Eftirlaunaréttindi launafólks

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 11:57:46 (754)


[11:57]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Því er nú til að svara að ég tel að við hv. þm. Guðni Ágústsson séum báðir dreifbýlismenn. Ég held að það sé ekki hægt að vera að tala um neinn klofning í þessu máli. Það getur vel verið að þetta mál eigi bullandi þingmeirihluta. Ég veit fyrir víst og eins og hefur komið hér rækilega í ljós að margir þingmenn eða ýmsir þingmenn Framsfl. styðja málið. Ég stóð ekki hér upp sem talsmaður fyrir þingflokk framsóknarmanna. Ég ætla að biðja hv. þm. að athuga það. Ég stóð upp hér og sagði mína persónulegu skoðun á þessu máli. En það hefur ekki farið fram nein skoðanakönnun innan þingflokks framsóknarmanna um þetta mál. Flm. fengu hins vegar heimild þingflokksins til þess að leggja þetta mál fram og ég var því hlynntur að þeir legðu það fram og fengju þessa umræðu um hugmyndir sínar. Þeir höfðu lagt mikla vinnu í að útbúa þarna frv. um áríðandi málefni og mér fannst mjög eðlilegt að þingflokkurinn væri ekki að leggja stein í götu þeirra, að þeir fengju umræður um þetta. Ég vildi hins vegar einungis láta það koma fram í örfáum að ég hef ákveðnar efasemdir um þetta mál. ( Umhvrh.: Hver hefur mengað Guðna Ágústsson?) Ég veit ekki hvort Guðni Ágústsson hv. þm. er neitt mengaður. Ég hef ekki neina trú á því. Hann er hins vegar mikill einstaklingshyggjumaður. Það sómir sér ágætlega fyrir framsóknarmenn en þeir þurfa að hafa dálitla félagshyggju í töskunni líka.