Yfirstjórn menningarstofnana

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 16:49:11 (987)


[16:49]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég er samþykk efni þessa frv. í meginatriðum en ég verð að segja það eins og er að ég gerði athugasemd við greinargerð vegna þess að þar fannst mér vera atriði sem ekki eiga heima í þingskjali. En það verður að vera smekksatriði. Ég held hins vegar að þær upplýsingar sem hér hafa fram komið um að verið sé að semja þjóðarbókhlöðulög geri það að verkum að það sé gott að þetta frv. kom fram og sjálfsagt að það verði tekið inn í umræðu um þau lög. Ég held í meginatriðum að það sé skynsamlegt að hafa dómnefndir við ráðningu svo þýðingarmikilla starfsmanna og og ég hef ekki séð enn þá að það hafi skaðað Háskóla Íslands að ráðherra hefur ekki lengur einræði í ráðningu starfsmanna þar.
    En það er eitt efnisatriði sem ég vil benda á og það er að í frv. segir, með leyfi forseta: ,,Heimilt er að ráða landsbókavörð í átta ár samfellt hið lengsta.`` Og hið sama segir um þjóðskjalavörð. Síðan segir hins vegar um þjóðminjavörð að hann skuli skipaður til fimm ára í senn.
    Ég hef miklar efasemdir um að ekki sé heimilt að ráða menn lengur en til átta ára. Mér finnst jafnsjálfsagt að menn séu ráðnir t.d. til fjögurra ára í senn, en afburðastarfsmenn í starfi eins og í starfi landsbókavarðar, þjóðminjavarðar og þjóðskjalavarðar, ég held að það væri mikil missa ef slíkir menn væru neyddir til þess að fara úr starfi hversu gott starf sem þeir annars ynnu. Ég hef alltaf litið á þessa tímabundnu ráðningu sem vörn gegn því að menn sem ekki valda starfinu séu í það ráðnir þannig að hægt sé þá að skipta um en ekki að það sé gert til þess að, ja, mér liggur við að segja hleypa fleirum að. Ég held að það sé svo mikilvægt að í þetta veljist hinir hæfustu menn að það væri mikil eftirsjón í því ef þeir yrðu tilneyddir til að fara að loknum átta árum. Það er ekki langur tími í starfsævi manns og ég held að menn hugsuðu sig kannski um að taka við slíku starfi vitandi að þeir fengju ekki lengri tíma til að annast það. Ósamræmi þykir mér einnig í að þjóðminjavörður á að vera ráðinn til fimm ára í senn og þá ekki til átta ára hið lengsta eins og hinir.
    Hins vegar hlýtur það að vera umhugsunarefni að nú þegar skuli verið að endurskoða þjóðminjalög, nr. 88/1989. Það vill nú svo til að ég átti sæti í þeirri nefnd sem smíðaði þau lög og ósköp höfum við gert það illa ef nauðsyn er á heildarendurskoðun á þeim lögum. Vel kann að vera að einhverjir agnúar séu á þeirri löggjöf, en til lítils var nú barist á öllum þeim fundum sem ég man ekki hversu margir voru ef það þarf virkilega að fara yfir þann bálk allan og endurskoða hannn og að mér skilst samþykkja hér ný lög.
    En það var þetta sem ég vildi segja, hæstv. forseti, að ég hef miklar efasemdir um þessa stuttu ráðningu sé um sannanlega hæfa menn að ræða. Að öðru leyti held ég að þetta frv. sé af hinu góða og sé gott innlegg í alla þá lagabálka sem mér skilst að séu í smíðum í ráðuneyti hæstv. menntmrh.