Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 16:22:23 (190)


[16:22]
     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þau undanfarin tvö ár sem ég hef fylgst með umræðum um fjárlagafrv. við 1. umr. hafa augu manna einkum beinst að hinum gífurlega innbyggða rekstrarhalla ríkissjóðs. Það hefur virst mismunandi hversu alvarlegum augum menn hafa litið þennan óviðráðanlega halla. Einkum hafa línur dregist á milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga þótt undantekningar séu þar á.
    Það vakti hins vegar athygli mína við umræðuna um stefnuræðu forsrh. hér á Alþingi í síðustu viku að í fyrsta sinn í þau tvö ár sem ég hef starfað innan þessara veggja virtist sem stjórnarandstaðan væri áhyggjufyllri um stöðu ríkisfjármála en áður hefur verið. Það hefur og komið fram í þessum umræðum í dag. Það er vonandi að þingmenn sem og þjóð séu að átta sig á því að áfram verður ekki haldið á sömu

braut. Að þingmenn og þjóð átti sig á því að það er ekki sprottið af illmennsku og ótuktarskap ríkisstjórnarmeirihlutans að menn hafa boðað ráðdeild og sparnað. Þvert á móti er það vegna þess að nauðsynlegt er að snúa af þeirri braut óráðsíu sem mörkuð hefur verið á undanförnum 20 árum.
    Svo hefur verið að sérhagsmunir hafa fengið of miklu ráðið á undangengnum tveimur áratugum. Á tíðum hefur verið litið fram hjá heildarvandanum en orka manna farið í deilur um hin smæstu atriði. Víst er svo að ætíð ber nauðsyn til að vera á varðbergi jafnt í hinum smæstu málum sem hinum stærstu. Menn verða hins vegar að sjá trén fyrir skóginum. Það er skylda okkar sem störfum á þessum vettvangi að setja þjóðinni fjárlög sem unnt er að byggja á, fjárlög sem vísa okkur veg til betri og bjartari framtíðar. Það einstigi sem fetað hefur verið undanfarin ár mun einungis leiða okkur fram af bjargbrúninni ef ekki verður snúið við. Við höfum allar aðrar skyldur en þær að leiða þjóðina fram af bjarginu líkt og félagar okkar í Færeyjum hafa leitt þarlenda þjóð.
    Fyrir um það bil viku síðan lýsti ég í máli mínu hér á Alþingi að ég liti með hryllingi til þess kafla í harmsögu Færeyinga sem nú væri að hefjast og nefndi þar til sögunnar þann atgervisflótta sem brostinn er á. Síðan sú ræða var haldin er ekki mikið vatn til sjávar runnið. Samt sem áður hefur einum af bönkum landsins verið lokað og fréttir bárust síðast í morgun þess efnis að Marita Petersen, formaður færeysku landsstjórnarinnar, væri væntanleg til Danmerkur enn eina ferðina með betlistaf í hendi. Nú yrði óskað eftir 40--50 milljörðum kr. til liðveislu Færeyingum. Það er talið að um 4% þjóðarinnar muni yfirgefa landið á þessu ári. Það samsvarar því að á ellefta þúsund Íslendinga mundu flytjast af landi brott.
    Við umræður um hið Evrópska efnahagssvæði hér á Alþingi á síðasta ári, og raunar árin þar á undan, var því gjarnan haldið fram af andstæðingum samningsins að með samþykkt hans mundi íslensk þjóð glata sjálfstæði sínu. Fylgjendur samningsins bentu hins vegar á að þjóð sem byggði afkomu sína í jafnríkum mæli og við Íslendingar á utanríkisverslun og hefði ekki óheftan aðgang að erlendum mörkuðum og þar með vald yfir utanríkisverslun sinni, væri þjóð sem mundi glata sjálfstæði sínu. Um þetta urðu snarpar umræður og tilfinningaheitar. Ég vildi óska að margir þeir sem þátt tóku í þeim umræðum, hvort sem var innan þings eða utan, áttuðu sig á að stöðugur hallarekstur ríkisins mun leiða okkur til glötunar sjálfstæðis og að þeir hinir sömu legðu sitt af mörkum til að snúa af þessari braut. Liðveislu er sannarlega þörf.
    Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur setið að völdum um liðlega tveggja ára skeið. Ríkisstjórnin lagði upp með þau markmið í efnahagsmálum að ná tökum á hinum hrikalega og stöðuga halla ríkissjóðs m.a. með því að stemma stigu við auknum lántökum og þá einkum erlendum. Því er gjarnan haldið fram af stjórnarandstöðunni að árangri hafi ekki verið náð hvað þessi efni áhrærir. Vissulega er það svo að vonir stóðu til að mál væru í betra horfi eftir tveggja ára stjórnarsetu en raunin er. Hitt er öllum ljóst að allar ytri aðstæður hafa verið ríkisstjórninni og landsmönnum öllum mun harðdrægari en nokkurn óraði fyrir þegar ríkisstjórnin var mynduð. Óhjákvæmileg skerðing á aflamörkum þorsks hefur vissulega sett mark sitt á þjóðarbúskapinn. Það eru ekki mörg ár síðan þorskafli okkar var 400 þús. tonn, nú bendir allt til að þorskafli næsta árs verði ekki nema um 165 þús. tonn. Auk þessara hremminga hefur jafnframt orðið verðfall á afurðum okkar í kjölfar efnahagssamdráttar á helstu markaðssvæðum okkar.
    Nú nýlega bárust upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun sem gefa vonir um að þorskstofninn virðist vera að rétta úr kútnum. Það er óskandi að svo sé. Það er hins vegar sýnd veiði en ekki gefin og megum við forðast að gera út á væntingar um betra ástand meðan við höfum ekkert í hendi. Ein helsta meinsemdin er einmitt sú að allt of oft höfum við byggt útgjöld okkar á óskhyggju fremur en staðreyndum og þeim raunveruleika sem við blasir. Við getum ekki boðið þeim kynslóðum sem taka við í samfélaginu upp á að hafa eytt sameiginlegum auði þjóðarinnar fyrir fram þannig að sjálfsákvörðunarréttur þeirra verði fyrir borð borinn. Þrátt fyrir þessa erfiðleika hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tekist að hamla á móti. Ef útgjöld ríkissjóðs á árinu 1991 væru færð til verðlags þessa fjárlagafrv. sem hér er til umræðu ætti að blasa við okkur tala að upphæð 122 milljarðar kr. Útgjaldaniðurstaða frv. er hins vegar 112 milljarðar. Það þýðir með öðrum orðum að tekist hefur að draga úr raunútgjöldum upp á 10 milljarða. Þetta er sýnilegur árangur sem hefur náðst þrátt fyrir mikið tekjutap ríkissjóðs. Það hefur tekist að vinda ofan af viðskiptahallanum sem var 18 milljarðar árið 1991 en stefnir í að verða 5,5 milljarðar á þessu ári og á svipuðum nótum á því næsta. Þetta er sýnilegur árangur. Það hefur tekist að draga úr lánsfjárþörfinni sem var upp á 40 milljarða árið 1991 en sem stefnt er að verði 23 milljarðar á ári komanda.
    Þrátt fyrir þennan árangur liggur fyrir fjárlagafrv. með 10 milljarða kr. halla. Það hlýtur því að vera öllum ljóst að enn þarf að taka til hendi og fjárlaganefndar og Alþingis bíður mikil vinna á næstu vikum og mánuðum. Ríkisstjórnin hefur létt sköttum af fyrirtækjum í þeirri von að þau mættu styrkjast þannig að atvinnuátandið væri skárra en ella. Ríkissjóður hefur ekki fórnað þessum skatttekjum. Byrðarnar hafa verið fluttar yfir á einstaklingana með þeim rökum að allra leiða þyrfti að leita til að styrkja fyrirtækin í landinu svo að böl atvinnuleysis riði ekki yfir íslenska þjóð með slíkum þunga sem orðið hefur meðal nágrannaþjóða okkar. Á þeim vettvangi hefur tekist að stemma stigu við, með góðu samstarfi við sveitarfélög og aðila vinnumarkaðar sem væntanlega mun haldast áfram. Íslensk þjóð er í varnarbaráttu sem allir verða að taka þátt í, jafnt æðstu embættismenn sem og aðrar stéttir og þjóðfélagshópar. Við verðum öll sem eitt að hafa hag heildarinnar að leiðarljósi, það er skylda okkar og til þess standa væntingar barna okkar sem landið erfa.
    Í tengslum við gerð og umræðu fjárlaga fer ekki á milli mála að kjaramál koma við sögu. Nú er

málum þannig háttað að kjarasamningar aðila vinnumarkaðar eru í gildi út næsta ár. Í tengslum við kjarasamningana á síðasta ári tókst ríkisstjórnin á hendur skuldbindingar upp á rúmlega 2 milljarða umfram fjárlög yfirstandandi árs. Auk þess voru í tengslum við kjarasamninga gerðar ýmsar breytingar á skattalögum sem hafa í för með sér útgjaldaauka á yfirstandandi ári. Það er afar mikilvægt að kjarasamningar megi halda út næsta ár.
    Ýmsir forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa haft á orði síðustu daga að segja beri upp kjarasamningum þar sem í frv. til fjárlaga séu atriði sem eru brot á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð síðustu kjarasamninga. Þar er vísað til þess atvinnutryggingagjalds sem leggja skal á launþega og atvinnurekendur. Víst er að slíkt atvinnutryggingagjald er ekki lagt á af mannvonsku einni saman. Á síðasta ári náðist um það allbærilegt samkomulag í þinginu að opna þúsundum manna leið til bótaréttar úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þúsundum sem ekki höfðu áður notið þess réttar. Það þótti sanngirnismál. Þá var ljóst að aukinn bótaréttur kallaði á meiri útgjöld til þessa málaflokks og þá ekki síst í ljósi aukins atvinnuleysis. Þeir fjármunir sem til þarf eru því miður ekki fyrir hendi nema með verulegum niðurskurði á öðrum sviðum. Mér hugnast því sú aðferð að þeir sem hafa atvinnu leggi brot launa sinna að mörkum til þeirra sem við atvinnuleysisböl búa. Það er einlæg von mín að til átaka á vinnumarkaði komi ekki á næsta ári. Íslensk þjóð þarf á öllu öðru að halda um þessar mundir.
    Ég sagði fyrr í ræðu minni að eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar væri að stemma stigu við auknum lántökum. Á því sviði hefur náðst nokkur árangur þannig að lánsfjárþörfin verður nú um 17 milljörðum minni samkvæmt frv. en var 1991. Því miður auðnaðist okkur ekki í góðærinu að hemja lánsfjárþörf okkar. Það má vera okkur öllum íhugunarefni að þegar hagstæðar ytri aðstæður hafa verið fyrir þjóðarbúið þá hefur okkur ekki tekist að hafa hemil á ýtrustu kröfum og óskum og þá oft án þess að augljós þörf væri fyrir aukin útgjöld. Það er freistandi hugsun að vilja gera allt fyrir alla þó svo að fjármunir séu ekki fyrir hendi en slíkar freistingar verður að varast.
    Útlit er fyrir samkvæmt frv. að erlendar skuldir okkar til langs tíma muni nálgast 70% af landsframleiðslu og greiðslubyrðin 30--40%. Það eru hættumörk. Greiðslubyrðin á næsta ári verður um það bil 50 milljarðar kr. eða svipuð upphæð og útgjöld okkar til heilbrrn. Við getum að sjálfsögðu ekki vikið okkur undan greiðslubyrðinni en umfram allt verðum við að varast að auka hana fyrir komandi kynslóðir. Auk þess er að sjálfsögðu ljóst að ásókn hins opinbera í lánsfé heldur uppi háum vöxtum innan lands sem aftur hittir fyrirtæki og einstaklinga illa fyrir og þá ekki síst ríkissjóð. Það ríður á að ná niður of háum raunvöxtum í landinu. Það er hins vegar tómt mál um að tala með síauknum útgjöldum ríkisins, útgjöldum sem fjármunir eru ekki til fyrir. Það er tómt mál um að tala með aukinni skuldasöfnun fyrirtækja og heimila. Nýlegur vaxtaskiptasamningur Seðlabanka og viðskiptabanka vekur vonir um að vaxtamarkaðurinn standi ekki eins ber og óskjaldaður fyrir tímabundnum verðbólgubreytingum og verið hefur. Það má hins vegar vera viðskiptabönkunum umhugsunarefni hvers vegna spár um aukna verðbólgu kalla á mjög skjót viðbrögð til vaxtahækkana en spár um hjöðnun verðbólgu skila sér mun síðar í vaxtalækkun. Slíkar leikreglur eru hvorki sanngjarnar né eðlilegar. Hinu er ekki að leyna að viðskiptabankarnir og fjárfestingarlánasjóðirnir standa frammi fyrir auknu útlánatapi. Það hefur á stundum verið farið óvarlega með fjármuni og því miður oft á tíðum vegna óæskilegra afskipta stjórnmálamanna af einstökum atvinnufyrirtækjum og atvinnugreinum. Slíkum pólitískum afskiptum verður að linna. Fyrirhyggja og fagleg vinnubrögð verða að sitja í fyrirrúmi hvað þessi mál varðar sem og önnur.
    Fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir tekur að sjálfsögðu mið af aðstæðum eins og þær voru metnar síðla sumars. Það er árangur mikillar vinnu margra aðila til að leita leiða til aukinnar ráðdeildar og sparsemi. Fjárlagafrv. og fjárlögin snerta alla þjóðfélagsþegna með einum eða öðrum hætti. Fjárlögum þeim sem nú verða sett mun væntanlega fylgja nokkur sársauki. Það er hins vegar bærilegra að þola nokkurn sársauka um skeið fremur en að beita deifilyfjum sem duga í skamman tíma en munu valda óbærilegum kvölum þegar áhrif deyfingarinnar hverfa.
    Virðulegi forseti. Leiðarahöfundar blaðsins Dags á Akureyri hafa á undanförnum árum ekki beinlínis hvatt til ráðdeildarsemi eða til þess að stemma stigu við ríkisútgjöldum. Þvert á móti hefur á stundum verið ráðist harkalega að tilraunum í þá veru sl. tvö ár. Það brá því við verulega annan tón í leiðara blaðsins sl. fimmtudag en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þingmanna bíður nú það erfiða verkefni að setja lög um tekjur og gjöld ríkissjóðs á komandi ári. Þeir mega ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkja það frv. til fjárlaga sem nú hefur verið lagt fram. Menn verða að horfast í augu við þá staðreynd að þjóðarbúið hefur ekki efni á að reka ríkissjóð með yfir 10 þús. milljóna kr. halla á næsta ári. Þaðan af síður má almenningur við því að skattar verði hækkaðir. Þess vegna verða þingmenn að taka til hendinni og lækka útgjöld ríkissjóðs svo um munar.``
    Svo mörg voru þau orð leiðarahöfundar Dags. Þetta er áskorun málgagns stærsta flokks stjórnarandstöðunnar í stærsta landsbyggðarkjördæmi landsins. Undir þessi orð má taka. Efnahagsaðstæður taka gjarnan breytingum á skömmum tíma. Á þessari stundu eru engin teikn á lofti um breytingar til hins betra á næsta ári. Fjárlagafrv. og síðar fjárlögin snerta alla þjóðfélagsþegna á einhvern hátt. Það er því frumskilyrði að frv. verði fært í búning fjárlaga þar sem byrðum og skyldum er jafnað niður, þar sem smærri hagsmunir víki fyrir hinum stærri, þar sem sérhagsmunir einstakra stétta og hópa verði afnumdir. Þjóðin og ekki síst komandi kynslóðir gera þær kröfur til okkar sem færum fjárlögin í endanlegan búning.