Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 16:25:12 (669)


[16:25]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að orð mín standi alveg óhögguð þrátt fyrir þessi orð ráðherra. Hins vegar vil ég minna á það að þetta er nú ekki alveg sambærileg talnaleikfimi því að verðlag ársins 1988 var annað og þarf auðvitað að taka inn í þessa mynd. Það var sem betur fer, og það er arfur frá fyrri ríkisstjórn, búið að slá niður verðbólguna þegar þessi hæstv. ríkisstjórn tók við. Það hefur auðvitað skipt sköpum og ýmsar stofnanir hafa staðið sig bærilega og haldið sínum rekstri innan marka. Það tók ég fram og auðvitað ber að þakka það sem vel hefur verið gert í þeim efnum. Ekki ætla ég að draga fjöður yfir slíkt. En það er náttúrlega verðbólgan sem skiptir einnig sköpum í þessu efni.