Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:53:16 (99)

[12:53]
     Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil nú lýsa ánægju minni yfir þessum umræðum sem hér hafa farið fram. Mér þóttu þær að flestu leyti mjög góðar og ánægjulegar og sérstaklega hefði ég hnotið um það og ætti kannski ekki að gera, ætti að vita betur, hvað þingmenn almennt hafa mikla þekkingu á hafréttarmálunum og því sem er að gerast og hefur verið að gerast síðustu 20 árin eða svo og við höfum fylgst rækilega með. Það gleður mann sérstaklega þegar maður sér það að Íslendingar ætla sér a.m.k. ekki að tapa neinu af því sem þegar hefur verið fengið heldur hljóti að sækja fram og sækja djarft fram til aukinna afreka á sviði hafréttarins. Og það er nauðsyn til að gera það einmitt nú og einmitt ágætt að kjósa nefnd þingmanna til þess að hafa um það forustu.
    Það var nefnt hér sem eðlilegt er kannski af hæstv. utanrrh. að það vantaði nokkur ríki til að skrifa undir hafréttarsáttmálann til að hann væri fullgildur. Menn hafa væntanlega tekið eftir því hér og nú að við höfum verið að ræða um hafréttarsáttmálann sem fullgildan þó það vanti nokkrar undirskriftir undir hann. Og það er verið að gera það um allan heim. Það er algerlega út í bláinn að vera að tala um að það vanti einhverjar undirskriftir á hafréttarsáttmálann. Mikill meiri hluti þjóðanna hefur skrifað undir hann og hann er de facto, gildandi lög, alheimslög. Þess vegna er alveg út í bláinn að vera að draga það fram sem eitthvert atriði í þessum umræðum.
    En það hefur líka verið talsvert rætt um Jan Mayen málin og deiluna skulum við segja. Við áttum í deilum við Norðmenn um Jan Mayen á sínum tíma. Ég er nú hér með til gamans álitsgerð, sem ekki minni menn en Hans G. Andersen, Jens Evensen og Elliot L. Richardson sömdu á sínum tíma og vakti mikla athygli á þessum vettvangi. Það voru tveir samningar gerðir, annars vegar um veiðar á þessum svæðum þar sem við náðum okkur nú í hvorki meira né minna en 85% af öllu saman, öllum fiskveiðunum, og þar var nú vel á spilunum haldið. Hinir fengu lítið og síðan var aftur olíuleit og rannsókn landgrunns á þessum svæðum og það var talið nokkuð öruggt og það er búið að finna þarna olíulindir sem við líka hefðum átt réttindi til að nýta í sameign með gagnaðilanum.
    En sem sagt, ekki ætla ég að fara að draga á langinn þessa umræðu sem ég er himinlifandi með þegar öll kurl koma til grafar og ég veit eftir þennan fund og þá afstöðu sem kemur hér fram þó að hér séu ekki mjög margir þá er alla vega hægt að búast við því að þeir sem fjarverandi eru séu með eitthvað svipaðar hugsanir og ég gleðst yfir þessu.