Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:21:29 (85)


[12:21]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið mjög þarft verk að vekja hér upp á Alþingi umræðu um þessi viðfangsefni og sé ástæðu til þess að þakka flm. sérstaklega fyrir að hreyfa þessu máli með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Hann hefur reyndar verið ötulastur talsmaður þeirra sem nú eiga sæti á Alþingi fyrir réttindabaráttu okkar í landhelgis- og landgrunnsmálum.
    Það blasa við á næstu missirum og árum mikil verkefni á þessu sviði og við þurfum að fylgja fast fram okkar réttindum og verja okkar hagsmuni. Ég er ósammála því sem fram kom hjá hv. 8. þm. Reykn. að það væri gagnrýnivert hvernig haldið hefur verið á þessum málum að undanförnu eða á undanförnum árum. Það er vissulega svo að umræða um þessi viðfangsefni hefur verið minni en hún var áður þegar sjálf baráttan fyrir útfærslu landhelginnar stóð. En að mínu mati hefur verið haldið á þessum málum með fullkomlega eðlilegum hætti þó að hitt sé rétt að nú sé ástæða til þess að fylgja þeim fram af meiri þunga en áður hefur verið gert vegna þess að mál eru að skipast með þeim hætti á alþjóðlegum vettvangi. Og ég minni í þessu sambandi á að við erum hér annars vegar að tala um hafsbotnsréttindi og hins vegar beina fiskveiðihagsmuni og fiskveiðiréttindi. Hér þurfum við a.m.k. á stundum að gera greinarmun á að sjálf hafsbotnsréttindin geta verið víðtækari heldur en fiskveiðiréttindin eins og þau hafa verið viðurkennd í hafréttarsáttmálanum.
    Við höfum fylgt mjög ákveðið eftir á alþjóðavettvangi kröfum okkar um að gera ákvæði hafréttarsáttmálans virkari en þau eru í dag að því er varðar stjórnun fiskveiða fyrir utan 200 mílur þegar um er að ræða deilistofna eða mikilvæga flökkustofna. Við höfum verið í hópi fimm ríkja á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem efnt var til í framhaldi af Ríóráðstefnunni sem hefur haft forustu fyrir því að knýja á um að settar yrðu með bindandi alþjóðasamningi reglur sem í raun og veru eiga að auðvelda framkvæmd á þeim viðurkennda rétti sem felst í hafréttarsáttmálanum. Við verðum að viðurkenna að þau réttindi sem þar er mælt fyrir um eru á ýmsan hátt erfið í framkvæmd og því þarf að knýja á um að viðurkenndar verði reglur til þess að unnt verði að fylgja þessu eftir. Á þessu sviði höfum við haft mjög merkilegt frumkvæði og Guðmundur Eiríksson, sendiherra og þjóðréttarfræðingur, hefur haft þar forustu og fengið lof okkar samstarfsþjóða fyrir framgöngu sína í því efni. Það er vafalaust svo að fyrir hans baráttu á þessum vettvangi hefur málinu þokað meir fram en ella hefði verið og áhrif okkar því verið býsna mikil. Nú þurfum við að fylgja mjög fast eftir á vettvangi ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að þessar grundvallarreglur verði viðurkenndar jafnframt því sem við knýjum á um það að fylgja eftir þeim hugmyndum sem hér er verið að fjalla um í þessari þáltill. um hafsbotnsréttindin því að auðvitað eru þau mjög mikilvæg fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð og það er rétt sem hér hefur komið fram að við erum að sækja í ríkari mæli út fyrir 200 mílna lögsöguna. Stærri togveiðiskip, fullvinnsluskip, frystiskip hafa gert okkur kleift að sækja þessi mið og stækka þá auðlind sem við getum sótt lífsbjörgina í og það er fyrirsjáanlegt að á næstu árum þurfum við í enn ríkara mæli en á undanförnum árum að huga að okkar réttindum í þessu efni þannig að okkur gefist ráðrúm til þess að byggja þorskstofninn upp innan okkar lögsögumarka.
    Þess vegna vil ég ítreka það að ég fagna því að þessi tillaga er fram komin og vil minna á að við höfum verið að vinna að framgangi þessara mála í víðasta skilningi og mikilvægri réttindabaráttu okkar til þess að koma virkum framkvæmdareglum í framkvæmd þannig að við getum virkjað þann rétt sem við eigum samkvæmt hafréttarsáttmálanum sem strandríki.