Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:19:22 (381)


[15:19]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þær samningaviðræður sem fram hafa farið að undanförnu milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda eru bundnar trúnaði að því er varðar opinbera umfjöllun um efnisatriði enn sem komið er. Það er að ósk samningsaðilans en af Íslands hálfu var á það fallist. Það var gert í ljósi þess að það átti að hraða þessum samningaviðræðum og reyndar ljúka þeim snemma í septembermáunuði.
    Það er óþarfi að tíunda rök fyrir því að þetta sé eðlilegur hlutur. Að sjálfsögðu hljóta stjórnvöld að áskilja sér rétt þegar um er að ræða milliríkjasamninga á viðkvæmu stigi að hafa um þá trúnað um opinbera umfjöllun meðan samningar fara fram. Því er haldið fram að þetta sé brot á lýðræðislegum starfsvenjum og jafnvel á lögum. Því fer náttúrlega víðs fjarri. Að sjálfsögðu er þetta ekkert lagabrot. Þaðan af síður er þetta brot á eðlilegum starfsvenjum. Þetta er heldur ekki brot á þeirri starfsreglu að samráð skuli haft við utanrmn. um mótun stefnu.
    Ég vísa til þess að stefna í þessu máli hefur verið mótuð fyrir opnum tjöldum. Nefnd var skipuð til þess að undirbúa þessar viðræður í júnímánuði árið 1992. Hún hefur skilað sýrslu sem hefur verið

lögð fram hér á Alþingi, skýrslu sem hefur verið rædd bæði í utanrmn. og á Alþingi Íslendinga sem og í ríkisstjórn. Með öðrum orðum, stefnan hefur verið mótuð fyrir opnum tjöldum í fullu samráði við Alþingi og utanrmn. Það sem við erum að tala um er að á þessu stigi málsins er trúnaður um samningaviðræðurnar sjálfar. Slíkt er að sjálfsögðu hvorki brot á lögum né starfsvenjum.
    Hitt er rétt að það var ákveðið af okkar hálfu að verða við ósk um trúnað í ljósi þess að það átti að hraða þessum viðræðum og ég tek undir það að það er gagnrýnisvert að viðræðurnar hafa dregist á langinn. Það er hins vegar ekki af okkar völdum og í gær kvaddi ráðuneytisstjóri utanrrn. samkvæmt mínum fyrirmælum starfandi sendiherra Bandaríkjanna á sinn fund og lýsti óánægju okkar, íslenskra stjórnvalda, með það að viðræðurnar hafa dregist úr hófi fram og tók jafnframt fram að það væru ströng tímamörk á því hversu lengi væri unnt að verða við ósk samningsaðilans um að viðhalda fullum trúnaði ef viðræðurnar drægjust svona á langinn.
    Þar með tel ég að ég hafi svarað þeim atriðum sem fram hafa verið færð hér í gagnrýnisskyni. Að því er varðar fjölmiðlaumfjöllun skal það tekið fram að í gær birti utanrrh. yfirlýsingu af tilefni fréttaflutnings Morgunblaðsins þar sem borin voru til baka þau efnisatriði sem ástæða var til, þ.e. að í viðræðunum hafi komið til tals að varnarsamningnum yrði sagt upp eða hitt, sett fram krafa um að varnarliðið hyrfi úr landi eða af hálfu íslenskra stjórnvalda hafi verið samþykkt að hernaðarlegt mat á viðbúnaði varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli yrði alfarið í höndum Bandaríkjahers. Þetta eru þau efnisatriði í fréttinni sem ástæða var til að bera til baka vegna þess að þau eru villandi, gefa villandi mynd af viðræðunum. Þessar fullyrðingar eru rangar og gætu þess vegna skaðað málið út af fyrir sig eins og fram kom í máli hv. formanns utanrmn.
    Að því er varðar önnur efnisatriði, þ.e. viðbúnað íslenskra stjórnvalda gagnvart samdrætti, breytingum á starfsemi varnarliðsins og að því er varðar atvinnumál á Suðurnesjum, þá hafa þau mál verið lengi í undirbúningi. Það hefur verið gripið til sértækra aðgerða til þess að efla atvinnustig á Suðurnesjum með mjög góðum árangri eins og hv. þm. er fullkunnugt um.