Framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 15:24:01 (382)


[15:24]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég held vegna þessarar umræðu að það sé hollt að rifja það upp að ein yfirlýsing þeirra stjórnmálaflokka sem bera ábyrgð á veru hersins hér var ævinlega skýr og vafalaus. Þegar váboðar ófriðarins hyrfu færi herinn úr landinu. Hér skyldi aldrei vera her á friðartímum hét það. Og hér skyldi aldrei vera her af neinum öðrum ástæðum en vegna öryggismála, ekki t.d. vegna efnahagsmála eða atvinnumála.
    En nú eru runnir upp friðartímar eða hvað? Skilgreining á þessu hugtaki er erfið en ég er ekki í vafa um að í hugum okkar Íslendinga var sá skilningur ríkjandi að friðar- og afvopnunarsamningar milli stórveldanna yrðu teknir gildir sem sönnun fyrir friði. Og hefði einhver haft hugmyndaflug til að setja fram þá skilgreiningu á friðartímum að þeir væru þó alla vega komnir þegar Sovétríkin hefðu liðast í sundur og Rússland hefði óskað eftir hernaðarsamstarfi við NATO, þá hefði líklega enginn andmælt þeim skilningi. Og varla hefði nokkur maður andmælt því að þegar Ameríkanar teldu ekki lengur þörf á veru sinni hér þá væri örugglega brostinn á friður. Það eru þess vegna ómótmælanlega komnir þeir friðartímar sem eiga að hafa í för með sér brottför hersins. Og fagna ráðamenn þá ekki þessari langþráðu stund allra Íslendinga að erlendur her geti farið úr landinu? Nei, ekki aldeilis. Íslenska þjóðin hefur ekki heyrt forsrh. sinn eða utanrrh. tilkynna að loksins, loksins geti nú herinn farið. Þvert á móti virðist hægt og hljótt og án umræðna hafa orðið sú stefnubreyting af hálfu stjórnvalda að hér eigi að vera her á friðartímum og hæstv. ráðherrar Íslendingar leita allra leiða að tjaldabaki til að koma í veg fyrir að herinn fari úr landinu. Það er send hver betlinefndin eftir aðra til Ameríku til að væla í amerískum stjórnvöldum um að draga sem minnst úr umsvifum hersins í landinu. (Forseti hringir.) Forsvarsmenn þessarar stoltu þjóðar stunda sams konar ,,lobbíisma`` í ameríska stjórnkerfinu og amerískir hergagnaframleiðendur sem nærast á hörmungum stríðsátaka í heiminum. Þeir óttast líka um atvinnu sína.
    Virðulegur forseti. Ég trúi því ekki ( Forseti: Tíminn er búinn.) að íslenska þjóðin sé svo lítilþæg að hún sé samþykk þessum ölmusuferðum íslenskra ráðamanna til Ameríku.