Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 20:21:16 (225)


[20:21]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans svör hér áðan. Það er alveg rétt hjá honum, mér hafði yfirsést það að í 6. gr. fjárlagafrv. er talað um að verja allt að 20% af greiddu andvirði seldra fyrirtækja og hlutabréfa til rannsókna- og þróunarverkefna. En ég vil þá enn og aftur gagnrýna það að þessi grein er orðuð þannig að það sé af greiddu andvirði. Það liggur svona nokkuð ljóst fyrir að ef það tekst að selja fyrirtæki eða hlutabréf, þá verður það ekki allt saman staðgreitt. Þannig að þó að áætlað sé að selja fyrir 500 millj., eða reiknað með því að það seljist e.t.v., þá þurfum við tæplega að reikna með því að 100 millj. kr. fáist út úr því, því það verður ekki allt staðgreitt.
    Í öðru lagi nefndi hann að það væri ekki um ráðningarsamning að ræða í sambandi við dagheimilispláss Ríkisspítalanna. Ég benda honum á að í Tímanum í dag er örstutt grein þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Í bókun með kjarasamningi sjúkraliða frá árinu 1987 er kveðið á um að sjúkraliðar geti fengið greiddan mismun á gjaldi hjá dagmóður og barnaheimilum Ríkisspítala en að undanförnu hefur heilbrrh. hafnað því að leikskólapláss sé hluti af ráðningarsamningi heilbrigðisstétta.`` Og það segir hér í lokin á þessari grein: ,,Svo virðist sem sjúkraliðar hafi það fram yfir hjúkrunarfræðinga að hafa ákvæði um leikskólapláss í kjarasamningi``. Ég vildi því benda ráðherranum á þetta. Nú hef ég ekki aðra sönnun fyrir þessu en það sem hér stendur, en mér sýnist að þessi mál þurfi þá að skoða.