Ríkisreikningur 1991

16. fundur
Þriðjudaginn 19. október 1993, kl. 18:50:20 (454)

[18:50]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessi þrjú mál sem hér hafa verið síðast á dagskrá tengjast í raun og veru öll innbyrðis eins og raunar hefur komið fram í máli manna. Hvorki var lokið að ræða ríkisreikning fyrir árið 1991, fjáraukalög fyrir það sama ár né fjáraukalög fyrir 1992 í lok síðasta þings. Ástæðan var eins og hér hefur margoft komið fram í máli manna þessi ágreiningur sem uppi er um færslu á tæpum 1.700 millj. kr.
    Það er alveg augljóst að við náum ekki neinni niðurstöðu um þetta mál við 1. umr. um ríkisreikning en ég vil þó geta þess og taka undir það sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason sagði áðan í sinni ræðu að minni hlutinn í fjárln. hafði lagt það til þegar átti að ræða í lok þings í fyrra um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1991 að því máli yrði vísað frá, að frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir þetta ár yrði vísað frá. Það sem við rökstuddum þetta með var svohljóðandi:
    ,,Samkvæmt 6. gr. laga nr. 12/1986, um Ríkisendurskoðun, skal hún endurskoða ríkisreikning. Ríkisendurskoðun hefur endurskoðað ríkisreikning fyrir árið 1991. Í ríkisreikningi 1991 er framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs Íslands fært til gjalda hjá forsrn. Þetta er byggt á 13. gr. lánsfjárlaga fyrir árið 1992 sem staðfest voru 24. jan. 1992 og heimila fjmrh. að yfirtaka skuldir Framkvæmdasjóðs Íslands að fjárhæð allt að 1.700 millj. kr. á því ári. Fjmrh. hefur þegar nýtt þessa heimild samkvæmt samkomulagi við Framkvæmdasjóð sem er dagsett 9. mars 1992. Það er álit Ríkisendurskoðunar að færa nefnt framlag til gjalda í ríkisreikningi 1992 í stað 1991 og því sýnir rekstrarreikningur A-hluta ríkissjóðs á árinu 1991 verri afkomu sem þessu nemur.
    Um endurskoðun að öðru leyti vísar stofnunin til sérstakrar endurskoðunarskýrslu sem lögð verði fyrir Alþingi samhliða skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings.``
    Þetta segir Ríkisendurskoðun í athugasemdum við þennan reikning. Það var á því sem minni hluti fjárln. byggði þá afstöðu sína að þessu væri vísað frá þar sem ekki hefði náðst neitt samkomulag um það og mikill ágreiningur var uppi um þennan reikning.
    Ég verð að segja það að ég hef verið á þeirri skoðun að þær athugasemdir sem yfirskoðunarmenn og Ríkisendurskoðun eru hér að gera séu fullkomlega rökréttar og get ekki fallist á sjónarmið fjmrn. í þessu máli. Ég vil því endurtaka það að ég tel að öll þessi mál, fjáraukalög 1991, fjáraukalög 1992 og ríkisreikningur fyrir árið 1991 tengist því að sú ákvörðun sem tekin verður um það hvernig með þessa færslu skuli fara hlýtur að hafa áhrif á öll þessi mál. Það er því augljóst að það verður að fresta því að afgreiða þetta mál þar til að niðurstöður ríkisreikningsnefndar liggja fyrir. Við höfum ítrekað spurt að því í fjárln. hvenær þær niðurstöður muni verða til og síðustu svör sem við fengum voru þau að þær yrðu lagðar fram og yrðu kynntar tilbúnar fyrir áramót a.m.k., í desember held ég að hafi verið nefnt, og úr því að svo mikil seinkun hefur orðið á afgreiðslu þessara fjáraukalagafrv. tveggja og ríkisreiknings fyrir árið 1991 þá sé ég ekki að tveir mánuðir til eða frá skipti máli þannig að ég legg til að þessu máli verði frestað þar til ríkisreikningsnefnd hefur skilað sínu áliti.