Yfirstjórn menningarstofnana

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 17:00:48 (989)

[17:00]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Fyrst þetta með tímabundnar ráðningar og aðvörunarorð hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur vegna þess. Ég held að það sé nokkuð almenn skoðun orðið að það eigi að tímabinda ráðningar æðstu embættismanna en það sem kannski hefur skort á í því sambandi er að menn geri sér grein fyrir að það er kannski ekki nægilega tekið tillit til þess í launum þeirra, sem gegna mjög háum embættum tímabundið, eða hvort það eigi að líða ákveðinn tími sem þeir eiga að halda launum eftir að hinni tímabundnu ráðningu lýkur. Mér er kunnugt um að til þessa er mjög horft í löndum í kringum okkur og það er með ýmsum hætti. Það er ýmist að þeir hafi hærri laun en aðrir, eða þá að þeir njóti launa í misjafnlega langan tíma eftir að þeirra afmarkaða ráðningartíma lýkur. Ég tel að það þurfi að horfa til þessa um leið og svona er ákveðið í lögum. Það var ekki gert þegar þetta ákvæði var sett í lög um Þjóðleikhús.
    Svo aðeins vegna þess að hv. þm. Guðrún Helgadóttir spurði hvers vegna endurskoðun þjóðminjalaga nú sem eru til þess að gera ný, frá 1989. Ástæðan er sú að það er komin nokkur reynsla á þau og það hafa fundist á þeim ýmsir hnökrar og ég minni á vegna þess að við sátum þá bæði á þingi, ég og hv. þm. Guðrún Helgadóttir, að þegar frv. var til meðferðar í þinginu hafði verið unnið að því er ég best veit af mikilli vandvirkni af nefnd sem hafði starfað í nokkuð langan tíma, það tók afar miklum breytingum í þinginu, við lokaafgreiðslu málsins. Ég held að því miður þá hafi það verið gert í of miklum flýti. Það er einmitt það sem hefur komið í ljós, ýmsir hnökrar á lögunum sem kalla á endurskoðun. Ég held sem sagt að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess að það voru gerðar á því breytingar hér í þinginu sem ekki voru jafn vel grundaðar og nefndin sem skilaði frv. hafði gert.
    Hv. þm. Svavar Gestsson sagði að hann gerði sér alveg grein fyrir því að mér hefði sem ráðherra ekkert verið skylt að leita til starfsmanna þegar ég skipaði þjóðminjavörð til tveggja ára. Mér þykir vænt um að heyra það frá honum vegna þess að hann hefur áður látið að því liggja og líka í greinargerð að ég hafi gengið á svig við lög. Ég skil hans orð svo að hann taki þau til baka, ég hafi sem sagt ekki gerst lögbrjótur þegar ég skipaði í stöðu þjóðminjavarðar.
    Hv. þm. sagðist vera forvitinn að heyra hverjar væru hugmyndir um stjórnun þjóðbókasafnsins. Ég sagði áðan að ég teldi mér ekki fært að fara að greina frá þeim vegna þess að það er enn á vinnslustigi. Það er verið að vinna að samningu frv. um hið nýja þjóðbókasafn en samstarfsnefnd, sem ég veit að hv. þm. kannast við sem hefur verið lengi að störfum, hefur látið fara frá sér hugmyndir sem ég býst ekki við að sé neitt leyndarmál, það kemur í þeirra fundargerðum sem fara víða og þeirra hugmyndir eru að menntmrh. setji fimm manna stjórn til fjögurra ára í senn og af þessum stjórnarmönnum verði tilnefndir tveir af háskólaráði og tveir af aðilum utan háskólans sem ráðherra felur slíkt verkefni að tilnefna. Þar hafa verið settar fram hugmyndir eins og samstarfsnefnd Rannsóknaráðs og Vísindaráðs að sú nefnd tilnefni Bókavarðafélagið og fleira kemur til greina og síðan skipi ráðherra formanninn án tilnefningar. Þetta eru hugmyndir sem eru á kreiki en ég tek skýrt fram að þær eru ekki fullmótaðar og ekki skilað sem endanlegum tillögum.
    Hvaða rök séu fyrir því að ráðherra eigi að ráða hverjir gegni hinum æðstu embættum, ég held að þau séu í sjálfu sér ósköp einföld. Ráðherrann er ábyrgur fyrir þessum helstu stofnunum sem undir hin einstöku ráðuneyti heyra og mér finnst sú röksemd alveg nægja til þess að hann skipi hinn æðsta embættismann. En ég hef látið áður fara frá mér þá skoðun af því að það var minnst á Ríkisútvarpið sérstaklega að það sé ekkert endilega rétt að ráðherra skipi hina einstöku framkvæmdarstjóra. Það hef ég látið fara frá mér áður, m.a. í sjónvarpsþætti þar sem rætt var um framtíð Ríkisútvarpsins þannig að ég tek það skýrt fram að ég er alveg til viðræðu um þá breytingu að ráðherra skipi eingöngu æðsta yfirmanninn.
    Ég tel mig nú vera valddreifingarmann og nefni bara í því sambandi að ég hef verið fylgjandi því að grunnskólinn verði færður yfir til sveitarfélaganna og það þýðir auðvitað að allar mannaráðningar við grunnskólann færast frá ráðherra, líka skólastjórarnir, þeir færast þaðan. Þannig að ég er því fylgjandi.
    Ég biðst svo undan því í lokin að vera ásakaður fyrir að vera með eitthvert einræðishugarfar. Ég tel mig ekki vera það þótt ég telji rétt að halda við þeirri venju að ráðherra skipi hina æðstu embættismenn hinna ýmsu stofnana sem undir ráðuneytin heyra en ég tek enn og aftur fram að mér finnst alveg koma til greina að ráðherra þurfi að leita umsagnar með einum eða öðrum hætti og þá, eins og ég sagði áðan, að dómnefndir koma mætavel til greina og það vil ég láta athuga.