Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:50:33 (1679)



[15:50]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé ástæða til þess að rifja það upp að fyrr í haust fór fram umræða um málið sem hér er nú rætt. Þá voru áhyggjuefni margra hv. þm. þau að börn á leikskólum sjúkrahúsanna yrðu að ganga út um næstu áramót. Þá yrði allt starfsfólk viðkomandi leikskóla atvinnulaust. Og í þriðja lagi að foreldrar viðkomandi barna yrðu að ganga út á sama hátt.
    Þá gagnrýndu margir hv. þm. að ekki yrði veittur nauðsynlegur aðlögunartími að breyttu breytanda, þ.e. það væri ekki framtíðarverkefni ríkisins að standa undir og kosta leikskólarekstur. Flestir sem þá töluðu tóku undir það meginstef en sögðu að það væri ekki gerlegt með jafnskömmum fyrirvara. Sú vinna sem unnin hefur verið af hálfu ráðuneytisins í góðu samstarfi við forsvarsmenn viðkomandi spítala, við starfsfólk viðkomandi leikskóla og við fulltrúa foreldra viðkomandi barna hefur leitt til þess að menn horfa fram á þá staðreynd að ekki einasta verður börnunum boðin áframhaldandi vist fyrir sambærilega upphæð og verið hefur, ekki einasta verður hverjum einasta starfsmanni boðin áframhaldandi ráðning og þar með verður viðkomandi foreldrum þessara barna auðvitað gefinn kostur á áframhaldandi ráðningu og ég geng að því sem vísu að þannig geti það gengið eftir. Hér hefur verið tekið einmitt á þeim atriðum sem bar hæst í umræðunni fyrr í haust með mjög myndarlegum hætti.
    Nú kveður hins vegar við þann tóninn að þessar tilraunir ráðuneytis og annarra hlutaðeigandi aðila séu allar af hinu vonda, séu hreint alveg ómögulegar í stórum stíl fram og til baka. Og hv. málshefjandi ræðir nú um lengri framtíð í þessum efnum og spyr: Hvernig getur heilbrrn. tryggt það til langframa að haldið verði úti óbreyttum leikskólarekstri á sjúkrahúsunum? Það getur hv. ráðuneyti ekki og það stendur nákvæmlega sem ég sagði fyrr í haust að það getur ekki og á ekki að vera framtíðarverkefni ríkisins með vísan til leikskólalaga, með vísan til verkaskiptalaga að halda úti þessum rekstri til lengri tíma. Hins vegar hefur verið komið til móts við þær ábendingar að skapa þarna aðlögun, tryggja þeim börnum sem þar eru varanlega vist þar til þau komast á skólaaldur. Tryggja eftir því sem kostur er starfsfólki viðkomandi stofnana áframhaldandi störf.
    Ráðuneytið hefur einnig lýst því yfir að það vilji koma að málinu í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög til lengri tíma og horfa til þess hvernig viðkomandi sveitarfélög geti nýtt þann ágæta mannafla sem þarna er til staðar og í mörgum tilfellum þau traustu mannvirki sem til staðar eru, í stað þess að ráðast í þennan stofnkostnað hvert fyrir sig. Og ég hef vonir um að samstarf um slíkt geti tekist.
    Það liggur líka fyrir og ég ætla ekki að á því verði neinar stórar breytingar, að sveitarfélögin komi inn í þennan rekstur, þótt með óbeinum hætti sé, með fjárframlagi, samanber það sem sveitarfélög gera gagnvart einkareknum leikskólum. Það mun þýða að gjald fyrir hvert barn í heilsdagsvistun verður í mörgum tilfellum miklum mun lægra en gerist hjá sveitarfélögum annars staðar hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem gjaldtaka fyrir börn sem eru ekki í forgangshópi hleypur á bilinu 14.000--19.000 kr. og í annan stað verður tryggð áframhaldandi vist allt til þess tíma að viðkomandi barn kemst á skólaaldur.
    Virðulegi forseti. Ég hygg að staða þessa máls sé þvert á móti í þeim farvegi núna að menn geti fest hina síðustu enda og bundið hina síðustu hnúta og tryggt það að þessi starfsemi geti gengið áfram snurðulaust á næsta ári og vonandi undir eilítið breyttum formerkjum, undir öðru rekstrarformi til lengri framtíðar litið. Þá hygg ég að vel og rétt hafi verið gengið fram.