Hæstiréttur Íslands

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 14:29:43 (1495)

[14:29]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það verður ekki annað sagt um hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, en að hann hafi farið á kostum hér í ræðustól og sveiflast frá nútíð til fortíðar og vissulega einnig viðrað sínar skoðanir um það hvar Hæstiréttur ætti að vera. Nú er það svo að Hæstiréttur er einn af þeim þremur hyrningarsteinum sem lýðræði Íslands hvílir á. Þrískipting valdsins er grundvöllur lýðræðisins og hæstiréttur er sá hyrningarsteinn sem ræður úrslitunum um það hvort um réttarríki er að ræða eða ekki í hverju landi. Vegna þeirra athugasemda sem komu varðandi ríkissaksóknara má segja sem svo að ef ríkissaksóknari sinnir ekki sínum málum nægilega þá má segja að Hæstiréttur komi þá inn sem sá aðili sem réttir af þann kompás. Því að hver og einn sem vill fá ríkissaksóknara til að sækja mál getur jafnframt höfðað einkamál ef honum sýnist svo.
    Ég set dálítið spurningarmerki við það að í Hæstarétti eigi að sitja átta dómarar vegna þess að þar er um slétta tölu að ræða en ekki oddatölu. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að það eigi að vera oddatala því að meiri hluti Hæstaréttar ræður. Hins vegar tel ég að það hafi orðið mikil afturför þegar fjöldi í Hæstarétti er orðinn slíkur að það getur gerst eins og staðan er nú að dómar verði ekki þeir sömu eftir því hverjir kveði upp dóminn. Það er sú hætta sem fylgir því að kveðja aðeins til hluta af Hæstarétti hverju sinni til að kveða upp dóma og það er mikill veikleiki hins íslenska stjórnkerfis að þetta skuli vera á þann veg. Sá sem hér stendur ber sök í því máli því að það skal viðurkennt að ég studdi þá breytingu á sínum tíma á þeirri forsendu að það var mjög eftir því gengið af þáverandi hæstv. ráðherra dómsmála, Friðjóni Þórðarsyni, að það yrði fjölgað í Hæstarétti svo afgreiðsla mála yrði örari. Ég held aftur á móti að við þurfum að koma því þannig fyrir að Hæstiréttur verði ávallt það fámennur að það verði ekki nema ein niðurstaða möguleg út úr hans dómum og hann verði það leiðbeinandi að menn hiki við að halda áfram með öll mál til Hæstaréttar.
    Ég hef stundum lesið hæstaréttardóma og skal lýsa því yfir hér og nú að mér finnst þeir rökfræðilega betur upp byggðir en flest annað lestrarefni sem maður kemst í. Þar leggja menn sig virkilega fram við að rökstyðja sitt mál. En hins vegar hefur mér fundist sá misbrestur vera á með dóma Hæstaréttar að því er ekki fylgt eftir með eðlilegum hætti að mínu mati og það er að mínu mati, um það má ávallt deila, að sá sem tapi máli beri kostnaðinn að fullu. Hann borgi málskostnaðinn eins og málskostnaðurinn er en ekki að það sé dæmdur einhver miklu minni málskostnaður í bætur eða þá að málskostnaður sé látinn falla niður. Því ef eitthvað örvar menn til að halda áfram til illinda og deilna er það að sjálfsögðu það ef Hæstiréttur telur rétt að standa þannig að úrskurði varðandi málskostnað að það sé tiltölulega auðvelt mál að halda áfram með mál til Hæstaréttar jafnvel þó það liggi ljóst fyrir öllum vitibornum mönnum sem vilja um það fjalla hlutlaust að eldri dómar Hæstaréttar og undirréttardómurinn segir allt um það hvernig fara muni. Ég held þess vegna að málafjöldi fyrir Hæstarétti í dag helgist að nokkru leyti af þessu. Það má vel vera að það sé rangt mat en þetta er engu að síður mín skoðun.
    Ég tel að sú hugmynd, sem hér er sett fram um það að Alþingi eigi að staðfesta hver er skipaður í Hæstarétt eftir að ráðherra hefur lagt fram sína tillögu, sé af hinu góða. Ég er sannfærður um að á bak við þau vinnubrögð kemur fram sú niðurstaða að það verður meiri eining á bak við afgreiðslu mála. Þeir sem settir eru dómarar í Hæstarétt hafa meirihlutavilja þingsins á bak við sig á hverjum tíma til þeirrar setu og það hlýtur að verða þeim styrkur í störfum seinna meir.
    Við vitum að ráðherrar geta fallið í þá freistingu að skipa menn til starfa ekki algerlega eftir hæfni þeirra heldur e.t.v. eftir þeim þrýstingi sem þeir verða fyrir og því miður eru þess mörg dæmi að embættisveitingar á Íslandi standist ekki eðlilegar gæðakröfur. Ég er þess vegna sannfærður um að þetta er af hinu góða. Ég hygg að hæstv. núv. dómsmrh. muni hugsa sig um tvisvar áður en hann leggst gegn þeirri tillögu sem hér er. Þetta er mjög í anda þess sem virtar lýðræðisþjóðir sumar hverjar viðhafa.
    Hér kemur svo aftur á móti í 2. gr. ákvæði um það að ,,fá leyfi um stundarsakir`` og ,,hverfur frá störfum`` og ,,kemur til baka``. Að mínu viti er mjög óheppilegt að hæstaréttardómari hverfi frá störfum og einhver sé settur þar inn dálítinn tíma og verði svo að víkja fyrir nýjum manni. Ég tel nánast að það kerfi gangi ekki upp sé um lengri tíma að ræða. Mér finnst að menn verði að gera upp við sig hvort menn ætla að vera hæstaréttardómarar eða ætla þeir ekki að vera hæstaréttardómarar. Þegar ég segi þetta er mér ljóst að sennilega er verið að leggja meiri kvöð á þessa menn en aðra menn með því að viðra þær skoðanir sem ég hef í þessum efnum. Örstuttur tími sem menn hverfa frá er aftur á móti mannlegur þáttur, það er allt annað. En að menn geti horfið frá í lengri tíma tel ég að gangi ekki upp. Og ég er þeirrar skoðunar að af hæstaréttardómurum verði á margan hátt að krefjast meiri færni og meiri sjálfsaga en af öðrum mönnum. Ég tel líka að allur losaragangur á því hverjir sitja í Hæstarétti hverju sinni sé mjög hættulegur fyrir þjóðfélagið. Traust þjóðarinnar á Hæstarétti verður að vera til staðar, traust hins almenna borgara, ef það er ekki stenst réttarríkið ekki þær kröfur sem við gerum til þess.
    Ég geri mér að vísu grein fyrir því að okkar alþjóðlegu samskipti munu e.t.v. ýta undir hugmyndir um það að menn fari hér til embættisverka á Íslandi, fái svo frí og fari út í heim til Evrópu og komi svo aftur til embættisverka hér. Að mínu viti væri ekki skynsamlegt að taka upp þá ráðabreytni að leyfa slíka hluti. Það er einu sinni svo að sá sem er settur til skamms tíma til að vera hæstaréttardómari og þyrfti

að víkja fyrir slíkum manni er í veikri stöðu, mjög veikri stöðu. Það mætti undir mörgum kringumstæðum segja að það væri honum meira hagsmunamál t.d. að dæma ekki gegn íslenska ríkinu á meðan hann sæti í Hæstarétti vitandi að það væri hægt að setja hann út þar eftir stuttan tíma. Það gæti verið að ríkisstjórn sem fengi stefnu á sig frá einstaklingi hugsaði þeim manni þegjandi þörfina sem hefði ráðið úrslitum í meirihlutaatkvæðagreiðslu í Hæstarétti um það að dæma gegn íslenska ríkinu í einhverju máli svo ég nefni aðeins eitt atriði í þessu sambandi.
    Ég veit ekki hvaða álit hv. 9. þm. Reykv. hefur á allshn., það voru svona einhverjar vöflur á honum varðandi það hvernig hún mundi taka á svona máli. En ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að allshn. muni ganga til þess verks að skila þessu frv. aftur inn til deildarinnar, inn til þingsins, hvort sem brtt. kæmu þá fram eða ekki og vona að mál sem þetta verði ekki látið liggja án þess að afstaða verði tekin til þess.