Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:44:18 (1678)



[15:44]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Fyrir nokkrum dögum lýsti heilbrrh. því yfir við fjölmiðla að náðst hefði, eins og hann kallaði það, samkomulag um farsæla lausn í málefnum leikskóla sjúkrahúsanna. Það hefur hins vegar ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hafa með þessum málum á undanförnum dögum að aðrir en hann eru litlu nær um það hver verður framtíðarstaða þessara heimila, þeirra barna og foreldra sem hlut eiga að máli og síðast en ekki síst þess starfsfólks sem nú starfar á þessum heimilum. Ráðherrann virðist sem sagt einn í sinni sælu trú á farsæla lausn og víst er að það er ekkert samkomulag um hana.
    Hið svokallaða samkomulag um farsæla lausn felst í því að ráðherra hefur einhliða ákveðið að lækka framlög ríkisins til reksturs leikskóla sjúkrahúsa í áföngum næstu fimm árin þannig að þau lækki um 60% strax á næsta ári og verði með öllu horfin á árinu 1998. Í bréfi sem barst framkvæmdastjórum sjúkrahúsanna þann 5. nóv. sl. tilkynnir ráðherra þeim að á næsta ári muni framlagið, eins og stendur í bréfinu, ,,miðast við 14 þús. kr. á mánuði fyrir hvert barn``, ég endurtek, fyrir hvert barn sem nú er á þessum leikskólum. ,,Viðmiðunin verður fjöldi og aldur þessara barna.`` Síðan segir í þessu bréfi að hvert sjúkrahús fyrir sig muni verða að ákveða hvernig það rekur leikskólann miðað við þennan ramma.
    Stjórn Ríkisspítalanna tók ráðherra á orðinu og samþykkti það 15. nóv. sl. að láta eitt yfir alla ganga og hefur ákveðið að gjald fyrir heilsdagsvistun á næsta ári verði 14.400 kr. en þó með þeim fyrirvara að 20 þús. kr. styrkur á barn komi frá ríki og sveitarfélagi. Er það ætlun stjórnarinnar að gjaldið verði

hið sama fyrir öll börn án tillits til þess hvort þau hafi pláss nú þegar eða ekki.
    Daginn eftir gerði stjórn Borgarspítalans sambærilega samþykkt, en þar segir jafnframt að þessi ákvörðun sé tekin í trausti þess, eins og stendur í samþykktinni: ,,að heilbrrn. geri ekki aðrar breytingar á rekstri leikskólanna næstu ár. Heilbrrh. breyti því núverandi ákvörðun sinni um að draga úr fjármagni til leikskólanna eftir því sem þeim börnum sem nú eru á leikskólunum fækkar. Með því verður ekki unnt að reka leikskólana áfram þannig að þeir þjóni sértækum hagsmunum Borgarspítalans,`` segir í bréfinu.
    Fyrrnefnd ákvörðun ráðherrans, sem ég vitnaði til hér áðan, var ekki skýrari en svo að 12 dögum síðar eða nánar tiltekið þann 17. nóv. sl. sá hann ástæðu til að fela embættismanni sínum að senda út nýtt bréf þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Framlag það sem ríkið mun greiða á næsta ári, 14 þús. kr. á mánuði, miðast við hvert einstakt rými. Ef tvö eða fleiri börn eru á sama rými skiptist greiðslan hlutfallslega`` o.s.frv.
    Við skulum skoða hvernig þetta kemur út. Ef rekstrarstyrkur ríkisins miðast við rými er rekstrarframlagið til Borgarspítalans um 19 millj. á ári, en ef það miðast við barnafjölda þá er það um 25 millj. kr. á ári. Þarna munar því um 6 millj. hjá Borgarspítalanum og líklega um 8 millj. hjá Ríkisspítölunum.
    Þessi munur gerir kannski ekki útslagið um lausn þessa máls. Það sem vegur miklu þyngra er sú algera óvissa sem eftir sem áður verður um framtíðarstöðu þessara heimila. Ákvörðun ráðherra er í besta falli skammgóður vermir, en það er alls ekki hægt að sjá að hún feli í sér einhverja lausn til frambúðar.
    Svo áfram sé tekið dæmi af Borgarspítalanum og þeim börnum sem þar eru nú þá lítur framtíðarþróun leikskólans þannig út, miðað við ákvörðun ráðherra, að fyrri hluta næsta árs greiðir ríkið fyrir 118 pláss en síðari hluta árins fyrir 82,8 pláss. Árið 1997 verður síðan aðeins greitt fyrir tvö pláss, þá væri búið að trappa þetta niður. Það blasir auðvitað við að rekstrargrundvöllur þessa leikskóla og annarra verður löngu brostinn áður en svo langt er komið og raunar mun það gerast strax á síðara hluta næsta árs ef svo heldur fram sem horfir.
    Vegna þessarar óvissu hefur starfsfólk á leikskólum spítalanna ekki treyst sér til að svara því hvort það muni endurráða sig frá og með næstu áramótum, enda til lítils að endurráða sig ef uppsagnir blasa svo aftur við jafnvel næsta haust. Það var einmitt þess vegna sem stjórn Borgarspítalans samþykkti sl. föstudag svohljóðandi samþykkt:
    ,,Stjórnin getur ekki undir þessum kringumstæðum tekið ákvörðun um framtíðarrekstur leikskóla Borgarspítalans, en fer fram á fund með heilbrrh. nú þegar vegna þessa máls.``
    Án efa er þó staðan á Landakoti verst vegna þess að framtíðarstaða sjúkrahússins sjálfs er í algeru uppnámi. Þar hafa stjórnendur spítalans líka leigt út rekstur annars leikskólans, Brekkukots, án nokkurs samráðs við foreldra eða starfsfólk sem heyrði fyrst um þessa ráðstöfun í fjölmiðlum. Fyrir liggur að starfsfólkið þar verður ekki endurráðið og foreldrum er stillt upp andspænis gerðum hlut. Nú hefur þeim verið boðið pláss á þessum nýja leikskóla fyrir 30 þús. kr. á mánuði og ef marka má fréttir þá er með öllu óljóst hvort niðurgreiðsla ríkis og sveitarfélaga breytir nokkru um þetta 30 þús. kr. gjald.
    Það er með öllu óþolandi að stjórnendur spítalans ráðskist með þessum hætti með starfsfólk og börn þess og þetta endurspeglar algert virðingarleysi í garð barna. Um þessi vinnubrögð verður ekki annað sagt en það að þau eru til skammar þeim sem þau stunda.
    Virðulegi forseti. Þegar ljóst var um síðustu áramót að starfsfólki sjúkrahúsanna hafði tekist með miklu og fórnfúsu starfi og álagi að ná fram verulegum sparnaði í rekstri fór þáv. heilbrrh. Alþfl., Sighvatur Björgvinsson, í heilmikla yfirreið, þakkaði fólkinu fyrir átakið og hét því að á næstunni yrði tryggður vinnufriður á þessum stofnunum. Þetta fyrirheit gaf hann í krafti embættisins, en nú hefur það verið svikið. Það getur enginn vinnufriður verið þar sem allt er í óvissu.
    Virðulegur forseti. Mig langar að lokum að bera hér fram fimm spurningar fyrir ráðherra, en þær eru svohljóðandi:
    1. Hvernig sér ráðherra fyrir sér að hægt verði að framkvæma þá ákvörðun hans að ríkið greiði aðeins rekstrarframlag til leikskóla sjúkrahúsanna vegna þeirra barna sem eru þar nú þegar en ekki vegna hinna sem fá þar inni hér eftir?
    2. Hefur ráðherra rökstudda ástæðu til að ætla að Reykjavíkurborg eða önnur sveitarfélög sem hlut eiga að máli muni ganga inn í eða yfirtaka framtíðarrekstur leikskóla sjúkrahúsanna?
    3. Hvaða atvinnuöryggi í nánustu framtíð getur ráðherra boðið þeim 200 fóstrum og starfsstúlkum sem nú vinna á leikskólum sjúkrahúsanna?
    4. Hver er réttarstaða þeirra fóstra og starfsstúlkna sem sagt hefur verið upp á Brekkukoti, m.a. með tilliti til biðlauna?
    5. Hvernig hyggst ráðherra tryggja það að ekki skapist ófremdarástand á sjúkrahúsunum þann 1. jan. nk.?