Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 14:45:01 (183)

[14:45]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Óhætt mun að fullyrða að margt hefur farið á annan veg hjá hæstv. ríkisstjórn heldur en hún boðaði í upphafi. Hafi menn í upphafi haft einhverjar væntingar, sem e.t.v. er nú ekki útilokað því að auðvitað hafði ríkisstjórnin þá sterkan þingmeirihluta og stóran hluta kjósenda á bak við sig, þá eru þær væntingar nú áreiðanlega að engu orðnar og roknar út í veður og vind. Ríkisstjórnin er eins og alþjóð veit rúin öllu trausti. Það sýna m.a. niðurstöður skoðanakannana margendurtekið á undanförnum vikum og mánuðum. Og hvernig á í raun annað að vera? Hvernig á annað að vera þegar á stjórnarheimilinu ríkir sundurlyndi, ósamstaða og jafnvel óeining svo sem fram hefur komið í hverju stórmálinu af öðru að undanförnu. Ásakanir um geðþóttaákvarðanir utan verksviðs, svo að notuð séu orð hæstv. fjmrh. sem hann beindi til félaga síns í ríkisstjórn, hæstv. utanrrh., út af atburðum nýlega, geðþóttaákvarðanir utan verksviðs kallar hann það sem þýðir í raun ekkert annað en lögbrot á mannamáli, trúnaðarbrestur og óheiðarleiki. Þetta eru orðin sem ganga í fjölmiðlum milli hæstv. ráðherra í hæstv. ríkisstjórn. Meðan slíkar ásakanir ganga kemur hæstv. utanrrh. og segir nú mest áríðandi að þjóðin treysti ríkisstjórninni, veiti henni fullt traust til þess að takast á við þann vanda sem vissulega er við að glíma. Er hægt að ætlast til þess að þjóðin treysti þessum mönnum? Eru þessi vinnubrögð líkleg til þess að skapa með þjóðinni það traust sem þarf á ráðherrum hennar? Ég held varla.
    Ríkisfjármálin eru e.t.v. besta dæmið um gæfuleysi og getuleysi þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Ríkisfjármálin, þ.e. fjárlög ásamt þeim lögum sem þeim fylgja, lánsfjárlög og skattalög ýmis, eru hornsteinn efnahagsstefnu hverrar ríkisstjórnar. Núv. hæstv. ríkisstjórn lofaði hallalausum fjárlögum. Hún lofaði niðurskurði í ríkisútgjöldum. Hún lofaði skattalækkunum eða í það minnsta ekki skattahækkunum og í kjölfarið hafði hún uppi góð fyrirheit um vaxtalækkanir. Og hvernig hefur svo til tekist? Hvernig hefur hæstv. ríkisstjórn tekist að standa við þessi loforð eða fyrirheit?
    Það er í raun spurning hvort það hefur nokkurn tilgang, eins og hér hefur komið fram í andsvörum og svörum hæstv. ráðherra við andsvörum þingmanna hér á undan, að eyða tíma í ítarlega umræðu um fjárlagafrv. og eyða tíma í alla þá miklu vinnu sem lögð er í málið venjulega. Það eru vangaveltur um einhverjar krónur til eða frá, kannski jafnvel tugi þúsunda, en hvernig er svo niðurstaðan þegar framkvæmdin er skoðuð? Eigum við að líta á markmiðin um hallalaus ríkisfjármál sem ríkisstjórnin setti sér?
    Ríkisstjórnin glímir allt sumarið við að koma saman fjárlagafrv. Fjölmiðlar bera þjóðinni fréttir af

því hvernig til tekst og hvernig fram gengur. Markmið eru sett, halli skal vera innan 5 milljarða, 7 milljarða, 10 milljarða eða hvað það nú er sem menn setja sér og ráðherrar kljást, lýsa yfir andstöðu við einstaka þætti og ekki er enn vitað hvort ríkisstjórnin stendur öll að því frv. sem hér liggur fyrir. Þingmeirihluti stjórnarinnar hér í þingi og þó kannski einkum í hv. fjárln. reynir að standa vörð um frv. allt til áramóta. A.m.k. hefur það verið svo undanfarin tvö ár. Brestir eru þó áberandi nú að þessu sinni. Þeir brestir hafa komið fram í umræðunum hér á þingi á seinustu dögum og eins og ég sagði áðan, vafi leikur á um stuðning allra ráðherra við frv. Og hver er svo reynslan? Fjárlög fyrir árið 1992 voru samþykkt með 4,1 milljarðs kr. halla. Niðurstaðan varð hins vegar 7--8 milljarðar kr. Fjárlög fyrir þetta ár voru samþykkt með 6,2 milljarða kr. halla. Niðurstaða blasir við og allar líkur benda til að hallinn verði á milli 12 og 13 milljarðar kr. Nú erum við að fjalla um fjárlagafrv. fyrir árið 1994 sem gerði ráð fyrir halla upp á 9,8 milljarða kr. og verði reynslan hliðstæð eins og á undangengnum árum þá blasir við halli upp á 18--20 milljarða. Að vísu hefur hæstv. fjmrh. hér á undan reynt að berja í bresti og telja okkur hv. þm. og þjóðinni trú um það að nú sé við öðru að búast, nú séum við með miklu traustara frv. í höndunum, sem sé raunhæfara en þau hin fyrri. Ætli við höfum ekki heyrt hæstv. fjmrh. segja eitthvað líkt þessu áður? Ætli hann hafi ekki haft uppi eitthvað svipaðar setningar í fyrra og kannski hittiðfyrra líka. Það minnir mig alla vega og ég bið hv. þm. að rifja það upp með mér.
    Ég get þó fallist á það að einstaka þættir í þessu frv. séu raunhæfari en áður, t.d. hugmyndirnar um tekjur af sölu ríkisfyrirtækja sem áttu á þessu ári að skila 1,5 milljörðum kr. en raunin verður líklega 100 millj. kr. Þá er auðvitað líklegt að nú þegar gert er ráð fyrir 500 millj. kr. verði mismunurinn þó ekki meiri en 400 millj. ef það er von til þess að salan á næsta ári verði í líkingu við það sem verður á þessu ári. Þannig að kannski er um raunhæfari tölur að ræða, vonandi stöndum við ekki frammi fyrir því að hallarekstur ríkissjóðs nálgist að ári liðnu um 20 milljarða kr.
    En er hægt að tala um, hæstv. fjmrh., að svona frv. og vinnubrögð séu stefnumarkandi? Er það stefnumarkandi að eyða mörgum vikum og mánuðum af störfum þingmanna í að fjalla um frv. til fjárlaga fyrir komandi ár sem síðan reynist verða með helmingi meiri halla en þau lög sem samþykkt voru? Er þetta traustur hornsteinn fyrir efnahagsstefnu ríkisstjórnar? Ég vil leyfa mér að líkja því við að það sé ekki einu sinni eins og vikur sem molnar heldur líkara leir sem hnoðast. Fullyrðingar stjórnarandstöðunnar undanfarin tvö ár um raunveruleika fjárlagafrv. sem þá hefur verið til umræðu hafa því miður reynst réttar. Það hefur verið byggt á sandi og hnoðast eins og leirinn. Fjárlögin hafa verið óraunhæf og grunnurinn því ótraustur. Auðvitað má reyna að finna á þessu ýmsar skýringar og það hefur hæstv. fjmrh. vissulega reynt að gera í ræðu sinni hér á undan. Enginn efast um ýmsa erfiðleika sem stafa af utanaðkomandi aðstæðum eins og t.d. samdrætti í sjávarafla og ætla ég ekki að gera lítið úr því. Mér er fullljóst að það er mikið vandaverk fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að takast á við slíkan samdrátt í þjóðartekjum. Þó ber að minna á það að útlit er fyrir það að landsframleiðsla á þessu ári sem nú er að líða dragist ekki saman, aukist jafnvel um 0,5% þrátt fyrir spár um hið gagnstæða. Því miður held ég því að vandamálin í efnahagsstjórnuninni og efnahagsstefnunni séu meira og minna vegna stjórnarstefnunnar sjálfrar. Lögmál hins frjálsa markaðar er látið hreinsa til í atvinnulífinu. Eignatilfærslan sem af því leiðir eða því fylgir verður gífurleg, bæði hjá fyrirtækjum og hjá einstaklingum. Verðhrun blasir t.d. við á fasteignamarkaði og einstaklingar, að mestum eða miklum meiri hluta til ungt fólk, eru að missa hús sín og eignir til þeirra sem betur mega sín og hafa fjármuni til að spila úr nú á þessum markaði eins og hann verður til eftir gjaldþrotin og uppboðin. Fyrirtæki, einkum hin minni, sem hafa lítið úthald eða þol til að berjast við háa vexti, óraunhæf undirboð á markaði og kreppu verða gjaldþrota.
    Afleiðingarnar eru síðan að sjálfsögðu stóraukið atvinnuleysi og það leggst auðvitað lítið fyrir kappann, hæstv. fjmrh., að hæla sér af því að atvinnuleysi hér sé þó þrátt fyrir allt miklu minna en í nágrannalöndunum. Það er vaxandi, það hefur verið vaxandi á undanförnum árum frá því sem við höfum átt að venjast og það er enn vaxandi miðað við spár fyrir næsta ár og verður maður þó kannski að vona að það verði ekki meira en spárnar gera ráð fyrir, 5,5%, en auðvitað eru ýmsar blikur á lofti sem gætu bent til þess að það yrði þrátt fyrir allt enn meira. Aukið atvinnuleysi þýðir síðan minni veltu í þjóðfélaginu, minni skatttekjur fyrir ríkissjóð en meiri útgjöld fyrir þann sama sjóð og auðvitað hærri vexti í þjóðfélaginu.
    Komum síðar að vöxtunum en lítum næst aðeins á skattahliðina og niðurskurð ríkisútgjaldanna sem hangir að sjálfsögðu nokkuð saman og var annað markmiðið sem hæstv. ríkisstjórn setti sér varðandi framgang ríkisfjármála.
    Það er nánast spaugilegt að lesa inngang eða upphafsorð greinargerðar frv. hæstv. fjmrh. sem hér er til umræðu. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Boðskapur frv. er skýr: Þrátt fyrir erfiðar efnahagsaðstæður verður að draga úr hallarekstri ríkissjóðs án þess að hækka skatta. Þess vegna verður að lækka ríkisútgjöld.`` --- Þetta voru upphafsorð frv., hæstv. forseti. ,,Draga úr hallarekstri`` var sagt hér. Hallareksturinn fór úr 4 milljörðum kr. í 8 í fyrra, fer úr 6 milljörðum kr. í 12 í ár og er nú 10 milljarðar kr. sem ráðherra talar um að sé að draga úr hallanum. Ég veit ekki hvort það er úr 6 milljörðunum kr. eða þessum áætluðum 12 milljörðum kr. en 10 milljarðar er áætlað núna og sennilega stefnir í áður óþekktar stærðir.
    Fullyrt er að skatttekjur ríkissjóðs dragist saman að raungildi og rétt kann það að vera. Þær dragast saman vegna minni veltu í þjóðfélaginu, vegna minni tekna af innflutningi, vegna minni tekna einstaklinganna og vegna meira atvinnuleysis. Allt hefur þetta að sjálfsögðu áhrif á tekjur ríkissjóðs. En beina skattheimtan er auðvitað að aukast í raun og það mjög mikið ef aðeins er horft á einstaklingana. Það kom reyndar einnig fram í andsvörunum áðan og hæstv. ráðherra hefur viðurkennt.
    Virðisaukaskatturinn af matvælum þýðir að vísu lækkun á skattheimtu upp á 2,5 milljarða kr. samkvæmt áætlun frv. en á móti því koma full áhrif af skattalagabreytingum sem samþykktar voru á seinasta þingi, m.a. breikkun skattstofns virðisaukaskattsins o.fl. upp á 1,5 milljarða kr. Hið nýja atvinnutryggingagjald, ef að lögum verður, upp á tæplega 1,5 milljarða kr., þannig að af þessum tveimur ástæðum einum eru skatttekjur þegar farnar að aukast um hálfan milljarð kr.
    Allt er enn á huldu með fjármagnstekjuskattinn sem margsinnis hefur verið rætt um en komi hann til framkvæmda þá er hann auðvitað viðbót við skattheimtuna. Verstir af þessu öllu eru þó feluskattarnir, þ.e. þjónustugjöldin sem hvergi koma fram. Í stað þess að takast á við raunverulegar skipulagsbreytingar til niðurskurðar hefur ríkisstjórnin aftur og aftur hopað í það far að hækka þjónustugjöldin og taka meiri skatta af borgurunum með því móti. Það er auðvelt að láta menn borga, það er erfiðara að lækka heildarkostnaðinn.
    Ef við lítum aðeins á það sem gerst hefur í stjórnartíð hæstv. ríkisstjórnar þá lítur út fyrir að aukin þátttaka almennings, notenda lyfja, í kostnaði við lyfin nemi allt að 1 milljarði kr. í viðbótarþjónustugjöldum. Þátttaka almennings, þeirra sem einnig nota heilbrigðisþjónustuna, í sérfræðikostnaði hefur líka aukist um tæpan milljarð kr., líklega í kringum 900 millj. kr.
    Nýr aðgangsskattur að heilsugæslunni, sem þessi hæstv. ríkisstjórn tók upp, er á bilinu 300--400 millj. kr. Hér eru nýir skattar upp á rúma 2 milljarða, hæstv. fjmrh., að ógleymdum nýjum sértekjum ýmiss konar og aukinni skattheimtu t.d. í skólagjöldum, svo eitthvað sé nefnt, en ég hirði ekki um að tína til á þessu stigi en það verður auðvitað gert og skoðað nánar í vinnu fjárlaganefndarinnar.
    Nýjasta uppfinning hæstv. ríkisstjórnar eru síðan svokölluð heilsukort. Nýjasta uppfinningin í skattheimtunni. Það er að vísu lítið vitað enn þá um framkvæmd þessa nýja skatts en í fjárlagafrv. er tvisvar sinnum að finna heilar þrjár línur um málið. Með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að lesa aðra þessa tilvitnun, þrjár línur, en þar segir svo:
    ,,Ákveðin er útgáfa heilsukorta sem veita afslátt á greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu. Kortin ná til lyfja og þjónustu hjá sérfræðingum og heilsugæslustöðvum. Að auki fá handhafar kortanna þjónustu á sjúkrahúsum án endurgjalds.`` Aðeins síðar kemur ein lína sem hljóðar svo: ,,Áætlað er að tekjur af sölu heilsukortanna verði um 400 millj. kr. á ári.``
    Hvar skyldi nú þessi nýi skattur koma fram, virðulegi forseti, í frv. til fjárlaga hæstv. fjmrh.? Það hlýtur að vera í tekjuhliðinni með öðrum nýjum sköttum. Ég leitaði þar en fann ekki, þar er ekki þennan nýja skatt að finna. Líklega er hann þá með sértekjum, hjá Tryggingastofnuninni. Nei, hann er ekki heldur þar. Þá hljóta þetta að vera sértekjur sjúkratrygginganna og dregnar frá þar. Og hvað kemur í ljós --- ekki heldur þar! Nei, þessi nýi skattur er vandlega falinn. Eini staðurinn þar sem hægt er að sjá hans stað er í töflu í greinargerðinni þar sem hann er dreginn frá ýmsum útgjöldum sjúkratrygginganna og nettótalan tæpir 10 milljarðar kr. síðan færð sem útgjöld til sjúkratrygginga í fjárlagafrv.
    Finnst hæstv. fjmrh. þetta hægt? Er hægt að fara svona að með skattheimtu og fela hana svo rækilega? Ég tel að það sé ekki einu sinni verið að fela hér skattheimtu heldur er einnig verið að fela hér einhverja róttækustu breytingu á uppbyggingu heilbrigðis- og tryggingakerfisins sem gerð hefur verið í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar og er þó af ýmsu að taka. Hún er falin svo vel sem hægt er og upplýsingar þær sem fram hafa komið um málið eru reyndar enn þá mjög óljósar. Ég tel að hér sé um að ræða fyrsta skrefið að koma á tvöföldu kerfi í heilbrigðisþjónustunni og sjúkratryggingakerfinu. Annars vegar kerfi fyrir þá sem eiga næga fjármuni til til að greiða ef á bjátar og hins vegar fyrir þá sem minna mega sín og munu smám saman hljóta annars flokks heilbrigðisþjónustu. Vonandi þó ekki alveg strax, vonandi sjá menn að sér áður en þetta skref er stigið og mér er auðvitað ljóst að slíkt gerist ekki á einu ári en þetta gerist fljótlega ef fram heldur sem horfir m.a. vegna þess að það er gefinn kostur á því að skattpeningar þeirra sem betur mega sín, hinna ríku, hverfi út úr tryggingakerfinu. Þeir eiga að fá val. Að vísu er óskiljanleg nýjasta uppákoma eða skýring á þessu nýja kerfi frá hæstv. heilbrrh. þar sem hann gaf mönnum kost á ,,að tryggja eftir á`` og ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. hefur skoðað það form og hvernig hann ætlar sér að innheimta þessar 400 millj. sem þó eru svo vandlega faldar en hann gerir sér líka vonir um að komast einhvers staðar yfir, ef menn eiga að geta farið þá leið ,,að tryggja eftir á``.
    Það er erfitt að ræða ítarlega um þetta mál á þessu stigi, virðulegi forseti, af því að það er enn þá of lítið vitað um málið og reyndar komu heldur litlar skýringar fram í viðbót hjá hæstv. fjmrh. í framsöguræðu hans áðan á þessu mikilvæga nýja kerfi.
    Það er auðvitað nauðsynlegt að taka á ýmsum þáttum í ríkisgeiranum, taka á ýmsum málum sem mega horfa til aðhalds og sparnaðar og heilbrigðis- og tryggingamálin eru þar ekkert undanskilin. En það er auðvitað skynsamlegra að ráðast í og reyna að ná fram kerfisbreytingum sem hafa áhrif til heildarsparnaðar og aðhalds í þessum útgjaldasama málaflokki en að framkvæma það með þessari óréttlátu skattheimtu sem felst í þjónustugjöldunum. Og enn þá er boðað að spara í lyfjum, í sérfræðiþjónustu og rannsóknum um 300 millj. kr. og ég vona sannarlega að hæstv. heilbrrh. núverandi takist á við kerfisbreytingar og nái sparnaðinum fram í lægri heildarútgjöldum þessarar þjónustu.

    Að framansögðu finnst mér reyndar erfitt að skilja þær fullyrðingar sem aftur og aftur koma fram í greinargerð fjárlagafrv. að reynt sé að verja hag hinna lægst launuðu og verst settu í þjóðfélaginu og láta nýja skatta og nýjar álögur fremur bitna á þeim sem betur eru settir og allt sé þetta gert til þess að tryggja þjónustu velferðarkerfisins. Mér finnst ýmislegt hallast á í þessum málflutningi.
    Ég vil láta það koma fram, virðulegur forseti, að ég er sammála þeirri meginhugsun sem fram kemur í frv. og er líklega að tillögu hæstv. heilbrrh. að sveitarfélögin reki leikskóla eða dagvistarstofnanir barna. Það er ekki hlutverk ríkisins. Hins vegar verð ég að segja það að eins og fram er farið þá er ekki líklegt að þær breytingar sem boðaðar eru nái tilætluðum árangri. Breyting af þessu tagi tekur tíma, hún þarf góðan og vandaðan undirbúning. Um hana þarf að semja og hún má ekki stofna rekstri heilbrigðisþjónustunnar, heilbrigðisstofnananna, í hættu. Sama má auðvitað segja um ýmsar aðrar stofnanir sem sjálfsagt er að skoða hvort hægt sé að breyta rekstri eða jafnvel leggja rekstur niður. Gunnarsholt er þar ekki undanskilið. Það er sjálfsagt að skoða þann rekstur eins og annan í ríkisgeiranum og leita að ódýrari leiðum ef þær eru til. En það er málið, það er að finna ódýrari leiðir og við verðum að vera vissir um það að hinn nýi kostur eða sá sem við ætlum að taka upp sé ódýrari en sá sem er fyrir hendi.
    Endurskipulagning á stjórnsýslustofnunum getur líka komið til greina eins og hæstv. fjmrh. boðaði í framsöguræðu sinni áðan en hann verður þá líka að boða raunverulegan sparnað. Hann má ekki aðeins leiða til þess að þjónusta sé færð frá einum stað til annars, til óhagræðis fyrir íbúa landsins, en hafi ekki í för með sér neinn raunverulegan sparnað í ríkisútgjöldunum. Það bið ég hæstv. fjmrh. einnig að athuga. Það á ekki að ana út í óvissuna með fljótfærnislegum ákvörðunum og vita ekkert hvert stefnt er.
    Hæstv. forseti. Ég hef á undanförnum árum gagnrýnt ýmsar aðgerðir fyrrverandi hæstv. heilbrrh. og talið að oftar en ekki hafi hann kastað krónunni til að spara eyrinn. Ég hef rakið nokkrar aðgerðir hans og hæstv. ríkisstjórnar varðandi þjónustugjöldin og svokallaðan sparnað í heilbrigðiskerfinu sem ég tel að hafi í raun ekki verið sparnaður heldur tilfærsla á sköttum. En ekki er hægt að neita því að nokkur sparnaður muni hafa náðst í rekstri heilbrigðisstofnana. Nokkur sparnaður hefur náðst í rekstri dýrustu sjúkrahúsanna. En hvað ætli það hafi í för með sér ef til lengri tíma er litið? Er ekki einnig hér verið að spara eyrinn en kasta krónunni?
    Það blasir við, sem ég hef haldið fram í þessari umræðu um sparnaðaraðgerðir hæstv. ríkisstjórnar og í tengslum við fjárlög á undanförnum tveimur árum, að sjúkrabiðlistar eru að lengjast á stofnununum, biðlistar til þess að komast í aðgerðir eru að lengjast og er það gagnstætt því sem haldið var fram, m.a. í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði fyrir hæstv. heilbrrh. á þessum sparnaði í rekstri sjúkrahúsanna þar sem talið var að það hefði ekki komið niður á þjónustu þeirra. Nú er auðvitað að sýna sig að það var ekki rétt. Nýlegar fréttir af aðgerðum á bæklunardeild Borgarspítalans sýna að einstaklingum sem nú eru á biðlista eftir aðgerðum hefur fjölgað á hálfu ári úr 390 í 520 eða um 130 manns. Í nýlegri grein í Morgunblaðinu eftir Ragnar Jónsson, sérfræðing á slysa- og bæklunardeild Borgarspítalans, er fjallað um þessi mál og mig langar, með leyfi forseta, að grípa hér á þremur stöðum niður í þessa ágætu og fróðlegu grein Ragnars Jónssonar. Þar segir fyrst:
    ,,Biðlistar lengjast og er biðtími eftir helstu aðgerðum bæklunarlækna nú orðinn það langur að árangur ýmissa aðgerða er í hættu.`` --- Árangur ýmissa aðgerða er í hættu --- ég bið menn að taka eftir þessu vegna þess að biðtíminn getur auðvitað leitt til þess að erfiðara verði að gera aðgerðina eða láta hana skila þeim árangri sem henni er ætlað.
    Síðar segir í þessari sömu grein, með leyfi forseta: ,,Mjög margar bæklunarlækningaaðgerðir fela í sér beinan fjárhagslegan ávinning, breyta óvinnufærum einstaklingi í vinnufæran, rúmföstum í rólfæran.``
    Og að lokum í þessari ágætu grein: ,,Talsverð hætta er á að ýmsar nýjungar svo sem í hryggjarskurðlækningum muni hér lognast út af í nafni sparnaðar.``
    Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega það sem ég hef verið að halda fram í ræðum mínum um þetta mál, nákvæmlega að það er að gerast sem ég hef óttast, við erum að kasta krónunni en spara eyrinn. Sumt af þessu fólki sem er á biðlista vegna bæklunaraðgerða er jafnvel á örorkubótum og er þá auðvitað líka þar stór útgjaldaliður fyrir þennan sama ríkissjóðs sem við erum að reyna að spara fyrir.
    Ég vona að fyrrv. hæstv. heilbr.- og trmrh., núv. hæstv. viðskrh., sýni tilþrif við niðurskurð í bankakerfinu og lækkun vaxta ekki síður en í heilbrigðiskerfinu meðan hann sat þar en vonandi með meiri fyrirhyggju. Það vakti vissulega nokkrar væntingar strax í sumar við stólaskiptin frægu í hæstv. ríkisstjórn þegar hinn nýi viðskiptaráðherra fór að tala til bankanna, en það hefur lítið heyrst í honum síðan, það virðist sem fljótt hafi tekist að þagga niður í honum. Glíman við hávaxtastefnuna hefur reynst ríkisstjórninni erfið. Hverju skyldi einkum vera kennt um hallarekstri á ríkissjóði? Lausnarorðið til að glíma við hávaxtastefnuna er að knýja niður hallann á ríkissjóði. Vafalaust á hann sinn þátt í því að vextir haldast háir en hann ræður ekki einn ferðinni og mig langar að taka ríkissjóðshalla hjá okkur á Íslandi í samanburði við nokkur önnur OECD-ríki og síðan raunvöxtum af ríkisskuldabréfum og ríkispappírum í þeim samanburði.
    Raunvextir hér eru með því allra hæsta sem gerist í OECD-löndunum, um 7%, á meðan meðalvextir í þessum sömu löndum eru á bilinu 3--5% og það lægsta er 1% eins og greinilega kemur fram í ágætri töflu sem Þjóðhagsstofnun hefur sent frá sér. Á sama tíma og menn segja að hávextirnir séu halla ríkissjóðs að kenna kemur í ljós að halli ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hjá okkur er með því lægsta sem gerist í þeim samanburði.

    Það hlýtur eitthvað fleira að vera að. Og ég tel að ríkisvaldið sé knúið til þess að taka á þessum málum. Raunvextir ríkisskuldabréfa og ríkisvíxla hafa að vísu lækkað nokkuð á hinum almenna fjármagnsmarkaði á undanförnum mánuðum og er það vel. En bankavextir eru hins vegar ekki í neinum takt. Á meðan ríkisvíxlarnir og ríkisverðbréfin lækka hafa bankavextirnir því miður hækkað.
    Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1994, sem dreift hefur verið hér á borð okkar þingmanna, er m.a. rætt um þessi vaxtamál og langar mig, með leyfi forseta, að grípa hérna niður í þessa ágætu áætlun á tveimur stöðum þar sem m.a. segir:
    ,,Ávöxtun í viðskiptum með spariskírteini var 6,9% í september, tæpu prósenti lægri en í jan. Vextir ríkisvíxla í viðskiptum á Verðbréfaþingi voru 2,8% lægri í september en í janúar. Athyglisvert að hin skammvinna aukning verðbólgu sem varð upp úr miðju ári í kjölfar gengisbreytingar hafði ekki áhrif til hækkunar vaxta á markaði fyrir ríkisvíxla. Hins vegar hækkuðu útlánsvextir banka og sparisjóða á þessum tíma. Þeir virðast vera næmir fyrir verðbólgubreytingum . . . ``
    Ég spyr nú hæstv. fjmrh.: Hverjir? Bankastjórarnir? Eru það þeir sem eru næmir fyrir verðbólgubreytingunum? Varla er það markaðurinn. Ekki er það markaðurinn sem hefur verið að hækka þá. Það er ekkert um að vera. Atvinnulífið í lamasessi, fjárfesting í landinu með því lægsta sem gerst hefur um langt tímabil, við hættumörk samkvæmt þessari sömu skýrslu um þjóðhagsáætlun, þannig að það er varla markaðurinn sem er að knýja vextina upp. Það eru líklega bankastjórarnir sem eru svona næmir fyrir verðbólgubreytingunum.
    Síðar í þessari skýrslu segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Sömu þróunar [þ.e. þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á markaðnum] í átt til markaðsviðmiðunar allra vaxta hefur hins vegar ekki gætt í bankakerfinu.`` Og enn síðar: ,,Því hefur athyglin í sívaxandi mæli beinst að vaxtamyndunarkerfinu og þeirri spurningu hvort í því leynist innbyggðir veikleikar sem torvelda eðlilega vaxtaþróun hér á landi.``
    Virðulegi forseti. Ég held að ríkisstjórnin hafi hér verk að vinna. Hæstv. ríkisstjórn verður að fara af meiri krafti og meiri hörku í þessa vaxtaþróun heldur en hingað til hefur gerst. Ég álít að ekkert eitt atriði gæti haft skjótari og stórvirkari áhrif á þróun efnahagsstefnunnar og atvinnumála en lækkun vaxta og má í því sambandi enn minna á upplýsingar úr þessum plöggum sem hér eru fyrir framan mig, fjárlagafrv. og greinargerðinni og þjóðhagsáætluninni, að 1% lækkun vaxta á innlendum lánamarkaði að meðaltali sparar ríkissjóði 800 millj. kr. í vaxtaútgjöldum á einu ári. Það þýðir t.d. tvöfalda innheimtu heilsukortanna svokölluðu, sem eiga að gefa 400 millj., ef hægt væri að lækka vextina um 1%, og ef tækist nú að lækka þá um 2% mundi það þýða fyrir ríkissjóð rúmlega allar tekjurnar af hinu nýja atvinnutryggingagjaldi sem á að skila 1.400 millj. Það er því mikið í húfi að það takist að ná niður vöxtunum í landinu.
    Hæstv. sjútvrh. hefur m.a. rætt þetta og er honum fyllilega ljós þörfin á því að grípa hér inn í og ræddi það m.a. á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva í Stykkishólmi nú nýlega en þar skorar hann einmitt á bankana að taka til hendinni, bæði hvað varðar rekstrarkostnað og segir svo hér í ræðu sinni ef ég má enn einu sinni grípa niður í ritað mál, með leyfi forseta:
    ,,Sú krafa hlýtur því að vera gerð til fjármagnsmarkaðarins og fyrst og fremst til bankanna að raunverulegar vaxtalækkanir verði á næstu mánuðum.``
    Þetta var hæstv. sjútvrh. þessarar ríkisstjórnar sem var að tala og ég vona sannarlega og skora á hæstv. viðskrh. að leggja nú hæstv. sjútvrh. lið í stað þess að senda honum kaldar kveðjur eins og gerðist í fjölmiðlum út af þessari umræddu ræðu. Það virðist vera sátt og samlyndi á stjórnarheimilinu í þessu máli eins og mörgum öðrum.
    Virðulegi forseti. Það er ekki tími til þess að fara ítarlega ofan í einstök atriði fjárlagafrv., einstaka gjaldaliði eða áætlanir frv. að öðru leyti. Það verður að sjálfsögðu gert nánar við 2. umr. um frv. að lokinni yfirferð fjárlaganefndar. Ég hef eingöngu hér eytt tíma mínum í það að ræða um hallann og markmiðin í því sambandi, skattana, niðurskurðinn og vextina og væri þó af mörgu fleira að taka. Ég vil þó hér lýsa yfir stuðningi mínum við tillögur hæstv. fjmrh. sem miða að því að styrkja skatteftirlitið og skattheimtuna í meira mæli en nú er og í samræmi við nýútkomna skýrslu frá ráðuneyti hans um umfang skattsvika og tillögur um aðgerðir gegn þeim. Þetta kom reyndar aðeins fram í ræðum þingmanna áðan er þeir beindu spjótum sínum að ráðherra og ég tel og tek það fram að í frv. er vilji ráðherra til þess að takast á við þetta verkefni. Ég fagna því og lýsi stuðningi mínum það. Reyndar hefur hæstv. fjmrh. sýnt það áður. Það var m.a. í fyrra. Á seinasta ári lagði hann til breytingar á því formi sem var við skattinnheimtu og skattskil en auðvitað má betur ef duga skal og þarf sannarlega að stíga þar enn þá stærri skref því að um er að ræða stórar upphæðir þar ekki síður en í breytingum á vöxtunum, líklega enn þá stærri tölur ef vel tekst til að ná betri og skilvirkari innheimtu skatta og berjast gegn þeim skattsvikum sem vissulega viðgangast.
    Ég skora einnig á hæstv. fjmrh. að beita sér fyrir réttari framsetningu fjárlaga á hinum raunverulegu tekjum og hinum raunverulegum gjöldum sem sýna umsvif ríkissjóðs í stað þess að fela hina ósanngjörnu skattheimtu þjónustugjaldanna með því að draga þau frá útgjöldunum eins og ég hef ítarlega rakið eða farið yfir hér fyrr í ræðu minni. Í grg. fjárlagafrv. er reyndar vikið að breyttri framsetningu ríkisreiknings og fjárlaga hvað þetta varðar, þar sem talið er að ríkisreikningsnefnd muni leggja til breytingar á gjaldfærslu ýmissa bótaflokka í tekjuskatti og tilfærslu á sértekjum frá gjaldahlið svo að vitnað sé til frv.

Ég bið hæstv. fjmrh. að hafa þetta í huga.
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað auðvelt að gagnrýna. Og ég geri ekki lítið úr vandamálum og erfiðum viðfangsefnum í ríkisfjármálunum um þessar mundir. Við framsóknarmenn munum að sjálfsögðu skoða þau mál vandlega í þeirri vinnu sem nú er fram undan fram að afgreiðslu fjárlagafrv. Og e.t.v. getur náðst samkomulag um einhverjar skynsamlegar tillögur til aðhalds og sparnaðar í hinu nýja fjárlagafrv. sem mér skilst að þeir sitji nú við að semja, hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh., ef það má eiga von á því að eitthvað af skynsamlegum tillögum komi úr þeim sarpi.
    Það kvað við nokkuð nýjan tón í stefnuræðu hæstv. forsrh. á dögunum. Hann taldi sig sjá betri tíð fram undan. En það er ekki nægjanlegt að byggja aðeins á óskhyggju, heldur verða verkin að tala, enda var það svo, að hæstv. utanrrh. sá lítið annað en hengiflugið fram undan. En eitt brýnasta verkefni stjórnvalda á hverjum tíma er að stuðla að aukinni verðmætasköpun í landinu og treysta atvinnulífið. Á samdráttartímum verður ríkisvaldið að leggja sitt af mörkum og til að ýta undir bjartsýni fólks og auka trú þess á land og þjóð. Við Íslendingar eigum mikla möguleika á aukinni verðmætasköpun á ýmsum sviðum þó nauðsynlegur tímabundinn samdráttur í fiskveiðum valdi vissulega miklum erfiðleikum. Það þarf að leggja áherslu á opinberan stuðning við hvers konar rannsókna- og markaðsstarfsemi sem undirstöðuatriðin í því uppbyggingar- og endurreisnarstarfi sem íslensku efnahagslífi er svo brýn nauðsyn á. Það fer hins vegar lítið fyrir því í tillögum hæstv. ríkisstjórnar. Þó má geta þess að góð fyrirheit voru uppi þegar átti að selja ríkiseignir fyrir 1,5 milljarða, þá áttu 20% af því að renna til rannsókna- og markaðsstarfsemi. Þokkaleg upphæð, en eins og menn vita nú verða ríkisfyrirtæki seld fyrir 100 millj. kr. og þá ættu litlar 20 millj. kr. af því að renna til þessa viðamikla viðfangsefnis. Og þó settar séu fram áætlanir og viljayfirlýsingar um það að efla rannsókna- og þróunastarf þá duga slíkar viljayfirlýsingar skammt ef ekki fylgir hugur máli og fjármunir til þess að starfa með eða eftir. Ég vil ítreka það sem ég hef sagt áður að veruleg vaxtalækkun þegar í stað er lífsnauðsyn fyrir heimilin og hið veikburða atvinnulíf í landinu.
    Skattastefnunni þarf og að breyta þannig að þeir sem betur mega sín, hátekjumenn og fjármagnseigendur, létti byrðum af þeim efnaminni, horfið verði frá fyrirhuguðum flötum sköttum á laun svo og nefsköttum til heilbrigðisþjónustunnar.
    Hæstv. forseti. Ört vaxandi hallarekstri ríkissjóðs verður ekki snúið við til betri vegar nema með aukinni tekjuöflun sem fyrst og fremst þarf að byggjast á meiri framleiðslu og meiri verðmætasköpun í þjóðfélaginu sem ríkissjóður fái síðan sanngjarnan hlut af.