Aðild Íslendinga að Svalbarðasamkomulaginu

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:09:04 (714)


[14:09]
     Runólfur Birgisson :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. sjútvrh. Nú eru allt að 25 íslensk skip að veiðum í svokallaðri Smugu í Barentshafinu. Þar hafa veiðst um 8 þús. tonn af þorski að aflaverðmæti allt að 1 milljarði. Samkvæmt yfirlýsingum útgerðar og skipstjórnarmanna munu íslensk skip halda til veiða á verndarsvæði við Svalbarða ef veður og ís hamla veiðum í Smugunni, einnig ef veiðar minnka mikið á þessu veiðisvæði. Ég vil því bera fram eftirfarandi fyrirspurnir. Ég veit reyndar að þær snerta að einhverju leyti hæstv. utanrrh. en hann er ekki til svara svo að ég beini fyrirspurnum mínum til hæstv. sjútvrh.:
    1. Hver er afstaða íslenskra stjórnvalda og hæstv. sjútvrh. til veiða á Svalbarðasvæðinu?
    2. Getur hugsast að Íslendingar eigi aðild að Svalbarðasamkomulaginu frá 1925 eða 1926, ég man ekki hvort árið það var, vegna aðildar Dana að samkomulaginu á þeim tíma?
    3. Hafa íslensk stjórnvöld hugleitt þann möguleika að gerast aðilar að Svalbarðasamkomulaginu ef það er ekki fyrir hendi og ef svo er hve langt er sú vinna komin?