Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 18:28:23 (1633)

[18:28]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er dagljóst að búvörusamningurinn lagði verulegar byrðar á íslenska bændur, íslenskan landbúnað. Ég vefengi ekki það sem hv. þm. sagði hér um þau efni. Þar hafa bændur þurft að taka á samkvæmt samningi sem þeir stóðu að við ríkisvaldið. Það er hins vegar jafnljóst að sá samningur sem hér er til umræðu en ekki orðinn að veruleika mun auka mjög verulega á þann vanda sem við er að fást fyrir íslenskan landbúnað þó að svo megi vera að sú hagræðing sem fram hefur farið geri bændum að einhverju leyti kleift að takast betur á við þann vanda sem innflutningi fylgir heldur en ella væri.
    Það sem ég tel eina stærstu hættuna, bráðahættuna af þessu samkomulagi, ef að veruleika verður, felst í innflutningi upp að 5% þar sem ekki er hægt að koma vörnum við og þar sem ljóst er að í boði verður vara á langtum lægra verði en gildir um afganginn. Og það hefur komið hér fram í umræðum að ekkert liggur fyrir hvernig á því verður haldið. Það er stóra agnið sem hæstv. utanrrh. og þeir sem eru að vinna með honum að því að opna hér allt upp á gátt í sambandi við innflutning á landbúnaðarvörum ætla sér að nota sem beitu til þess að knýja fram miklu stærri tíðindi í þessum málum heldur en liggja fyrir á þessum blöðum.