Leigutekjur af embættisbústöðum

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 17:05:47 (935)

[17:05]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég er fyllilega sammála hv. fyrirspyrjanda um að það sé nauðsynlegt að taka á þessum málum, samræma og hreinsa til í reglugerðinni, samræma þessi mál á milli ráðuneytanna sem ekki hafði verið gert, eins og menn þekkja af umræðu sem varð hér fyrir einu eða tveimur árum síðan.
    Það var spurt um heilsugæslustöðvar. Reyndar fjallar þessi fsp. ekki beinlínis um þær, heldur um embættisbústaðina. Ég get þess vegna ekki gefið nægilega góðar skýringar á því sem þar hefur gerst, en ég veit ekki betur en það sé fullt samkomulag orðið á milli ráðuneytanna tveggja, fjmrn. og heilbrrn., um það að þetta fyrirkomulag verði viðhaft. Sjálfsagt má deila um það hvort það er gott eða slæmt, hvort eðlilegt sé að fara að með þessum hætti. Ég get ekki í raun svarað því hér hver er ástæða fyrir breytingunni.
    Þá ræddi hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir um það hvort haft hefði verið samráð við þá sem eru leigutakar eða þá sem njóta þessara sérstöku fríðinda. Aðferðin sem notuð var var sú að ráðuneytisstjórnarnir komu sér saman um þessar reglur og ég vonast til þess að þeir hafi a.m.k. gætt þeirra sjónarmiða sem hljóta

að vera uppi af hálfu þeirra sem njóta þessara sérstöku réttinda. Öðruvísi get ég ekki svarað því. Prestarnir eru ekki inni í þessari upptalningu sem ég nefndi. Það mun verða tekið á þeirra málum sérstaklega.
    Ég vil hins vegar að lokum segja það að þessi mál hljóta að verða í endurskoðun áfram. Það kann að vera að það sé orðið úrelt að ýmsar stéttir sem áður nutu þess að hafa þessi fríðindi, þurfi síður á þeim að halda í dag. Það er viss ósanngirni þegar starfsmenn stofnana fá afnot af húsnæði fyrir kannski miklu lægri leigu heldur en aðrir sem búa á viðkomandi stöðum. Það verður einnig að taka tillit til þeirra sjónarmiða við endurskoðun á þessum reglum.