Seðlabankastjóri

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 13:40:08 (1465)

[13:40]

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég er þakklátur fyrir að hæstv. viðskrh. skyldi éta ofan í sig fleipur sitt hér í ræðustól á Alþingi og það var akkúrat það sem ég ætlaðist til.
    Ég vil leyfa mér að vitna til umræðna um frv. um Seðlabanka Íslands sem hér fóru fram fyrir skemmstu og vitna til ummæla sem ég viðhafði þá, með leyfi forseta. Á einum stað segi ég:
    ,,Ég er ekki sammála því sem hv. 8. þm. Reykn. var að dylgja með í ræðustólnum að draga í efa hæfni Jóns Sigurðssonar seðlabankastjóra.`` --- Síðar segi ég: ,,Ég tel að Jón Sigurðsson sé alveg prýðilega hæfur til að vera einn af þremur bankastjórum Seðlabankans.``
    Þar með tel ég að frumhlaup hæstv. viðskrh. hafi verið algjörlega ástæðulaust og gott að hann át þetta ofan í sig hér í ræðustólnum.
    Ég tel einmitt að fulltrúar Íslands í stjórn Norræna fjárfestingarbankans (Forseti hringir.) og kratar í stjórn bankans hafi unnið gott starf með því að gera Jón Sigurðsson að bankastjóra Norræna fjárfestingarbankans. Ég tel að það sé starf sem henti honum vel og íslensku þjóðinni og miklu betur heldur en pólitískt starf Jóns Sigurðssonar.