Almannatryggingar

18. fundur
Fimmtudaginn 21. október 1993, kl. 14:09:10 (523)


[14:09]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vænti þess að þetta frv. komi til umræðu hér aftur. Vegna fjarveru minnar í

þessari viku hefur mér gefist lítill tími til að skoða frv. nákvæmlega, en vil þó, hæstv. forseti, í framhaldi af því sem hv. 11. þm. Reykv. benti á ítreka það að hér er auðvitað um grundvallarbreytingar á tryggingakerfinu að ræða. Það er grundvallarbreyting á almannatryggingum eins og við höfum litið á þær --- ég vil aðeins, hæstv. forseti, leyfa ráðherra að tala við ritara sinn en ég kysi frekar að hann hlýddi á mál mitt, ( Heilbrrh.: Hann hlustar.) --- ég vil ítreka það, hæstv. forseti, að þegar almannatryggingalögin voru sett sem löngum hafa nú verið stærsta rósin í hnappagati íslenskra jafnaðarmanna og ekki síst hefur Alþfl. þakkað sér setningu þeirra laga að verulegu leyti og með réttu, þó að ýmsir kæmu nú aðrir að því sem einnig telja sig jafnaðarmenn, var það auðvitað þessi grundvallarhugmynd að greiðslur úr almannatryggingum væru engin ölmusa, þær væru engin félagsleg aðstoð. Það er réttur sem hver einasti Íslendingur hefur. Sjálfur hefur hann unnið fyrir þessum rétti og þess vegna á hann að geta notið hans án þess að líta á sig sem þiggjanda félagslegrar aðstoðar. Þetta var sjálfsagður réttur.
    Á þetta benti ég reyndar, hæstv. forseti, þegar farið var að tekjutengja sjálfan ellilífeyrinn. Vissulega get ég skilið þá hugsun sem þar var á bak við, en ég sé eftir þeirri grunnhugsun sem allt almannatryggingakerfið byggðist á og var vissulega skarðað í þegar ellilífeyrisréttinum var breytt. En hér er sem sagt haldið áfram og eins og hv. 11. þm. Reykv. bendir á, þá eru allar heimildarbætur teknar út úr almannatryggingalögunum sem voru þar og aðrar einnig gerðar að heimildarbótum. Hingað til hefur það verið sjálfsagður réttur einstæðra foreldra að njóta mæðra- eða feðralauna. Ég hef ævinlega skilið það svo að við Íslendingar viljum líta á það svo að okkur varði um öll íslensk börn og við viljum tryggja það af sameiginlegum sjóðum okkar að börn líði ekki fyrir það að hafa ekki báða foreldra sína á heimili. Vissulega getum við öll verið sammála um að við getum auðvitað ekki gert það vegna þess að þessar greiðslur hafa ekki verið af þeirri stærðargráðu að það væri raunhæft. Hitt er annað mál að á bak við þessar greiðslur var skilyrðislaus réttur allra barna til að alast upp við sæmileg skilyrði og ekki að sama skapi rýr og burtvera annars foreldris gefur tilefni til þannig að ég lít það mjög alvarlegum augum að nú skuli einhver ráð eða nefnd eða ég veit ekki hvað ákveða hvaða börn skulu njóta þessara greiðslna og hver ekki. Að vísu er hér um fleiri málaflokka að ræða. T.d. hafa menn nú séð ofsjónum yfir afar lágum greiðslum til ekkna og hingað til hefur það verið sjálfsagður réttur ekkna sem orðnar voru fimmtugar þegar þær misstu maka sína að fá lífeyri. Hann fór að vísu stighækkandi á 10 árum milli fimmtugs- og sextugsaldurs konunnar. Þetta voru nú ekki greiðslur sem neinn varð ríkur af en komu sér þó áreiðanlega stundum vel þegar um láglaunakonur var að ræða og það er fleira svona sem greinilega er farið að gera að heimildum til greiðslu sem áður voru sjálfsagðar greiðslur.
    Hins vegar vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Með því að fara í fljótheitum yfir þetta frv. þá átta ég mig ekki alveg á því, hver á svo að heimila þessar greiðslur. Er það starfsfólkið í Tryggingastofnun ríkisins sem á að ákveða það hver fær greiðslurnar og hver ekki? Það gefur auga leið að það hlýtur þá að verða að fara yfir skattskýrslur og annað hjá hverjum einasta einstaklingi. Mér liggur við að segja að það verði bókstaflega að gera heimiliskönnun til þess að það verði eitthvert réttlæti í því hverjir fái þetta og hverjir ekki og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig í ósköpunum á að framkvæma þetta.
    Hingað til hafa Íslendingar forðast það sem hefur viðgengist víða erlendis að það væri næstum því verið að skoða heimili manna til þess að ákveða greiðslur og þá væri aðallega um að ræða svokallaða félagslega aðstoð, það hafa verið greiðslur félagsmálastofnana. Þetta hafa nú þótt heldur óskemmtilegar aðfarir og ég hélt að við vildum ekki endilega taka þær eftir. Ég vil því spyrja: Eigum við að treysta ráðherrum framtíðarinnar til þess að setja endalausar reglugerðir um framkvæmd þessara mála? Og erum við þá, hæstv. forseti, ekki farin að tvöfalda kerfið? Oft er það nú svo að þessar greiðslur almannatrygginga eru ekki meiri en svo að fátækt fólk verður jafnframt að leita til félagsmálastofnana og eiga þá að sitja nefndir á báðum stöðum til að fjalla um sömu fjölskylduna? Eða hvernig hugsa menn þetta? Það er nefnilega stundum þannig að menn gleyma að sjá fyrir endann á því hvernig framkvæmdin á þessu kemur til með að verða og hvort hún gæti ekki farið að kosta það sem til sparast. Því þegar öllu er á botninn hvolft, þá eru þetta ekki háar upphæðir sem hér er um að ræða. Mér er t.d. afskaplega mikið til efs að það geti hugsanlega borgað sig að fara að kanna vandlega hagi og tekjur þeirra ekkna í landinu sem hafa fengið frá held ég 7.000 kr. á mánuði og kannski upp í 18--20, mér er til efs að sá sparnaður fari ekki í framkvæmdina þannig að ég vil nú biðja menn að fara sér aðeins varlega og sjá fyrir sér hvernig eigi að framkvæma þetta. Það verður ekkert smámál ef allir þessir bótaflokkar sem hér eru nefndir og nú eru það heimildarbótaflokkar, ef það á að framkvæma þetta af einhverju skynsamlegu viti. Það verður ekkert smáverk. Og fer þetta ekki að verða þannig að það þarf 3--4 aðila á hverja einustu fjölskyldu í landinu til að kanna hagi hennar og aðstæður? Hvað erum við að gera í þessu litla landi?
    Frú forseti. Við höfum síðan 1936 haft efni á að hafa hér heilsugæslu og almannatryggingar sem byggðust á réttindum allra manna til læknishjálpar eins og til þurfti. Það hefur ekkert gerst nema síður væri frá þeim tíma sem ætti að geta komið í veg fyrir að við réðum vel við þetta enn þann dag í dag. Og það er auðvitað alltaf sjálfsagt að spara. Það er sjálfsagt að hagræða í heilbrigðiskerfinu og ég hygg að hver einasta manneskja og flestir sem í því vinna séu tilbúnir til þess að aðstoða hæstv. ráðherra við að spara þar óþarfa kostnað. En ég er alveg sannfærð um að það þarf ekkert á sjúklingum að halda til þess. Við getum alveg séð um það við hin eins og við höfum alltaf gert og erum alveg tilbúin til þess og við borgum sjálfsagt glöð skatta okkar og skyldur ef við getum treyst því að það fé fari m.a. í gott, stöðugt og öflugt heilbrigðiskerfi. Ég átta mig ekki alveg á hvað er verið að fara hér út í en eins og ég sagði í upphafi máls míns, frú forseti, þá vissi ég ekki að þetta mál yrði á dagskrá í dag og tel mig þurfa að fara vandlega yfir þetta þó að þessi málaflokkur sé mér nú e.t.v. kunnugri en ýmsir aðrir vegna margra ára starfa minna í Tryggingastofnun ríkisins og þess vegna verður metnaður minn að vera að skila því mjög vel frá mér og ég mun því reyna að gera það milli umræðna. En ég vil biðja hv. nefndarmenn í heilbr.- og trn. að skoða þessi mál vel. Hér varð alvarlegt slys við lagasetningu sl. vor varðandi viðskipti vátryggingarfélaganna og Tryggingastofnunar við setningu skaðabótalaga sem nú er verið að fara yfir og ég bið menn um að láta sér það mál að kenningu verða og reyna að vinna betur og athuga betur þegar verið er að hrófla við margra ára framkvæmd sem gætu að mínu viti orðið mjög kostnaðarsamt og varla til sparnaðar.