Jöfnun húshitunarkostnaðar

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:04:34 (615)


[18:04]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Eins og kom fram í máli hv. 5. þm. Vestf. þá þuldi hann upp ansi mikið af tölum sem ekki var hægt að ná öllum á þessum stutta tíma. En ég vil enn og aftur minna á það að ríkisstjórnin fór af stað með góð loforð. Hún byrjaði á því 1. júní 1991 að leggja til fyrstu atlögu við að lækka húshitunarkostnað sem gerast átti í þremur áföngum, en það hefur bara ekkert gerst síðan. Í raun og veru hefur ríkisstjórnin ekkert gert síðan því að það sem hefur áunnist í að lækka lítils háttar þennan mismun er í raun og veru það sem virkjanirnar sjálfar, það sem orkuveiturnar sjálfar hafa gert. Þær hafa tekið á sig allmargar hækkanir Landsvirkjunar án þess að láta þær koma fram í verðinu. Þær hafa líka, t.d. Orkubú Vestfjarða, lengt afskriftatíma sinna virkjana úr 40 árum 60 ár til þess að lækka þennan kostnað. Það er meira heldur en Landsvirkjun gerir. Hún lækkar ekki afskriftartíma sinn. Hins vegar hefur Landsvirkjun komið lítils háttar inn í þessa lækkun, þ.e. um síðustu áramót, en það var eingöngu vegna þess að þá ákvað ríkisstjórnin að hækka verð til þeirra sem nota rafmagn til húshitunar, hækka það með 14% virðisaukaskatti. Hún varð síðan vegna mikils þrýstings að gera eitthvað til þess að draga úr þeirri hækkun. Ég er hér með línurit frá Landsvirkjun frá síðustu áramótum sem sýnir að þær lækkanir sem áttu að nást hafa ekki náðst. Munurinn á milli er nákvæmlega sá sami árið 1991. Hann eykst heldur á árinu 1993 þannig að það hefur ekkert áunnist frá 1. júní 1991.