Leyfi setts framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 13:52:00 (245)


[13:52]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Mér er ekki kunnugt um að Hrafn Gunnlaugsson hafi farið í tveggja mánaða leyfi og svara því einfaldlega þannig.
    Hvort slíkt tíðkist að menn fái leyfi frá því að gegna opinberu starfi, að sjálfsögðu tíðkast það. En ef átt er við hvort það tíðkist að maður sem er settur um tíma til þess að gegna tilteknu starfi fái leyfi frá störfum þá hef ég ekki nein dæmi á takteinum um það en sé í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að hann fengi slíkt leyfi ef það væri rökstutt.