í 76. gr. er fjallað um lögsögu strandríkis á landgrunninu. Réttur strandríkis er ekki eins víðtækur og í landhelgi þar sem það nýtur nánast sama réttar og landið sbr. 2. gr. samningsins. Lögsagan er skilgreind sem fullveldisréttindi að því er varðar rannsóknir á landgrunninu og hagnýtingu náttúruauðlinda þess. Réttindi strandríkis á landgrunninu hafa ekki áhrif á réttarstöðu hafsins yfir landgrunninu eða loftrýmis yfir hafinu. Beiting réttinda strandríkisins má ekki valda óréttlætanlegum siglingatálmunum.
    Fyrrgreind skilgreining og takmörkun á réttindum strandríkis er í samræmi við gildandi þjóðarétt. Varðandi hugsanlega þróun í átt til víðtækari réttinda strandríkja ber að hafa í huga þá gjörbreytingu á reglum um fiskveiðilögsögu ríkja sem gerst hefur á tiltölulega skömmum tíma. Strandríkið hefur samkvæmt hafréttarsamningnum lögsögu að því er varðar losun á landgrunnið, öðrum ríkjum er óheimilt að losa efni á landgrunnið án skýlauss samþykkis strandríkis.
    Hafréttarsamningurinn hefur sem fyrr segir ekki enn öðlast gildi. Eins og málum er nú háttað er líklegt að hann taki gildi árið 1994 eða 1995. ( Forseti: Ræðumaður hefur lokið þeim tíma sem hann hefur til umráða.) Það er einmitt það, þá mun ég að sjálfsögðu verða við tilmælum forseta að láta ræðu minni lokið. Ég hefði kannski kosið að gera ögn ítarlegra yfirlit yfir stöðu málsins en ég vil einfaldlega að lokum lýsa því yfir að ég tel þennan tillöguflutning þarfan og æskilegt að tillögunni verði líka vísað til umfjöllunar í utanrmn.