Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:17:04 (380)

[15:17]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki bara eitt heldur tvennt sem skiptir máli í þessari umræðu. Annars vegar að horfast í augu við að herinn mun draga mikið saman og allt eins fara á næstu árum. Herinn hefur reynst Suðurnesjum blendin blessun í atvinnumálum. Vinnuafl hefur sogast að hernum, önnur atvinnustarfsemi átt í erfiðleikum við að keppa við hann. Suðurnes hafa goldið nærveru hersins í atvinnuuppbyggingu. ,,Þið hafið herinn`` er staðlað svar sem Suðurnesjafólk þekkir allt of vel. Það væri síðan að bíta hausinn af skömminni að ætla að neita að horfast í augu við veruleikann.
    Samdráttur í hermálum er ekkert séríslenskt fyrirbrigði sem betur fer. Hann er til marks um að jafnvel harðasta kaldastríðskynslóðin telji nógu friðvænlegt hér á norðurslóð til að spara herútgjöld. Er það harmsefni? Gífurlegum fjármunum er varið í hernaðarútgjöld um allan heim, fjármunum sem betur væri varið til einhvers uppbyggilegra, svo sem atvinnumála, heilbrigðismála, umhverfismála og þróunarhjálpar og þetta eru þjóðir víða um heim að uppgötva.
    Við kvennalistakonur höfum hvað eftir annað þurft að benda ríkisstjórnum á að búa sig undir þennan samdrátt, ekki síst með tilliti til allra þeirra kvenna sem hafa þegar misst vinnuna eða atvinnuleysi vofir yfir. Svörin hafa verið rýr og ekki upp á annað boðið en að reynt verði að hanga á hernum eða reisa álver. Hvort tveggja eru lélegar lausnir að mínu mati og óraunsæjar þar að auki.
    Hjá þeim sem gerst þekkja atvinnumál á Suðurnesjum eru uppi allt aðrar og mun raunsærri hugmyndir um það á hvern hátt aðlögun geti farið fram. Þar á meðal er tekið tillit til þeirra sem hafa starfað lengi hjá hernum og þurfa að eiga kost á endurmenntun eða nýjum tækifærum og þá hefur m.a. verið litið til atvinnu- og nýsköpunarhugmynda frá Háskóla Íslands.
    Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram í þessari umræðu áður en ég vík að hinu atriðinu sem hefur verið meginþungi þessarar umræðu. Það er virðingarleysi utanrrh. við utanrmn. og það að lögboðið samráð við hana hefur verið hunsað. Ég hef ekki miklu við þá gagnrýni að bæta, tek undir hana og tel það ámælisvert að ekki hafi verið staðið öðruvísi að þessu máli.