Alþjóðasamningur um ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 10:37:55 (1064)

[10:37]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Með þessari þáltill. fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu bókunar við alþjóðasamning frá 29. nóv. 1969 um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar og bókunar við alþjóðasamning frá 18. des. 1971, um stofnun alþjóðasjóðs til þess að bæta tjón af völdum olíumengunar. Bókanir þessar voru gerðar í Lundúnum 19. nóv. 1976, en þær eru birtar sem fylgiskjöl með tillögunni.
    Samkvæmt í heimild í lögum nr. 14/1979 gerðist Ísland árið 1980 aðili að alþjóðasamningi um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar og alþjóðasamningi um stofnun alþjóðasjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar, en þessir samningar tóku gildi 15. okt. 1980 að því er Ísland varðar og fengu þá lagagildi hér á landi.
    Bókanirnar sem hér um ræðir varða breytingu á gjaldmiðli. Í þeim er horfið frá því að nota gullfranka sem viðmiðun fyrir bætur og nota í staðinn sem meginreglu eininguna ,,sérstök dráttarréttindi`` eða SDR sem skilgreint er af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Er þetta gert til að samræma alþjóðlegar reglur um greiðslur. Íslendingar hafa ekki þurft að greiða í alþjóðasjóðinn hingað til vegna þess hve lítið magn af olíu er flutt til landsins. Miðað við innflutning síðustu ára eru litlar líkur á því að til þess komi að innflutningsaðilar þurfi að greiða í sjóðinn þar sem innflutningur hvers innflytjanda hefur verið verulega undir mörkum.
    Með staðfestingu þessara bókana er verið að taka af allan vafa um að bætt verði tjón af völdum olíumengunar og standi þar ekki í vegi gullfrankinn góði sem hætt er að nota sem gjaldmiðil í alþjóðaviðskiptum.
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til, að tillögu þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og utanrmn.