Samkomulag um GATT-samningana

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 13:46:10 (1472)

[13:46]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til að rifja upp að GATT-málið sem slíkt er mönnum á hinu háa Alþingi vel kunnugt. Í janúar 1992 gerði ríkisstjórnin sérstaka bókun um ákveðin grundvallaratriði varðandi GATT sem er kunnugt. Ég hef í skýrslum mínum til Alþingis, bæði árið 1992 og 1993, gert ítarlega grein fyrir samkomulaginu sjálfu og seinast þeim lítilfjörlegu breytingum sem á því hafa orðið í nýjustu samningum Bandaríkjanna og Evrópubandalagsins, svokölluðu Blair House-samkomulagi, þannig að öll grundvallaratriði málsins eru rækilega og ítarlega kynnt. Og að svo miklu leyti sem það er niðurstaðan að tilboð Íslands er í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar, þá er málið með öðrum orðum kunnugt þótt ég taki undir með hv. þm. að það er sjálfsagt mál og eðlilegt þegar tilboðið liggur fyrir að kynna það mjög rækilega í viðeigandi þingnefnd.