Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:13:36 (82)

                [12:13]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. utanrrh. um hefðir verðandi nefndaskipanir af þessu tagi vil ég minna hæstv. ráðherra á það að þegar þjóðþing Íslendinga hefur verið að leggja sérstaka áherslu á réttindamál af þessu tagi þá hefur verið farin sú leið að velja sérstaka nefnd til að sinna því máli eingöngu. Þar með er gefið til kynna, út á við sem og inn á við, að málið sé sérstætt og mikilvægt. Með þeirri aðferð væri ekki verið að draga úr mikilvægi utanrmn. af neinu tagi heldur verið að velja aðferð vegna þess að nauðsynlegt sé að hefja málið til vegs á ný og leggja á það sérstaka áherslu.
    Ég held að það sé rétt, hæstv. ráðherra, að málinu hefur ekki verið fylgt fram af nægilegum krafti og við getum öll deilt ábyrgð á því. Þess vegna vil ég biðja hæstv. ráðherra áður en hann slær því föstu hér í ræðustólnum, að það sé eðlilegt og í samræmi við einhverjar gamlar hefðir að hafa málið áfram í utanrmn., að hann a.m.k. sé reiðubúinn að athuga það hvort ekki sé rétt að þingið kjósi sérstaka nefnd í þessum efnum til að veita málinu sérstakt mikilvægi.