Breytingar á sjúkrahúsmálum

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:16:06 (1667)


[15:16]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hv. málshefjanda á yfirskrift nefndrar skýrslu og tillagna sem er, með leyfi forseta: ,,Tillögur til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um skipan sjúkrahúsmála.``
    Með öðrum orðum er á ferðinni skýrsla og tillögur embættismannanefndar sem skipuð var til að tína saman upplýsingar um stöðu þessara mála, not af sjúkrahúsþjónustu í landinu og koma fram með hugmyndir og tillögur til breytinga væru efni til þess.
    Ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála, sá sem hér stendur, hefur ekki tekið afstöðu til þessara tillagna. Þvert á móti leggur hann á það ríka áherslu að þessar tillögur verði gagn til þess að fara um land allt, til þess að ræða í hinu háa Alþingi um ýmis þau efnisatriði sem þar er að finna, um þær tillögur sem þar er komið fram með.
    Það var einmitt lögð á það áhersla af minni hálfu gagnvart forsvarsmönnum þeirrar embættismannanefndar sem hér um ræðir að tryggja það að senda forráðamönnum viðkomandi stofnana eins fljótt og kostur væri þá skýrslu sem hér um ræðir. Á sama hátt taldi ég brýnt og var sammála forsvarsmönnum þessarar nefndar að ekki væri unnt að bíða eftir því lengi að kynna fjölmiðlum þær helstu niðurstöður sem þar var að finna, ekki síst í ljósi þeirrar nýju fjölmiðlunar sem ég hygg að hv. alþm. þekki þegar ýmis aukaatriði verða að aðalatriðum, þegar innihald skýrsla af þessum toga fer á flot.
    Ég bið hið háa Alþingi forláts á því að þessi skýrsla og þessar tillögur skuli ekki komnar í hendur hv. alþm. og mun ráða nú þegar bót á því þannig að strax í fyrramálið verður hún komin í hólf þeirra.
    Ég legg hins vegar aðaláherslu á að þessar tillögur og þetta samsafn upplýsinga sem hér er að finna geti verið grundvöllur hreinskiptinna skoðanaskipta um framtíðarskipan þessara mála. Hér er ekkert sem brestur á á næstu vikum eða mánuðum. Hér er ekkert að finna sem menn leggja til grundvallar í stórum stærðum í fjárlagafrv. ársins 1994. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að hið háa Alþingi, hinir stóru hópar heilbrigðisstarfsmanna um land allt og ekki síður þeir sem þjónustunnar eiga að njóta, geti haft gagnlegt tæki þar sem upplýsingar eru gefnar um notkun á viðkomandi spítölum, það greint niður í einstaka aðgerðarflokka og að menn geti rætt þessi mál á grundvelli upplýsinga.
    Það kann vel svo að vera að menn geti greint á um gagnsemi eða jafnvel réttmæti einstakra upplýsinga sem hér er að finna. Ég vil hins vegar árétta það að þær eru að öllu leyti unnar úr bókhaldi og eftir upplýsingum frá heimamönnum sjálfum. En væntanlega mun umræðan sem fram fer á næstu vikum og mánuðum glöggva enn frekar þau álitamál sem hér eru uppi og þá held ég að vel sé gert.