Leigutekjur af embættisbústöðum

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:56:17 (931)

[16:56]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ný reglugerð um leiguhúsnæði í eigu ríkisins tók gildi um síðustu áramót. Vegna þess að á þessu ári hefur verið unnið að því að koma reglugerðinni í framkvæmd eru ekki til marktækar tölur um leigugreiðslur á þessu ári. Tölur eru hins vegar til fyrir árið 1992 og áætlun vegna næsta árs. Fimm ráðuneyti ráða yfir langflestum embættisbústöðum ríkisins í A-hluta ríkissjóðs. Það eru: heilbrrn., landbrn., menntmrn., dóms- og kirkjumrn. og fjmrh. Í B-hluta er Póst- og símamálastofnunin með um 40 bústaði sem flestir eru leigðir símstöðvarstjórum. Í samanburði húsaleigugreiðslna milli áranna 1992 og 1994, sem ég mun lýsa hér á eftir, eru eingöngu taldir þeir bústaðir sem tilheyra A-hluta. Prestsbústaðir eru ekki taldir með dómsmrn., þar sem stefnt er að því að þeir verði á forræði kirkjunnar og í hennar umsjá á árinu 1994.
    Heildarleigutekjur af embættisbústöðum heilbrrn. árið 1992 voru 4 millj. 987 þús., tæplega 5 milljónir kr. Árið 1994 er gert ráð fyrir að þessi tala verði 6 millj. 246 þús. kr., eða hækkun um 25,2%. Í landbrn. eru tölurnar þannig að árið 1992 voru heildarleigutekjur 8,2 millj. kr. en verða 12,5 millj. kr. árið 1994, hækkunin 53% tæp. Í dómsmrn. voru tekjur 2,2 millj. kr. en verða 5,6 millj. kr., hækkun um 153,2%. Í heilbrrn. eru tölurnar 12,9 millj. kr. en verða 30,3 millj. kr., hækkun 135%. Í fjmrn. voru tekjurnar 954 þús. kr. verða það sama 1994, engin hækkun. Samtals eru leigutekjurnar þannig 28,3 millj. kr. en verða 55,7 millj. kr., hækkun 96,7%.
    Ný reglugerð um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins nr. 480/1992 tók gildi í ársbyrjun 1993 og féll þá jafnframt úr gildi eldri reglugerð um sama efni. Nýja reglugerðin gerir ekki ráð fyrir verulegri hækkun húsaleigu og má segja að leigugjald samkvæmt eldri reglugerð sé í flestum tilfellum það sama og er samkvæmt nýju reglugerðinni. Ástæða þess að heildarleigugreiðslur munu hækka með gildistöku nýju reglugerðarinnar er að í henni er fækkað undanþáguheimildum og frádráttarákvæðum. Þegar reglugerðin tók gildi var ákveðið að þau ráðuneyti sem hafa embættisbústaði á sínum vegum ættu samstarf um að koma reglugerðinni í framkvæmd. Þannig hefur verið unnið markvisst að því á vegum ráðuneytanna að gera nýja húsaleigusamninga í samræmi við reglugerðina. Meðal nýrra ákvæða í gildandi reglugerð er að gera skuli skriflega húsaleigusamninga, húsaleigugjald skuli framreiknað miðað við byggingarvísitölu og að tilnefndur skuli umsjónaraðili með hverjum bústað er annist eftirlit og viðhald. Jafnframt er skýrt kveðið á um það að húsaleigutekjum skuli varið til greiðslu kostnaðar vegna eignanna og skuli tekjum og gjöldum vegna eignanna haldið sérgreindu í bókhaldi. Með þessum ákvæðum er áformað að koma viðhaldsmálum bústaðanna í gott horf.