Dýravernd

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 12:40:57 (507)


[12:40]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Þó að uppeldisstöðvar mínar og hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar séu talsvert frábrugðnar þá get ég eigi að síður ekki tekið mér það vald að dæma um það hvort hænsn eigi við geðveilur að stríða eða ekki, en það er bersýnilegt að hv. þm. telur sig búa yfir einhvers konar reynslu sem gerir það kleift. Ég vil ekki segja að það sé vegna þess hvar hann hefur alið manninn til þessa. En ég vil að öðru leyti þakka honum fyrir þær umræður sem hann stóð hér fyrir. Þær voru málefnalegar. Mér þótti sérstaklega athyglivert að hann tók hér upp það atriði sem varðar réttaröryggi þeirra sem kunna að verða sviptir réttinum til þess að halda dýr. Og það er rétt að það komi fram að þetta var athugað sérstaklega. Yfir það fór hæstaréttarlögmaðurinn Eiríkur Tómasson og komst að þeirri niðurstöðu að eins og frv. er búið þá stenst það allar þær kröfur sem menn gera um slíkt.
    Svo að ég komi nú aftur að þeim fugli sem hv. þm. hefur mesta samúð með, hænsnunum, þá er ekki svo að þetta frv. komi í veg fyrir að hægt sé að halda hænsni í búrum. Þetta frv. og reyndar fyrri frumvörp sem samin voru en ekki voru lögð fram, tóku ítarlegar á þessu heldur en gert er hérna. Þar var t.d. lagt niður það skilyrði að fuglar þurftu að geta blakað væng. Ég hygg að ég og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson getum nú verið sammála um að það sé e.t.v. ekki nægjanlegt til þess að tryggja velferð þessara dýra. En af því að málið er mér skylt þá veit ég auðvitað að það hefur verið mikil umræða, bæði meðal bænda og meðal dýraverndarsinna, um það hvort hægt sé að réttlæta eldi fugla í búrum. Af því að ég hef reynslu af því þá verð ég að segja það að umræddir fuglar haldast vel við í búrum, vaxa vel, sýna ekki tiltakanleg merki um geðveilu, en ég tek það fram að ég hef ekki reynslu til að dæma um það. En gjarnan er það svo að góður þrifnaður og viðhald dýra er tekið sem dæmi um velferð þeirra. Þetta segi ég ekki hér til þess

að lýsa því afdráttarlaust yfir að það sé mín skoðun að þetta sé heppileg meðferð. Hins vegar er það svo að yfirvöldin í landinu hafa talið það og ég vek athygli á því, út af ummælum hv. þm., þegar hann segir að lögin komi veg fyrir að það sé hægt að halda hænsni í búrum, að í 6. gr. er gert ráð fyrir því að umhvrh. í samráði við landbrh. gefi nánari fyrirmæli um vistarverur og aðbúnað dýra, m.a. skilyrði fyrir eða bann við innilokun dýra í búrum. Þetta er í 6. gr., hv. þm. Með öðrum orðum, þarna er það alveg ljóst að opnað er fyrir að hægt sé að halda dýr í búrum að settum sérstökum skilyrðum.
    Hvað hreindýrin varðar þá má auðvitað um það deila hvort þau eigi heima í þessu frv. eða því frv. sem nefnt hefur verið villidýrafrv. En ég vek athygli hv. þm. á 1. gr. frv. þar sem tekið er fram að þessi lög eigi einkum að taka til þeirra dýra sem eru í vörslu eða umsjón manna og síðan er hér í 16. gr. einmitt aðeins tekið á veiðum villtra dýra, en bent að öðru leyti til þess að um veiðar villtra dýra skuli fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar dýra. Ég benti á það í minni framsögu hvað þar var átt við. Það má deila um það, eins og hv. þm. gerir hér ágreining um, hvort hreindýrin eigi heima undir þessu frv. eða hinu. Ég er andstæðrar skoðunar við hv. þm. En ég vænti þess að þetta viðhorf hans verði þá rætt í hv. umhvn.
    Þingmaðurinn drap hér aðeins á meðferð hrossa sem látin eru liggja við opið að vetrarlagi og taldi nauðsynlegt að þar væri einhvers konar skjól fyrir stóð og jafnframt séð til þess að fóður og vatn væri til staðar. Nú er það einmitt svo að í 5. gr. frv. er þetta tekið sérstaklega fram.
    Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, og þakka hv. þm. fyrir þær ábendingar sem hann hefur hér komið með.