Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 13:41:55 (1096)

[13:41]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Ég vil gjarnan svara þeim fyrirspurnum sem hv. 7. þm. Reykn. beindi til mín. Í fyrsta lagi spurði hann: Er verið að gera Landsvirkjun að hlutafélagi? Svarið við því er að það er engin slík vinna í gangi í iðnrn. nú fremur en síðast þegar hann spurði þessarar sömu spurningar.
    Í öðru lagi spurði hann hvort ég teldi ekki að æskilegt væri að til væri í landinu sterkur innlendur banki. Svarið við því er já. Ég tel að það sé nauðsynlegt. Ég tel að íslenska bankakerfið hafi hins vegar gott af samkeppni erlendis frá ef áhugi væri á slíku af erlendum bönkum, en þeir hafa ekki sýnt því máli neinn áhuga sem kannski, því miður, sýnir að sú hyggja sumra Íslendinga að fyrir utan þá múra sem við höfum hlaðið í kringum þetta litla eyríki standi einhverjir auðmenn í röðum, bíðandi eftir því einu að geta ruðst yfir þessa fámennu þjóð með allt sitt kapítal. Það er bara einfaldlega ekki svo. Eins og hv. 7. þm. Reykn. benti á þá hafa tilraunir okkar til þess að finna slíka efnaða aðila, sem vildu festa fé sitt á Íslandi, ekki borið nógu góðan árangur, þó svo að nefnd á nefnd ofan hafi verið á hnattreisu til að leita að slíkum aðilum. Það er einfaldlega svo að sá skelfilegi ótti manna sem hafa verið í skugganum á bak við múrana og aldrei séð til sólar, er ekki meiri heldur en þetta. Þegar blessuð sólin fær að skína í gegnum rifurnar, þá finnst ekki sá draugagangur sem átti að vera þar fyrir utan.
    Ég er alveg sammála hv. þm. að það sé æskilegt að í landinu sé til sterkur innlendur banki og við verðum að stuðla að því að sjálfsögðu. En ég ítreka að ég tel að það sé fjármálastofnunum eins og öðrum hollt að þurfa að eiga í samkeppni við aðra.
    Þá benti hv. þm. á, sem er auðvitað alveg rétt, að það er raunar löngu tímabært að kynna aðra fjárfestingarkosti á Íslandi heldur en hvað varðar nýtingu á þeirri orku sem við getum framleitt til stóriðju og ég lýsi ánægju minni með þessa athugasemd hv. 7. þm. Reykn. því hún lýsir því að formaður Framsfl. er áhugasamur um að finna erlenda fjárfesta til þess að aðstoða við að byggja upp íslenskt atvinnulíf. Sú yfirlýsing frá hans hálfu sem kom fram í þessu er mjög ánægjuleg því það sýnir áhuga hans og hans flokks á þessu máli. Ég er honum alveg sammála um að það þarf að gera meira átak til að finna slíka fjárfesta með þjóðum, leita bak við múrinn, leita hvort það sé ekki allt í lagi að opna á hann einhverjar glufur, kannski fyrir annað heldur en agúrkur og brokkolí. Það vill einfaldlega svo til að markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar er einmitt í miklu kynningarátaki nú, bæði gagnvart hugsanlegum fjárfestum í Bandaríkjunum og í Þýskalandi. Markaðsskrifstofan er að undirbúa kynningu á Íslandi og möguleikum fyrir erlenda fjárfesta til að fjárfesta hér í öðrum greinum en þessum hefðbundnu sem menn hafa verið að ræða um og hefur undirbúið þessa kynningarsókn bæði í Bandaríkjunum og í Þýskalandi og mun hefjast handa innan skamms til þess að auka þá kynningu. Þannig að það er þó verið að stíga þessi spor og ég er hv. þm. Steingrími Hermannssyni hjartanlega sammála um að við þurfum að gera betur í þeim efnum.