Ávinningur iðnaðarins af GATT-samkomulagi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:19:40 (1330)

[16:19]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er allt satt og rétt sem fram kom í máli fyrirspyrjanda að ávinningurinn er einkum á þessum tveimur sviðum. Tollalækkanir fyrir þann samkeppnisiðnað okkar sem er að flytja út verðmæta vöru á erlenda markaði en sennilega ekki síður sú almenna regla að afnema viðskiptahindranir eins og ríkiseinokun, eins og kvótasetningu, eins og bann við innflutningi og þá ekki hvað síst samræmdar samkeppnisreglur að því er varðar iðnað eins og skipasmíðaiðnaðinn. Þar gerðum við vissulega tilraun til þess að ná árangri í EES-samningunum. Tilraunin var í því fólgin að fá Evrópubandalagið til þess að falla frá svokölluðu ,,direktívi 7`` eða þeim verndarráðstöfunum sem í þeim felast og að samræma þá samkeppnisreglurnar þannig að EFTA-ríkin og Evrópubandalagsríkin byggju við sama kost á meðan það er á annað borð leyfilegt. Það tókst því miður ekki. Það eina sem hafðist upp úr því var fyrirheit um það að þegar þessi reglugerð kæmi til endurskoðunar skyldi haft fullt samráð við EFTA-ríkin.
    Að þessu leyti má segja að GATT viðskiptaviðræðurnar kenndar við Úrúgvæ eru mikilvægari heldur en nokkrir fjölþjóðlegir fríverslunarsamningar svæðisbundnir vegna þess að hér erum við að gera ráð fyrir að samræma bæði verulega lækkun tolla og útrýmingu viðskiptahindrana sem oftar en ekki eru einokunarkerfi eða ríkisstuðningskerfi til hagsbóta fyrir alla aðila. Ég tek undir með hv. þm. að það hefði verið æskilegt ef hægt hefði verið að sýna fram á einhver dæmi um slíkt, en ástæðan fyrir því er einföld. Meðan tilboð ríkjanna hafa ekki verið lögð fram og ekki verið úr þeim unnið, þá eru slík dæmi vafasöm vegna þess að það getur verið nokkur munur á þeim tilboðum og ekki hægt að slá föstu fyrir fram hver verði hin almenna niðurstaða.