Ratsjárstöðvar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 15:18:22 (543)

          [15:18]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svar hans sem var ákaflega skýrt. Það liggur sem sagt fyrir að ætlunin er að efna það fyrirheit sem gefið var fyrir tæpum áratug síðan eða á árinu 1984--1985 um það að koma upp þessum skiparatsjám. Ég tek undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e. að af þessum skiparatsjám verður auðvitað mjög mikið gagn eins og hann rakti mjög ítrlega hér í sínu máli hér áðan og í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta. Orð hans styrkja mjög þennan málflutning sem ég hef verið að hafa hér frammi og er mjög í samræmi við það sem við héldum fram sem töluðum máli ratsjárstöðvanna á árinu 1984--1985.
    Ég held að það sé ástæða til þess að endurtaka að það er auðvitað hægt að hafa mjög margvísleg not af þessum ratsjárstöðvum, ekki bara til þess að sjá rigningarskúr á lofti ef menn ætla að fara í heyskap, heldur líka til þess að fylgjast með skipaumferð og

getur þetta þess vegna verið ómetanlegt öryggistæki eins og öllum er ljóst. Ég held því að það sé ástæða til þess að taka undir það og ítreka það og leggja á það áherslu við hæstv. utanrrh. að þessu máli verði fylgt fast eftir. Það kom fram í máli hans að það eru enn þá samkvæmt þeim drögum sem liggja fyrir áform um að þessum skiparatsjám verði komið upp í þessum ratsjárstöðvum og eins og menn hafa bent á eru mjög gild rök fyrir því að það verði og við höfum auðvitað mjög mikil borgaraleg not af því eins og það var orðað hér áðan. Þess vegna er ástæða fyrir okkur að fylgja þessu máli fast eftir í þeim viðræðum sem fara fram núna á næstu vikum og mánuðum og ég fagna því að hæstv. utanrrh. hefur talið ástæðu til að þessu máli verði fylgt eftir og vakið athygli á mikilvægi og nauðsyn þess.